Hoppa yfir valmynd
12. desember 2012 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samhent átak tryggir langtímaatvinnuleitendum vinnu og virkni

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri
Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri

Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík undirrituðu í dag fyrsta samkomulagið um þátttöku sveitarfélags í þjóðarátakinu; Vinna og virkni – átak gegn atvinnuleysi árið 2013. Einnig var undirrituð viljayfirlýsing aðstandenda átaksins sem tryggja á 3.700 atvinnuleitendum tilboð um starfstengd vinnumarkaðsúrræði á næsta ári.

Atvinnuleysistryggingasjóður leggur 2,7 milljarða króna til átaksins sem miðar að því að öllum atvinnuleitendum, sem hafa fullnýtt eða munu fullnýta rétt sinn innan atvinnuleysistryggingakerfisins á tímabilinu 1. september síðastliðnum til loka næsta árs, verði boðin vinna eða starfsendurhæfing árið 2013. Samkvæmt viljayfirlýsingunni mun almenni vinnumarkaðurinn leggja til stærstan hlut þeirra starfa sem átakið felur í sér, eða 60%, sveitarfélögin 30% og ríkið 10%. Framlag Atvinnuleysistryggingasjóðs nýtist að mestu sem mótframlag til launa í sex mánuði fyrir þau störf sem til verða með átaksverkefninu en hluta fjárins verður varið til einstaklinga sem þurfa á atvinnutengdri endurhæfingu að halda.

Eigendur PrentmetsSamningurinn sem velferðarráðherra og borgarstjóri undirrituðu í dag felur í sér að Reykjavíkurborg leggur verkefninu til 325 ný störf en alls verða til rúmlega 1.100 störf fyrir langtímaatvinnuleitendur í borginni á grundvelli átaksins.

Við undirritun samkomulagsins og viljayfirlýsingarinnar í dag kom fram mikill einhugur um gildi átaksins og ánægja með þá breiðu samstöðu sem skapast hefur um aðgerðir til að berjast gegn langtímaatvinnuleysi og afleiðingum þess.

Undirritunin fór fram í fyrirtækinu Prentmeti en eigendur þess hafa ráðið til sín starfsfólk tímabundið í tengslum við átaksverkefni fyrir atvinnuleitendur. Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, annar eigandi fyrirtækisins segir reynsluna af þessu góða og ánægjulegt að eiga þátt í því að koma hæfileikaríki fólki sem lengi hefur verið atvinnulaust út á vinnumarkaðinn á ný.  

Undirritun viljayfirlýsingarinnarGuðbjartur Hannesson velferðarráðherra segir átaksverkefnið um vinnu og virkni afar spennandi og án efa góða leið fyrir atvinnuleitendur til að komast út á vinnumarkaðinn á ný: „Atvinnuleysi er ekki eðlilegt ástand og það brýtur fólk niður. Þess vegna er svo mikilvægt að fólki sé gefinn kostur á atvinnu, jafnvel þótt aðeins sé um að ræða tímabundin störf. Um þetta eru aðilar að viljayfirlýsingunni og samkomulaginu sammála og ég er afar ánægður með að hér hafi skapast víðtæk samstaða um aðgerðir með þessu viðamikla átaksverkefni.“

Að viljayfirlýsingunni standa; velferðarráðuneytið, fjármála- og efnahagsráðuneytið, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins, Vinnumálastofnun, VIRK starfsendurhæfingarsjóður  og Starf vinnumiðlun og ráðgjöf.


 Skrafað í prentsalnum fyrir undirritun samkomulagsins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum