Hoppa yfir valmynd
19. apríl 2021 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Þórdís Kolbrún skipar starfshóp um uppbyggingu eldgosasvæðisins í Geldingadölum

Jarðeldar á Reykjanesi - myndIstock/Þórir Ingvarsson

Á föstudag kynnti Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, ríkisstjórn áform um að settur yrði á fót starfshópur helstu hagaðila sem falið verði að koma með tillögur um uppbyggingu eldgosasvæðisins í Geldingadölum til skemmri og lengri tíma. 
 
„Á meðan gosið stendur verður áframhaldandi aðsókn að svæðinu en eftir að því lýkur má gera ráð fyrir að það verði vinsæll áfangastaður ferðamanna til frambúðar og að þetta svæði verði fjölsóttur ferðamannastaður. Öll þessi uppbygging þarf að þola álag ferðamanna allan ársins hring og þarf að skoða hvernig tryggja megi öryggi ferðamanna og upplýsingamiðlun til þeirra auk þess sem huga þarf að aðgangsstýringu,“ segir Þórdís Kolbrún.

Nú þegar hefur verið gripið til bráðaaðgerða á svæðinu af hálfu Grindavíkurbæjar auk þess sem veitt hefur verið  fé af fjárheimild Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til uppbyggingar á svæðinu. Mikilvægt er hins vegar að hugað verði að fyrirkomulagi á svæðinu til langs tíma en jafnframt að gripið verði til nauðsynlegra bráðaaðgerða og skýrari mynd fengin á aðkomu ólíkra aðila til frambúðar. Svæðið sem um ræðir er allt í eigu einkaaðila og réttur og hagsmunir þeirra miklir en á sama hátt eru hagsmunir samfélagsins miklir, bæði hvað varðar aðgang heimamanna að svæðinu og uppbyggingu ferðaþjónustu.

Í hópnum munu eiga sæti fulltrúar landeigendafélaganna tveggja á svæðinu, Grindavíkurbæjar, Áfangastaðastofu Reykjaness, Umhverfisstofnunar, Veðurstofunnar, almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á Suðurnesjum auk Skarphéðins Berg Steinarssonar, ferðamálastjóra, sem stýrir starfi hópsins.
 
Hópnum er ætlað að skila frumtillögum sínum til starfshóps til verndar innviðum vegna eldsumbrota á Reykjanesi, sem stýrt er af ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytisins, eigi siðar en 30. apríl nk. Lokatillögur hópsins skulu liggja fyrir eigi síðar en 31. ágúst nk.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

17. Samvinna um markmiðin

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum