Hoppa yfir valmynd
6. mars 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Úthlutun styrkja til gæðaverkefna í heilbrigðisþjónustu

Kristján Þór Júlíusson og Hólmfríður Guðmundsdóttir
Kristján Þór Júlíusson og Hólmfríður Guðmundsdóttir

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra veitti í dag styrki til sex gæðaverkefna sem tengjast þróun á skipulagi í heilbrigðisþjónustu, svo sem þróun á þverfaglegri teymisvinnu. Styrkirnir runnu til verkefna á Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri og hjá Embætti landlæknis.

Gæðastyrkir hafa verið veittir árlega frá árinu 2001 en þeir eru fyrst og fremst hugsaðar til hvatningar og viðurkenningar.

Frestur til að sækja um styrki rann út 20. desember síðastliðinn. Alls bárust 39 umsóknir um styrki hvaðanæva af landinu. Sótt var um vegna fjölbreyttra verkefna sem bera þess glögg vitni að verið sé að þróa skipulag innan heilbrigðisþjónustunnar á margvíslegan hátt með það að markmiði að auka gæði þjónustunnar.

Úthlutunarnefnd skipuð þremur fulltrúum velferðarráðuneytisins lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingarnar til verkefnanna sex. Styrkirnir nema á bilinu 300-400 þúsund krónum.

Öll verkefnin mjög áhugaverð

Veittir voru styrkir til verkefnis um að þróa og efla göngudeildarþjónustu á lyflækningasviði Landspítalans, verkefnis um að þróa og viðhalda gagnagrunni sem auðveldar heilbrigðisstarfsfólki að veita sjúklingum viðeigandi verkjameðferð eftir skurðaðgerð á Landspítalanum, verkefni á vegum Embættis landlæknis á söfnun og úrvinnslu upplýsinga um tannheilbrigðisþjónustu og tannheilsu með rafrænni vöktun á heimtun barna til heimilistannlækna og söfnun rauntímaupplýsingsa um tannheilsu barna, verkefni þar sem þróaður verður rafrænn þjónustuvefur sem mun auðvelda öll samskipti almennings og heilbrigðisstarfsmanna við Embætti landlæknis, verkefni sem miðar að því að innleiða samskiptatækni til að staðla munnleg samskipti um ástand sjúklinga á geðdeildum Landspítala og tilraunaverkefni um þverfaglega dagþjónustu á geðsviði á vegum Sjúkrahússins á Akureyri.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra sagði við afhendingu styrkjanna að verkefnin væru hvert öðru áhugaverðara: „Þau bera vitni um mikinn metnað starfsfólks og stofnana til þess að vinna sífellt að úrbótum, nýjungum og auknum gæðum í þágu notenda heilbrigðisþjónustunnar.“

Heilbrigðisráðherra ásamt styrkhöfum og samstarfsfólki

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum