Hoppa yfir valmynd
27. ágúst 2014 Forsætisráðuneytið

Spyrjum um áhrif fremur en völd

Frú Vigdís Finnbogadóttir ávarpar gesti norrænnar ráðstefnu um jafnréttismál - /Mynd: Hörður Ásbjörnsson
Frú Vigdís Finnbogadóttir ávarpar gesti norrænnar ráðstefnu um jafnréttismál - /Mynd: Hörður Ásbjörnsson

Völd eru ekki markmið í sjálfum sér, heldur fela þau í sér möguleikann til að hafa áhrif, sagði frú Vigdís Finnbogadóttir m.a. í ávarpi við opnun norrænnar afmælisráðstefnu um jafnréttismál í Hörpu í gær. Samfélagsleg ábyrgð og virk lýðræðisþáttaka var henni ofarlega í huga en hún kom víða við í ræðu sinni.

Ráðstefnan er haldin í tilefni 40 ára afmælis norræns samstarfs í jafnréttismálum. Vigdís var fyrirlesari á sambærilegri afmælisráðstefnu hér á landi fyrir tíu árum. Hún hefur alla tíð haft mikinn áhuga á jafnréttismálum og hefur fylgst grannt með umræðu og þróun þessara mála í gegnum tíðina, jafnt hérlendis sem erlendis.

Á ráðstefnunni sagði Vigdís gleðilegt að mun fleiri karlar tækju nú virkan þátt í umræðunni fyrir jafnrétti kynjanna en áður. Þó virtist það enn vera svo að jafnréttismálin væru fyrst og fremst álitin málefni kvenna sem væri miður.

Skarður hlutur kvenna í fjölmiðlum varð Vigdísi einnig að umræðuefni. Þá lýsti hún vonbrigðum sínum með áhrif Internetsins á jafnréttisumræðuna sem í stað þess að gera konur sýnilegri og stuðla að aukinni umræðu um málefni kynjanna hefði í ýmsum tilvikum haft þveröfug áhrif. Í stað málefnalegrar umræðu væri allt of algengt að konur sættu þar alls kyns athugasemdum um útlit og persónu.

Vigdís gerði að umtalsefni útlitsdýrkun sem væri rík í samfélaginu og velti fyrir sér hvers vegna kröfur tengdar útliti beindust miklu fremur að konum en körlum. Vert væri að hafa í huga að útlitsdýrkunin yrði ekki til í tómarúmi.

Af fleiri málefnum sem Vigdís vakti athygli á má nefna mismunandi vinnuframlag karla og kvenna inni á heimilinum. Í því sambandi vísaði hún í norræna rannsókn sem sýndi fram á að konur verðu að jafnaði um fjórum tímum á dag til heimilisstarfa sem væri tvöfalt meira en karlarnir gerðu.

Vigdís rifjaði upp þegar íslenskar konur fengu kosningarétt fyrir tæpum 100 árum og ræddi um mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar og lýðræðisþátttöku. Hún áminnti hlustendur um að völd ættu ekki að vera markmið í sjálfum sér, heldur fælu þau í sér möguleikann til þess að hafa áhrif á samfélagið og stuðla að breytingum. Eins lagði hún áherslu á að lýðræðisleg þátttaka væri ekki einvörðungu bundinn við kosningar heldur fælist í því að vinna stöðugt að því að hafa áhrif í samfélaginu.

Frá norrænu jafnréttisráðstefnunni í Hörpu

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum