Hoppa yfir valmynd
5. janúar 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Samkomulag varðandi víxlverkun bóta og hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega

Á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnar Íslands og Landssamtaka lífeyrissjóða frá 3. desember 2010 um víxlverkun bóta almannatrygginga og lífeyrissjóðanna og hækkun frítekjumarks ellilífeyrisþega í áföngum hafa aðilar gert með sér svohljóðandi samkomulag sem undirritað var 30. desember 2010.

 SAMKOMULAG

1. gr.

Bætur almannatrygginga skulu ekki lækka á tímabilinu 1. janúar 2011 – 31. desember 2013 þrátt fyrir almennar hækkanir greiðslna frá lífeyrissjóðum svo sem vegna vísitöluhækkunar eða hækkunar á hámarki viðmiðunartekna fyrir orkutap.

2. gr.

Lífeyrissjóðir munu á sama tímabili ekki beita tekjuviðmiðun eftir úrskurð gagnvart nýjum örorkulífeyrisúrskurðum. Á sama tíma munu lífeyrissjóðir ekki lækka lífeyri vegna hækkunar lífeyris frá Tryggingastofnun ríkisins.

3. gr.

Ákvæði 1. og 2. gr. gilda um bætur almannatrygginga og greiðslur frá lífeyrissjóðum. Ákvæðin gilda ekki um atvinnutekjur eða aðrar tegundir tekna sem hafa áhrif á fjárhæðir bóta. Ákvæðin ná til þeirra sem fá lífeyrisgreiðslur á framangreindu tímabili og skal þeim ekki beitt með afturvirkum hætti.

 4. gr.

Landssamtök lífeyrissjóða og Tryggingastofnun ríkisins skulu útbúa verklagsreglur þar sem kveðið er á um nánari framkvæmd samkomulagsins til að það nái tilætluðum árangri.

 5. gr.

Frítekjumark á lífeyrissjóðstekjur ellilífeyrisþega gagnvart útreikningi bóta almannatrygginga skal hækka í þremur áföngum. Fyrsti áfangi skal koma til framkvæmda hinn 1. janúar 2013, annar áfangi hinn 1. janúar 2014 og síðasti áfanginn hinn 1. janúar 2015, en þá skal frítekjumarkið hafa hækkað til samræmis við frítekjumark örorkulífeyrisþega gagnvart lífeyrissjóðstekjum.

 6. gr.

Skipuð verður nefnd sem hefur það hlutverk að finna lausn á víxlverkunum bóta almannatrygginga og lífeyrissjóðanna til framtíðar. Þá skal nefndin gera tillögur um aukið samstarf Tryggingastofnunar ríkisins og lífeyrissjóðanna til einföldunar og hagsbóta fyrir lífeyrisþega, t.d. á sviði þjónustu, upplýsingamiðlunar og rafrænna samskipta.

 Reykjavík, 30. desember 2010

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum