Hoppa yfir valmynd
23. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Vel heppnuð ráðstefna um samnorrænan vinnumarkað

Fánar Norðurlandanna
Fánar Norðurlandanna

Tveggja daga ráðstefnu um samnorrænan vinnumarkað þar sem fagnað var 60 ára samstarfi Norðurlandaþjóðanna á þessu sviði lauk í gær. Fundarmenn voru sammála um mikilvægi samstarfsins og gagnsemi þess. Nauðsynlegt sé að viðhalda því og vinna áfram að því að auðvelda fólki frjálsa för milli Norðurlandanna.

Ráðstefnan hófst í Hörpu með ávarpi herra Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands. Dan Hjalmarsson, framkvæmdastjóri sænsku þjóðhagsstofnunarinnar, fjallaði að því loknu um mynstur fólksflutninga milli Norðurlandanna í ljósi sögunnar. Í upphafi var Svíþjóð helsti áfangastaður Norðurlandabúa í atvinnuleit en nú sækja flestir Norðurlandabúar til Noregs og næstflestir til Danmerkur. Undanfarin ár hafa rúmlega 50.000 Norðurlandabúar flust til annars norræns lands á ári hverju. Margir sækja einnig vinnu í öðru landi en þeir búa þar sem aðstæður leyfa og árlega sækja allt að 70.000 einstaklingar vinnu í öðru norrænu landi en þeir búa í.

Gott fordæmi Norðurlandaþjóðanna

Afmælisráðstefna í HörpuEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðisráðherra og samstarfsráðherra Norðurlanda, flutti opnunarávarp ráðstefnunnar í gær og ræddi meðal annars um áherslur Íslands á sviði vinnumarkaðsmála árið 2014, þar sem Ísland fer með formennsku norræna samstarfsins. Hún fjallaði einnig um breytingar sem orðið hafa á samstarfinu í tengslum við aðild Norðurlandaþjóðanna að Evrópska efnahagssvæðinu og Evrópusambandinu og sagði meðal annars: „Þótt aðild okkar að evrópsku samstarfi hafi valdið breytingum á norrænu samstarfi og dregið úr möguleikum á sértækum samningum milli norðurlandaþjóðanna þarf það alls ekki að vera slæmt. Okkar samstarf stendur á gömlum merg, við höfum reynslu og við höfum þekkingu á sameiginlegum vinnumarkaði og getum því miklu miðlað til annarra þjóða. Við höfum skapað gott fordæmi og getum haft áhrif á þróun þessara mála í Evrópu allri sem hin skínandi leiðarstjarna. Við höfum að ýmsu leyti sérstöðu sem gerir norræna vinnumarkaðinn sterkan, eftirsóknarverðan og áhugaverðan í augum annarra þjóða. Þar vil ég sérstaklega nefna hátt atvinnustig, mikla atvinnuþátttöku kvenna og eins að við stöndum framarlega á sviði vinnuverndar og vinnuumhverfismála svo eitthvað sé nefnt.“

Að loknu ávarpi Eyglóar Harðardóttur fjallaði Vesa Vihrälä, framkvæmdastjóri ETLA (rannsóknarstofu atvinnulífsins) í Finnlandi, um viðfangsefni norræna velferðarlíkansins og að því búnu voru pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa aðila vinnumarkaðarins og norrænum þingmönnum.

Eftir hádegi tóku ráðstefnugestir þátt í vinnufundum þar sem fjallað var um atvinnuleysi ungs fólks, viðfangsefni hnattvæðingar, frjálsa för innan Norðurlandanna og opinbera þjónustu við atvinnulausa á Norðurlöndunum. Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, flutti ávarp við lok ráðstefnunnar síðdegis, að því búnu gafst gestum kostur á að heimsækja fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu og að lokum var ráðstefnunni slitið með samverustund í Listasafni Reykjavíkur.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum