Hoppa yfir valmynd
20. febrúar 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Félagsvísar kynntir í fyrsta sinn á Íslandi – mikilvægt stjórntæki

Fólksfjöldi
Fólksfjöldi

Velferðarráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn í liðinni viku nýja skýrslu um félagsvísa sem stefnt er að því að safna og birta reglulega. Félagsvísarnir eiga að auðvelda aðgengi stjórnvalda og hagsmunaaðila að skilgreindum upplýsingum sem varpa ljósi á þjóðfélagsástandið og styðja við stefnumótun stjórnvalda.

Félagsvísar eru safn fjölbreyttra tölfræðilegra upplýsinga sem varpa ljósi á þjóðfélagsástandið á hverjum tíma og ólíkar aðstæður ýmissa þjóðfélagshópa. Markmiðið er að hafa slíkar upplýsingar aðgengilegar á einum stað og auðvelda þannig stjórnvöldum og almenningi að fylgjast með þróun og breytingum í samfélaginu. 

Velferðarvaktin lagði til við velferðarráðherra árið 2009 að fengnir yrðu sérfræðingar til að setja saman íslenska félagsvísa. Tillagan var kynnt í ríkisstjórn og samþykkt að ráðast í slíka vinnu á vegum velferðarvaktarinnar undir stjórn fulltrúa efnahags- og viðskiptaráðuneytisins og velferðarráðuneytisins sem þar eiga sæti.

Við upphaf verkefnisins var ákveðið að styðjast við það verklag sem er viðhaft í skýrslu Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD) „Society at a Glance“ sem gefin er út árlega. Jafnframt var ákveðið að velja félagsvísa sem greina velferð, efnahags- og félagslega þætti og heilsufar íbúa í landinu í ljósi þjóðfélagsaðstæðna og fyrirkomulags þjónustu.

Félagsvísarnir ná yfir árabilið 2000-2010 og sýna þróun hvers þáttar á því tímabili. Sem dæmi um félagsvísa má nefna þróun greiðslubyrði eftir tekjuhópum, kyni og fjölskyldugerð, þróun meðaltekna sömu hópa, þróun fjárhagsaðstoðar sveitarfélaga, þróun útgjalda ríkis og sveitarfélaga til einstakra málaflokka og svo mætti lengi telja. Alls eru í skýrslunni birtir félagsvísar í um 170 töflum og myndum.

Framtíð félagsvísa sem stjórntækis verði tryggð

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherraGuðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir að félagsvísarnir verði stjórnvöldum ómetanlegt tæki til þess að meta áhrif opinberra aðgerða á ólíka hópa í samfélaginu, sjá hvaða hópar standa verst á hverjum tíma og í hverju vandi þeirra er fólginn: „Fyrsta skrefið hefur verið stigið með skilgreiningu félagsvísanna sem birtast í skýrslu velferðarvaktarinnar og gera okkur kleift að nálgast á einum stað margvíslegar upplýsingar sem hvergi áður hafa verið aðgengilegar á einum stað. Nú munum við taka ákvörðun um hvernig við viðhöldum þessu mikla verki þannig að tryggt sé að upplýsingunum verði framvegis safnað á reglubundinn hátt og þær gerðar aðgengilegar á vef sem birtir þær á myndrænan hátt.“

Á þriðja tug sérfræðinga tók þátt í starfinu við gerð félagsvísanna frá velferðarráðuneytinu, efnahags- og viðskiptaráðuneytinu, mennta- og menningarmálaráðuneytinu, Háskóla Íslands, Barnaverndarstofu, Tryggingastofnun ríkisins, Rannsóknum og greiningu, ríkislögreglustjóra, Hagstofu Íslands, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands, ríkisskattstjóra, ASÍ, umboðsmanni skuldara, Embætti landlæknis, Vinnumálastofnun og Þjóðskrá Íslands.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum