Hoppa yfir valmynd
1. apríl 2014 Heilbrigðisráðuneytið

Framtíð heilsugæslu á Völlunum í Hafnarfirði

Vegna umfjöllunar vefmiðilsins Gaflari.is um heilsugæslu á Völlunum þar sem vísað er til viðræðna bæjaryfirvalda og heilbrigðisyfirvalda um málið vilja heilbrigðisráðherra og forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins koma eftirfarandi upplýsingum á framfæri.

Rétt er frá því greint að Hafnarfjarðarbær hafi leitað eftir viðræðum við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um uppbyggingu heilsugæslustöðvar á Völlunum á liðnu ári og að forsvarsmenn heilsugæslunnar hafi að ósk forsvarsmanna bæjarfélagsins átt fund um málið. Í þessum viðræðum kom hins vegar skýrt fram af hálfu Heilsugæslunnar að bygging heilsugæslustöðvar á Völlunum komi ekki til álita á næstu árum. Til þess skorti fjármagn og umræðan hafi því snúist um sýn til framtíðar.

Forsvarsmenn Heilsgugæslu höfuðborgarsvæðisins telja jákvætt að bæjarfélagið Hafnarfjörður sýni þá framsýni í skipulagsmálum að vilja taka frá lóð undir heilsugæslustöð, þótt fyrirsjáanlegt sé að hún verði ekki reist á næstu árum. Viljayfirlýsing sem rætt var um að gera milli Heilsugæslunnar og Hafnarfjarðarbæjar hafi snúist um það en ekki um tímasetta ákvörðun um byggingu heilsugæslustöðvar.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir að undirritun sérstakrar viljayfirlýsingar um byggingu heilsugæslustöðvar í Hafnarfirði hafi ekki verið borin undir sig en fagnar því að bæjarfélagið vilji tryggja lóð undir slíka starfsemi til framtíðar.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum