Hoppa yfir valmynd
19. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Eftirfylgni Ríkisendurskoðunar vegna þjónustusamninga Barnaverndarstofu

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Ríkisendurskoðun hefur birt skýrslu um eftirfylgni vegna ábendinga sem stofnunin gerði vegna þjónustusamninga Barnaverndarstofu árið 2011. Ríkisendurskoðun telur að velferðarráðuneytið og Barnaverndarstofa hafi brugðist við öllum ábendingum sem þá voru gerðar á fullnægjandi hátt.

Í skýrslunni 2011 hvatti Ríkisendurskoðun velferðarráðuneytið til þess að taka afstöðu til einkarekinna meðferðarheimila sem rekstrarforms, tryggja að greiðslur vegna samningsslita væru gagnsæjar og málefnalegar, ganga úr skugga um lögmæti uppsagnar þjónustusamninga og efla eftirlit með þjónustu Barnaverndarstofu. Þá var Barnaverndarstofa hvött til að tryggja að greiðslur vegna samningsslita væru gagnsæjar og málefnalegar, setja skýrt viðmið um nýtingarhlutfall heimila, setja skýrt viðmið um fagmenntun meðferðaraðila og tryggja að Ríkisendurskoðun bærust áritaðir ársreikningar.

Eins og fram kemur í skýrslu Ríkisendurskoðunar er af hálfu velferðarráðuneytisins enn nauðsynlegt að einkarekin meðferðarheimili séu starfrækt í einhverjum mæli. Þá kemur fram að ráðuneytið hafi beint þeim tilmælum til Barnaverndarstofu að gera nýjan samning við heimilið í Háholti í Skagafirði sem einnig fái það hlutverk að vista unglinga sem hlotið hafa óskilorðsbundinn dóm. Enn fremur hafi ráðuneytið beint þeim tilmælum til Barnaverndarstofu að ekki skuli kveða á um lágmarksnýtingu heimila í einstökum samningum. Barnaverndarstofa mun hlíta þeim tilmælum, meðal annars hvað varðar samning við heimilið í Háholti. Einnig kemur fram að Barnaverndarstofa hafi ákveðið að gera auknar kröfur um menntun og þjálfun starfsmanna meðferðarheimila. Vegna þessara og annarra viðbragða telur Ríkisendurskoðun ekki ástæðu til að ítreka ábendingar sínar frá 2011.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum