Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2013 Heilbrigðisráðuneytið

Samningur um tannlækningar barna í höfn

Frá vinstri: Guðlaug Björnsdóttir SÍ, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Kristín Heimisdóttir formaður Tannlæknafélags Íslands
Frá vinstri: Guðlaug Björnsdóttir SÍ, Guðbjartur Hannesson velferðarráðherra og Kristín Heimisdóttir formaður Tannlæknafélags Íslands

Tímamót urðu í dag þegar undirritaður var samningur á milli Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands um tannlæknaþjónustu fyrir börn og unglinga yngri en 18 ára. Liðið er 21 ár frá því að síðast var gerður heildstæður samningur um tannlækningar en sá samningur rann út í árslok 1998.

Samningurinn tekur til tannlækna sem sinna almennum tannlækningum barna. Hann öðlast gildi 15. maí næstkomandi og gildir til 30. apríl 2019. Þegar samningurinn verður að fullu kominn til framkvæmda mun árlegur kostnaður nema um 1,5 milljarði króna (á verðlagi ársins 2013).

Samningurinn byggist á tillögum starfshóps sem skipaður var af Guðbjarti Hannessyni velferðarráðherra í maí í fyrra. Hópurinn skilaði tillögum um tímabundna lausn í júní 2012. Ráðherra veitti honum þá umboð til að vinna að tillögum um framtíðarfyrirkomulag tannlækninga sem fælust meðal annars í leið til að innleiða kerfi um tannlækningar fyrir öll börn sem hrint yrði í framkvæmd í skrefum á næstu árum.

Í nóvember 2012 samþykkti ríkisstjórnin tillögu velferðarráðherra um að veita Sjúkratryggingum heimild til samningaviðræðna við tannlækna á grundvelli hugmynda starfshópsins.

Tannlæknisþjónusta fyrir börn óháð efnahag

Markmið samningsins sem undirritaður var í dag er að börn yngri en 18 ára fái nauðsynlega tannlæknaþjónustu óháð efnahag foreldra. Þá standa vonir til að samningurinn leiði til þess að tannheilsa barna á Íslandi verði eins og best gerist á Norðurlöndum.

Heimilistannlæknir fyrir öll börn

Framvegis munu öll börn hafa sinn eigin heimilistannlækni. Hlutverk heimilistannlæknis er meðal annars að boða börn í reglulegt eftirlit, sjá um forvarnir og aðrar nauðsynlegar tannlækningar þeirra. Sjúkratryggingar Íslands munu gera foreldrum kleift að skrá barn hjá ákveðnum heimilistannlækni á rafrænan hátt í Réttindagátt SÍ (www.sjukra.is). 

Greiðslur

Tannlæknar munu senda reikninga sína beint til SÍ þannig að foreldrar munu einungis greiða gjald sem ákveðið verður með reglugerð.

Innleiðing kerfis

Tannlæknaþjónusta barna verður innleidd í eftirfarandi áföngum:

  • Þann 15. maí 2013 mun samningurinn taka til 15, 16 og 17 ára barna.
  • Þann 1. september 2013 bætast við 3, 12, 13 og 14 ára börn.
  • Þann 1. janúar 2014 bætast við 10 og 11 ára börn.
  • Þann 1. janúar 2015 bætast við 8 og 9 ára börn.
  • Þann 1. janúar 2016 bætast við 6 og 7 ára börn.
  • Þann 1. janúar 2017 bætast við 4 og 5 ára börn.
  • Þann 1. janúar 2018 tekur samningurinn til allra barna yngri en 18 ára.

Helsta ástæða þess að velja þessa leið er sú að vandinn er mestur í elstu aldursflokkunum. Mikilvægt er að öll ungmenni verði með góða tannheilsu við 18 ára aldur.

Samningurinn tekur einnig til barna í bráðavanda sem búa við erfiðar félagslegar aðstæður þótt þau falli ekki undir ofangreind aldursmörk. 

Rafræn samskipti

Í dag var einnig verið undirritaður samningur sem felur í rafræn samskipti með reikningsupplýsingar milli Sjúkratrygginga Íslands og tannlækna vegna þjónustu við sjúkratryggða einstaklinga. Samningurinn mun einfalda reikningsskil á milli SÍ og tannlækna og gera öll samskipti skilvirkari.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum