Hoppa yfir valmynd
1. júlí 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Frumvarpsdrög varðandi málefni fatlaðs fólks og félagsþjónustu sveitarfélaga til umsagnar

Málin skoðuð
Málin skoðuð

Í febrúar 2014 skipaði félags- og húsnæðismálaráðherra starfshóp til þess að endurskoða lög um málefni fatlaðs fólks og lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Tilefni endurskoðunarinnar er meðal annars innleiðing samnings Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks, sem undirritaður hefur verið af hálfu íslenskra stjórnvalda og bíður fullgildingar. Þá eru ýmis ákvæði laganna komin til ára sinna og þarfnast endurskoðunar í takt við samfélagsþróun.

Starfshópurinn, sem starfar undir formennsku Willums Þórs Þórssonar alþingismanns, er skipaður fulltrúum frá velferðarráðuneyti, innanríkisráðuneyti, Reykjavíkurborg, Akureyrarbæ, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Samtökum félagsmálastjóra, Landssamtökunum Þroskahjálp, Landssambandi eldri borgara, Öryrkjabandalagi Íslands og Hjálparstarfi kirkjunnar.

Starfshópurinn hefur nú unnið drög að tveimur frumvörpum, annars vegar til nýrra laga um þjónustu við fatlað fólk með sérstakar þjónustuþarfir, sem ætlað er að leysa núgildandi lög af hólmi, og hins vegar frumvarpi til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Starfshópurinn vill gefa almenningi, félagasamtökum og öðrum aðilum, sem láta sig málefnið varða, færi á að veita umsögn um fyrirliggjandi drög áður en endanlegum tillögum verður skilað til ráðherra í haust.

Helstu efnisatriði og breytingar sem felast í framangreindum frumvarpsdrögum eru eftirfarandi:

  • Ákvæði um þjónustu við fatlað fólk eru endurskoðuð til samræmis við samning Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks.

  • Lögð eru til nýmæli varðandi notendasamninga, notendastýrða persónulega aðstoð, sértæka frístundaþjónustu fyrir fötluð börn og ráðgjöf og þjónustu við börn með miklar þroska- og geðraskanir.

  • Samspili laga um þjónustu við fatlað fólk og félagsþjónustulaga er breytt þannig að skerpt er á þeirri almennu þjónustu sem veitt er á grundvelli laga um félagsþjónustu á meðan lögum um þjónustu við fatlað fólk er ætlað að mæta þeim sem hafa meiri stuðningsþarfir vegna fötlunar. Þannig hefur kafli sem fjallar nú um félagslega heimaþjónustu verið endurskoðaður og ákvæði um almenna þjónustu, svo sem ferðaþjónustu, færð í lög um félagsþjónustu sveitarfélaga. Ákvæði um rétt til þjónustu hafa verið skýrð frekar.

  • Lögð eru til nýmæli varðandi notendaráð fyrir þá hópa sem nýta sér þjónustu sveitarfélaga auk þess sem lagt er til að sett verði á fót samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks. Lagt er til að ráðherra verði gert skylt að leggja fram framkvæmdaáætlun í málefnum fatlaðs fólks.

  • Kaflar laganna sem fjalla um málsmeðferð, eftirlit, kæruheimildir og starfsleyfi hafa verið endurskoðaðir.

  • Ákvæði um húsnæðismál hafa verið endurskoðuð til samræmis við breytingar sem gerðar hafa verið á lagaumhverfi húsnæðismála.

Umsagnarfrestur: Óskað er eftir að umsagnir og athugasemdir sendist á [email protected] í síðasta lagi 29. ágúst næstkomandi.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum