Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2014 Innviðaráðuneytið

Upplýsingaöflun umboðsmanns skuldara verður styrkt

Umboðsmaður skuldara
Umboðsmaður skuldara

Umboðsmaður skuldara fær heimild til að beita dagsektum ef stjórnvöld, fyrirtæki eða samtök draga úr hömlu að veita upplýsingar sem embættinu eru nauðsynlegar til að rækja lögbundið hlutverk sitt. Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt frumvarp þessa efnis fram á Alþingi. 

Samkvæmt lögum um umboðsmann skuldara getur embættið krafið stjórnvöld um allar þær upplýsingar sem það telur nauðsynlegt til að rækja hlutverk sitt lögum samkvæmt, jafnvel þótt lög mæli fyrir um þagnarskyldu stjórnvalds. Að sama skapi er fyrirtækjum og samtökum skylt að veita umboðsmanni skuldara allar upplýsingar sem að mati hans eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu.

Umboðsmaður skuldara hefur ekki úrræði til að knýja upplýsingaskyldan aðila til að afhenda þær upplýsingar sem hann hefur óskað eftir þrátt fyrir ótvíræða lagaskyldu til að afhenda þær. Nauðsynlegt þykir að umboðsmaður skuldara fái heimild til að beita viðurlögum þegar ekki er orðið við beiðni um upplýsingar. Markmið frumvarpsins er því að gera umboðsmanni skuldara kleift að sinna þeim verkefnum, sem grundvallast á upplýsingagjöf frá stjórnvöldum, fyrirtækjum eða samtökum, með skilvirkari hætti en áður, skuldurum til hagsbóta.

Miðað er við að fjárhæðir dagsekta geti numið frá 10.000 kr. til einnar milljónar króna á dag, líkt og dagsektir samkvæmt lögum um opinbert eftirlitt með fjármálastarfsemi. Við ákvörðun dagsekta skal umboðsmaður meðal annars líta til fjölda starfsmanna viðkomandi aðila og hversu umsvifamikill viðkomandi atvinnurekstur er. Gert er ráð fyrir að sá sem ákvörðun um dagsektir beinist að fái fjórtán daga frest til að koma að skriflegum andmælum áður en ákvörðun er tekin. Ákvörðun umboðsmanns skuldara um dagsektir verður kæranleg til félags- og húsnæðismálaráðherra samkvæmt frumvarpinu.

Áhersla er lögð á að umboðsmaður skuldara leitist áfram við að afla upplýsinga í samvinnu við upplýsingaskylda aðila enda er gengið út frá því að beiting viðurlaga sé ávallt síðasta úrræðið sem gripið er til í þessu sambandi. Þá er rétt að ítreka að umboðsmanni skuldara er einungis heimilt að óska eftir upplýsingum sem eru nauðsynlegar til að hann geti sinnt hlutverki sínu lögum samkvæmt. Með frumvarpinu er þannig ekki verið að rýmka það hlutverk umboðsmanns skuldara sem honum hefur verið falið með lögum. 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum