Hoppa yfir valmynd
3. maí 2012 Heilbrigðisráðuneytið

Heildarlöggjöf um allar heilbrigðisstéttir

Landspítali - Háskólasjúkrahús í Fossvogi
Landspítali - Háskólasjúkrahús í Fossvogi

Frumvarp velferðarráðherra til laga um heilbrigðisstarfsmenn var samþykkt á Alþingi í gær. Lögin fjalla um réttindi og skyldur þeirra 33. löggiltu heilbrigðisstétta sem starfa í landinu og leysa af hólmi fimmtán lög sem nú gilda um störf þeirra. Ný lög um heilbrigðisstarfsmenn taka gildi 1. janúar 2013.

Undirbúningur að heildarlöggjöf um heilbrigðisstarfsmenn hefur staðið yfir lengi og var víðtækt samráð haft um gerð frumvarpsins, meðal annars við fagfélög heilbrigðisstétta, Lyfjastofnun, Embætti landlæknis, menntastofnanir og heilbrigðisstofnanir.

Þörf fyrir nýja og samræmda löggjöf á þessu sviði var orðin brýn, því gildandi laga- og reglugerðaákvæði um heilbrigðisstéttir eru að ýmsu leyti úrelt. Töluvert skortir á samræmi, til dæmis um það hvaða heilbrigðisstéttir geti starfað sjálfstætt og hverjar starfi á ábyrgð annarra heilbrigðisstétta, hvaða heilbrigðisstéttir megi hafa aðstoðarmenn og hverjar ekki og ákvæði um skyldu til að veita hjálp.

Megintilgangur nýrra laga  er að samræma og einfalda gildandi ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn og tryggja betur gæði heilbrigðisþjónustu og öryggi sjúklinga með því að skilgreina kröfur til heilbrigðisstarfsmanna. Ákvæði um heilbrigðisstarfsmenn eru gerð markvissari og hnitmiðaðri en áður. Felldar eru brott ónauðsynlegar takmarkanir á starfssviði heilbrigðisstétta og ákvæðin færð til nútímahorfs þannig að heilbrigðisþjónustan og störf og starfssvið heilbrigðisstétta geti þróast með eðlilegum hætti innan ramma löggjafar.

Helstu breytingar og nýmæli sem felast í nýrri löggjöf:

  • Starfssvið heilbrigðisstétta verður ákveðið á grundvelli þekkingar og hæfni með tilliti til hagsmuna sjúklinga og úrelt ákvæði um takmarkanir á starfsréttindum felld brott.
  • Kveðið er á um að heilbrigðisstarfsmaður skuli virða faglegar takmarkanir sínar og vísa sjúklingi til annars heilbrigðisstarfsmanns þegar við á.
  • Undirstrikað er að óheimilt sé að starfa undir áhrifum áfengis eða vímuefna og heilbrigðisstofnunum heimilað að setja reglur um bann við notkun áfengis og vímuefna í tiltekinn tíma áður en vinna hefst.
  • Heilbrigðisstarfsmenn munu bera ábyrgð á því að aðstoðarmenn og nemar sem starfa undir þeirra stjórn hafi næga hæfni og þekkingu og fái nauðsynlegar leiðbeiningar til að sinna störfum sem þeir fela þeim.
  • Kveðið er á um að heilbrigðisstarfsmenn skuli gæta þess að sjúklingar, sjúkratryggingar eða aðrir verði ekki fyrir óþarfa útgjöldum eða óþægindum.
  • Í stað núgildandi ákvæða um auglýsingar koma ákvæði um þær kröfur sem gera skal til kynningar á heilbrigðisþjónustu og auglýsinga og heimild til takmörkunar í reglugerð.
  • Ráðherra er heimilað að ákveða með reglugerð að tilgreindri meðferð sé aðeins beitt af heilbrigðisstarfsmönnum, nánar tilgreindum heilbrigðisstéttum eða þeim sem fengið hafa til þess sérstakt leyfi landlæknis. Jafnframt verður heimilt að banna tiltekna meðferð. Reglugerðir um slíkar takmarkanir skuli settar að fengnum tillögum landlæknis og umsögn viðkomandi fagfélags.

    Frumvarpið og ferill málsins á Alþingi

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum