Hoppa yfir valmynd
28. október 2011 Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um skipulag heilbrigðisþjónustu og ráðstöfun fjármuna

Skipulag-heilbrigdisthjonustu-GH-ogfleiri
Velferðarráðherra á fréttamannafundinum í dag

Bæta þarf fyrirkomulag á skráningu og birtingu heilbrigðisupplýsinga, gera breytingar á greiðslufyrirkomulagi vegna heilbrigðisþjónustu, taka upp þjónustustýringu, ljúka sameiningu heilbrigðisstofnana og breyta skipulagi sjúkraflutninga. Tillögur um þetta og fleiri aðgerðir koma fram í tillögum ráðgjafahóps Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra um skipulag heilbrigðisþjónustu og betri nýtingu fjármuna. Tillögur hópsins voru kynntar á fréttamannafundi í velferðarráðuneytinu í dag.

Niðurstöður greiningar á heilbrigðiskerfinu sýna að gæði heilbrigðisþjónustu hér á landi eru almennt mikil og heildarkostnaður sem hlutfall af landsframleiðslu sambærilegur við það sem gerist í öðrum Evrópuríkjum. Ákveðnar brotalamir eru hins vegar á kerfinu og ýmis tækifæri til breytinga sem geta falið í sér bætta þjónustu og betri nýtingu fjármuna. Helstu atriði sem ráðgjafahópurinn bendir á eru þessi:

  • Þjónustustýring (gate keeping) milli heilsugæslu, sérgreinaþjónustu, göngudeilda og bráðamóttaka sjúkrahúsa er ekki viðhöfð líkt og almennt tíðkast hjá nágrannaþjóðum. Þetta veldur því að notkun sérgreinaþjónustu eykst stöðugt með hættu á ofnotkun þeirrar þjónustu og auknum kostnaði. Sama gildir um heilsugæsluþjónustu þar sem boðið er upp á einkarekna vaktþjónustu utan dagvinnutíma. Kostnaður vegna sérgreinalækna hefur aukist um 7% frá árinu 2008 á sama tíma og útgjöld til flestra annarra þátta heilbrigðisþjónustu hafa dregist saman.
  • Skipulag Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins þarf að endurskoða, mikill munur er á mælkum afköstum heilsugæslustöðva, tvöföld yfirstjórn stöðvanna þykir ekki gefast nógu vel og teymisvinna lækna og hjúkrunarfræðinga er ekki nógu mikil.
  • Skráning heilbrigðisupplýsinga í gagnagrunna er ósamræmd og ófullnægjandi og birting upplýsinga sömuleiðis. Sama máli gegnir um skráningu og birtingu fjárhags- og starfsemisupplýsinga heilbrigðisstofnana sem leiðir til ófullkominna fjárhagsáætlana og greiningar á kostnaði.
  • Ráðgjafahópurinn telur líkur að fækka megi heilbrigðisumdæmum landsins sem nú eru sjö talsins; fjöldi heilsugæslustöðva, hjúkrunarheimila, heilbrigðisstofnana og sjúkrahúsa sé of mikill miðað við dreifingu íbúafjölda landsins og íbúaþróun.
  • Fæðingarþjónusta er veitt á níu stöðum á landinu en umfang þjónustunnar er víða takmarkað. Sama máli gegnir um framkvæmd skurðaðgerða sem einnig fer fram á níu stöðum á landinu. Lítið umfang þjónustu getur bitnað á gæðum. Alls eru 78 sjúkrabílar dreifðir um landið. Nýting þeirra er mjög misjöfn, sumstaðar nær engin.
  • Framboð öldrunarþjónustu er mjög misskipt eftir landshlutum.
  • Kostnaður vegna tiltekinna lyfja er hærri hér á landi en hjá samanburðarþjóðum, sérstaklega er kostnaður vegna tauga- og geðlyfja hærri hér.
  • Hagkvæmni stærðar er ekki nýtt að fullu við innkaup.
  • Offita landsmanna er mikill áhættuþáttur og ört vaxandi vandamál.

Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri og formaður ráðgjafahópsins kynnir tillögurnarHelstu tillögur ráðgjafahópsins

Tillögur ráðgjafahópsins til breytinga og úrbóta á heilbrigðiskerfinu eru fjölmargar en meðal þeirra helstu eru þessar:

  • Rafræn sjúkraskrá verði samtengd um allt land með upplýsingum um heilsufar hvers og eins frá vöggu til grafar.
  • Hrundið verði af stað átaki til að tryggja samræmda skráningu heilbrigðisupplýsinga í gagnagrunna auk reglulegrar og samræmdrar birtingar á heilbrigðisupplýsingum og starfsemisupplýsingum.
  • Tekin verði upp þjónustustýring í heilbrigðiskerfinu í áföngum.
  • Greiðslufyrirkomulag heilbrigðisþjónustu verði endurskoðað með meiri sveigjanleika, hagkvæmni, gæði og skilvirkni þjónustu að leiðarljósi.
  • Lokið verði sameiningu heilbrigðisstofnana.
  • Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu verði endurskipulögð þar sem einn yfirmaður verði á hverri heilsugæslustöð í stað tveggja, teymisvinna verði efld og verkferlar endurskoðaðir.
  • Skipulag sjúkraflutninga verði endurskoðað með tilliti til annarra breytinga á heilbrigðiskerfinu og samgöngubóta.
  • Þörf fyrir skurðlækningaþjónustu og fæðingarþjónustu verði endurmetin.
  • Framboð öldrunarþjónustu verði samræmt á landsvísu.

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra setti ráðgjafahópinn á fót í september síðastliðnum. Hópnum var ætlað að skoða hvort þörf væri á grundvallarbreytingum og í hverju þær gætu falist þannig að unnt væri að uppfylla markmið um öryggi og jöfnuð á sama tíma og aðhaldskröfum fjárlaga væri mætt. Eitt fremsta ráðgjafafyrirtæki heims, Boston Consulting Group (BCG), var fengið til að aðstoða ráðgjafahópinn við að greina skipulag og stöðu heilbrigðiskerfisins. Í tillögum ráðgjafahópsins er byggt á greiningu BCG, auk nýlegra skýrslna sem unnar hafa verið um ýmsa þætti heilbrigðisþjónustunnar á vegum ráðuneytisins að undanförnu.

Fulltrúar í ráðgjafahópnum

Anna Lilja Gunnarsdóttir ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu var formaður ráðgjafahópsins. Aðrir sem áttu sæti í honum voru:

Anna Sigrún Baldursdóttir, aðstoðarmaður ráðherra
Fjóla María Ágústsdóttir, sérfræðingur, skrifstofu yfirstjórnar
Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri, skrifstofu velferðarþjónustu
Björn Zoëga, forstjóri Landspítala
María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Landspítala
Kristján G. Guðmundsson, yfirlæknir, Heilsugæslunni Glæsibæ
Stefán Þórarinsson, framkvæmdastjóri lækninga á Heilbrigðisstofnun Austurlands
Steinunn Sigurðardóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og rekstrar Heilbrigðisstofnunar Vesturlands
Þorvaldur Ingvarsson, forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum