Hoppa yfir valmynd
4. mars 2014 Forsætisráðuneytið

Fundur með femínistum framhaldsskólanna gott veganesti

Fulltrúar femínistafélaga framhaldsskólanna
Fulltrúar femínistafélaga framhaldsskólanna

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra og ráðherra jafnréttismála, fundaði fyrir helgi með fulltrúum Sambands femínistafélaga framhaldsskólanna til að heyra hvaða áherslur ungu fólki finnst mikilvægastar til að jafna stöðu kynjanna.

Samband femínistafélaga framhaldsskólanna var stofnað 11. febrúar síðastliðinn og til fundarins voru boðaðir fulltrúar femínistafélaga sem stofnuð hafa verið í níu framhaldsskólum. Eygló Harðardóttir mun á næstunni taka þátt í opnum umræðufundi með norrænum ráðherrum á þingi kvennanefndar Sameinuðu þjóðannaí New York. Þar verður fjallað um jafnrétti kynjanna og hvernig megi hafa áhrif á náms- og starfsval ungmenna og vinna gegn staðalímyndum til að stuðla að jafnari hlut karla og kvenna í öllum greinum atvinnulífsins.

Líflegar umræður spunnust á fundi fulltrúa femínistafélaga framhaldsskólanna og ráðherra sem haldinn var í Ráðherrabústaðnum. Áhersla kom fram um að karlar þurfi að vera virkari þátttakendur í jafnréttisbaráttunni enda skipti hún þá miklu máli, rétt eins og konur. Allir fundarmenn voru sammála um að kynjafræðsla í skólum sé nauðsynleg, fræðsluna skorti og grunnt sé á fordómum. Eitt af baráttumálum nýstofnaðs sambands félaganna er að fá kynjafræði kennda í öllum skólum. Kynjakvótar voru ræddir á fundinum og var einróma álit að beiting þeirra sé nauðsynleg, þótt vonast megi til þess að í framtíðinni verði þeir ónauðsynlegir.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sagði eftir fundinn að hún væri glöð og bjartsýn á framtíðina og framfarir í jafnréttismálum eftir að hafa hitt þessa öflugu fulltrúa: „Áhugi og virk þátttaka ungs fólks í baráttunni fyrir jafnrétti kynjanna er algjör forsenda fyrir  breytingum. Ég held að stofnun femínistafélaganna í framhaldsskólunum geti valdið vatnaskilum og hleypt nýjum áherslum og auknum krafti inn í jafnréttisbaráttuna. Við þurfum á því að halda.“

Eygló segir fundinn með fulltrúum femínistafélaga framhaldsskólanna hafa verið gagnlegan og skemmtilegan og umræðunar á honum verði henni gott veganesti á fundinum  sem hún situr á næstunni með norrænum ráðherrum á þingi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna í New York.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum