Hoppa yfir valmynd
22. mars 2019 Utanríkisráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Sameiginlegur skilningur um gildi þriðja orkupakkans gagnvart Íslandi

Guðlaugur Þórðarson ráðherra og Miguel Arias Canete framkvæmdastjóri orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins ræddu hinn 20. mars 2019 þriðja orkupakka ESB, með hliðsjón af einstökum aðstæðum á Íslandi að því er varðar endurnýjanlega orku og orkumarkaði. Þeir tóku fram að þátttaka Íslands í EES (Evrópska efnahagssvæðinu) hefði reynst íslenskum borgurum afar vel sem og Evrópusambandinu. Ísland og aðrir aðilar að EES hafa beitt reglum Evrópusambandsins um orkumál, sem lagaðar eru að sérstökum aðstæðum EES, með árangursríkum hætti í meira en áratug. Þessar reglur hafa raunar fært neytendum fleiri valmöguleika og stuðlað að því að gera orkumarkaði skilvirkari. 

Að því er varðar innleiðingu þriðja orkupakkans á Íslandi eru aðstæður á Íslandi verulega frábrugðnar þeim sem eru til staðar í löndum þar sem orkunet tengjast yfir landamæri. Þess vegna hentar hið sérstaka fyrirkomulag fyrir Ísland, sem sameiginlega EES-nefndin samþykkti, þar sem komist er hjá allri ónauðsynlegri byrði, best fyrir íslenskar aðstæður.  

Raforkukerfi Íslands er eins og stendur einangrað kerfi og ekki tengt við raforkusæstreng milli Íslands og orkukerfis innri markaðar ESB. Í því ljósi hefur stór hluti ákvæða þriðja orkupakkans, þ.e. þau sem varða viðskipti og grunnvirki fyrir raforku yfir landamæri, ekki gildi eða neina raunhæfa þýðingu fyrir Ísland á meðan enginn raforkusæstrengur er til staðar.  Þar af leiðandi munu ákvæði um ACER (Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði) og reglugerðin um raforkuviðskipti yfir landamæri[*] ekki hafa nein merkjanleg áhrif á fullveldi Íslands í orkumálum.

Verði grunnvirki yfir landamæri sett upp í framtíðinni hefur eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvörðunarvald um málefni sem ná yfir landamæri, en ekki ACER. Þetta hefur verið samþykkt í viðkomandi aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 93/2017 frá 5. maí 2017 sem endurspeglar sjálfstæði stofnana EFTA undir „tveggja stoða kerfi“ samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.   

Gildandi ákvæði þriðja orkupakka ESB hafa engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og ákvörðunarvald yfir nýtingu og stjórnun þeirra. Ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar ESB liggur alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum.  Ákvæði þriðja orkupakkans eins og þau gilda gagnvart Íslandi breyta ekki núverandi lagalegri stöðu að þessu leyti.

[*]  Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 713/2009 frá 13. júlí 2009 um að koma á fót Samstarfsstofnun eftirlitsaðila á orkumarkaði og reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 714/2009 frá 13. júlí 2009 um skilyrði fyrir aðgangi að neti fyrir raforkuviðskipti yfir landamæri.
 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum