Hoppa yfir valmynd
21. janúar 2020 Matvælaráðuneytið

Fyrstu stuðningsgreiðslur ársins til sauðfjárbænda

Framleiðendur í sauðfjárrækt hafa fengið fyrstu stuðningsgreiðslur ársins 2020. Þær byggja á bráðabirgðaáætlun um heildarframlög vegna ársins 2020. Um er að ræða tvöfalda mánaðargreiðslu, fyrir janúar og febrúar. Bráðabirgðaáætlun er aðgengileg á Bændatorginu undir rafrænum skjölum.

Athygli er vakin á breytingu sem varð um áramót með reglugerð nr. 1253/2019 um stuðning við sauðfjárrækt að beingreiðslur í ull (ullarnýting) eru undanskildar að þessu sinni, en ársáætlun verður birt fyrir 1. júlí þegar Ístex ehf., söfnunaraðili ullar, hefur yfirfarið innlegg allra bænda vegna framleiðsluársins 2019. Á sama tíma verða beingreiðslur í ull greiddar í einni greiðslu fyrir allt árið 2020 skv. þeirri ársáætlun. Ársuppgjör fyrir beingreiðslur í ull verður gert eigi síðar en 1. júní. 

Opnað verður fyrir að framleiðendur geti sent inn athugasemdir í AFURÐ, greiðslukerfi landbúnaðarins, um áætlunina í þessari viku en athugasemdir þurfa að berast við áætlun innan 30 daga frá birtingu hennar.

Endurskoðuð ársáætlun um framlög til sauðfjárbænda í beingreiðslum út á greiðslumark, gæðastýringargreiðslum, svæðisbundnum stuðningi og býlisstuðningi fyrir árið 2020 verður birt fyrir 1. mars að loknu ársuppgjöri vegna stuðningsgreiðsla á árinu 2019.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

15. Líf á landi

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum