Hoppa yfir valmynd
27. janúar 2022 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Skúli Eggert Þórðarson verður ráðuneytisstjóri nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis

Skúli Eggert Þórðarson - mynd

Skúli Eggert Þórðarson verður skipaður ráðuneytisstjóri nýs menningar- og viðskiptaráðuneytis og hefur störf þann 1. febrúar nk.

Það er Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ferðamála-, menningar- og viðskiptaráðherra sem skipar í embættið. Ákvörðun um flutning Skúla Eggerts í embætti ráðuneytisstjóra er tekin á grundvelli laga um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins þar sem kveðið er á um heimild til flutnings embættismanna ríkisins milli starfa.

Skúli Eggert er lögfræðingur að mennt og hefur gegnt embætti ríkisendurskoðanda frá árinu 2018. Hann var áður ríkisskattstjóri frá 2006 og fram að því skattrannsóknarstjóri frá árinu 1993.

Samkvæmt tillögu til þingsályktunar um breytta skipan ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem samþykkt var á Alþingi í dag, færast verkefni atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis að mestu í tvö ráðuneyti; menningar- og viðskiptaráðuneyti þar sem mætast málaflokkar menningar, viðskipta og ferðaþjónustu og matvælaráðuneyti með málaflokkum sjávarútvegs, fiskeldis, landbúnaðar, skógræktar og landgræðslu. Þrír málaflokkar færast til annarra ráðuneyta, en orkumál verða í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneyti og iðnaðar- og nýsköpunarmál í háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðuneyti.

Benedikt Árnason, ráðuneytisstjóri atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins verður ráðuneytisstjóri í nýju matvælaráðuneyti.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir er ráðherra ferðamála, menningar- og viðskipta og Svandís Svavarsdóttir er matvælaráðherra.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum