Hoppa yfir valmynd
29. desember 2011 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Tekjuskerðingarmörk vegna húsaleigubóta hækka um 12,5%

Umsókn fyllt út
Umsókn fyllt út

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra hefur ákveðið að hækka skerðingarmörk húsaleigubóta vegna fjölskyldutekna um 12,5%, úr 2,0 milljónum króna í 2,25 milljónir króna árið 2012. Þetta er fyrsta skrefið í átt að því að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera milli ólíkra búsetuforma. Með breytingunni fjölgar þeim sem eiga rétt á húsaleigubótum.

Í apríl síðastliðnum skilaði samráðshópur um húsnæðisstefnu tillögum sínum til velferðarráðherra. Ein af megintillögum hópsins fólst í því að teknar yrðu upp húsnæðisbætur í stað vaxta- og húsaleigubóta til að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera milli ólíkra búsetuforma og stuðla að því að heimili hefðu val á milli leigu-, búseturéttar- og eignaríbúða.

Velferðarráðherra setti á fót vinnuhóp um húsnæðisbætur í haust sem vinnur að því að útfæra tillögu samráðshópsins. Ráðherra fól vinnuhópnum jafnframt að gera tillögu um hækkun á tekjuskerðingarmörkum húsaleigubóta vegna ársins 2012 sem fyrsta skref í átt að því að jafna húsnæðisstuðning við fólk óháð búsetuformi og var niðurstaða hans að leggja til 12,5% hækkun sem ráðherra hefur nú staðfest með reglugerð.

Áætlað er að útgjöld ríkis og sveitarfélaga aukist um 100 milljónir króna vegna hækkunarinnar. 60% viðbótarútgjaldanna verða fjármögnuð með sérstöku framlagi ríkisins í gegnum Jöfnunarsjóð sveitarfélaga en 40% koma í hlut sveitarfélaganna, líkt og þegar húsaleigubætur voru síðast hækkaðar árið 2008.

Samkvæmt breytingunni sem tekur gildi 1. janúar 2012 skerðast húsaleigubætur óháð fjölskyldustærð í hverjum mánuði um 1% af árstekjum umfram 2,25 milljónir króna.

Grunnfjárhæð húsaleigubóta á hverja íbúð er 13.500 krónur á mánuði. Að auki bætast við 14.000 krónur fyrir fyrsta barn, 8.500 krónur fyrir annað og 5.500 krónur fyrir þriðja. Til viðbótar koma 15% þess hluta leigufjárhæðar er liggur bilinu 20.000–50.000 krónur. Húsaleigubætur geta mest orðið 46.000 krónur á mánuði, þó aldrei hærri en 50% af leigufjárhæð.  

Umsókn um húsaleigubætur skal beint til sveitarfélags þar sem viðkomandi umsækjandi á lögheimili.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum