Hoppa yfir valmynd
16. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Sameining stofnana sem annast þjónustu við fatlað fólk

Sameining
Sameining

Í undirbúingi er að sameina í eina stofnun Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins, Þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og daufblinda, Heyrnar- og talmeinastöð Íslands og Tölvumiðstöðina. Þess er vænst að jafnt faglegur og fjárhagslegur ávinningur verði af sameiningunni. Stöðugildi hjá þessum stofnunum eru rúmlega 90.

Anna Lilja Gunnarsdóttir, ráðuneytisstjóri í velferðarráðuneytinu, fjallaði um fyrirhugaða sameiningu þessara stofnana í ávarpi sem hún flutti fyrir hönd félags- og húsnæðismálaráðherra á vorfundi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins. Verkefnisstjórn sem ráðherra skipaði hefur unnið að undirbúningi málsins í samvinnu við stjórnendur stofnananna og starfsfólk þeirra og eins hefur verið lögð áhersla á samráð við hagsmunafélög notenda þeirrar þjónustu sem stofnanirnar veita.

Gert er ráð fyrir að sú þjónusta sem Greiningar- og ráðgjafarstöðin hefur sinnt og miðast við börn að 18 ára aldri verði útvíkkuð og nái þá einnig til fullorðinna. Til þessa hefur fólk með þroskaraskanir eldra en 18 ára fengið þjónustu sem fólgin er í ráðgjöf, stuðningi og meðferð hjá ýmsum aðilum, meðal annars Reykjalundi, Endurhæfingu efh., Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra, Sjónarhóli og víðar. Þess er því vænst að ný sameinuð stofnun muni styrkja þjónustu við þennan hóp.

Anna Lilja sagði meðal annars þetta um fyrirhugaða sameiningu stofnananna: „Ég hef mikla trú á því að sú sameining sem ég hef fjallað um hér feli í sér margvísleg tækifæri og verði mjög til góðs, jafnt fyrir þá sem þurfa á þjónustu nýrrar stofnunar að halda og fagfólksins sem veitir þjónustuna. Það er töluvert stór hópur fólks sem í dag þarf að leita til tveggja eða jafnvel fleiri stofnana eftir þjónustu. Það segir sig sjálft að fyrir þetta fólk er mikið hagræði fólgið í því að geta fengið þjónustuna á einum stað – og eins ætti að vera auðveldara að samræma þjónustuna þegar svo háttar og sníða hana betur að þörfum hvers og eins. Það er einnig óhætt að ætla að sameinuð og þar með nokkuð stór stofnun eigi betri kosti en litlar stofnanir á því að styðja við faglegt starf og efla það, og stuðla að aukinni nýsköpun, þróunarstarfi og rannsóknum.

Það er alveg ljóst að stofnanir verða ekki sameinaðar með góðum árangri nema stjórnendur og starfsfólk hafi trú á verkefninu og vilja til þess að láta það ganga vel. Fyrir hönd félags- og húsnæðismálaráðherra vil ég færa þakkir þeim sem að þessu máli hafa komið og sýnt í þeirri vinnu mikinn faglegan metnað og vilja til þess að gera gott starf betra í þágu þeirra sem þurfa á þjónustu að halda.“

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum