Hoppa yfir valmynd
25. september 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Stjórnsýsla félagsþjónustu og barnaverndar verði skerpt og skýrð

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur ákveðið að endurskoða stjórnsýslu ríkisins á sviði félagsþjónustu og barnaverndar, draga skýrari skil milli stjórnsýslu og þjónustuverkefna og efla eftirlit. Skipuð hefur verið nefnd til að annast útfærslu verkefnisins.

Ráðherra sagði frá ákvörðun sinni í ávarpi við setningu Barnaverndarþings sem nú er haldið í Reykjavík: „Þörfin fyrir að gera þetta hefur margoft verið rædd, en ekkert orðið úr framkvæmdinni“ sagði ráðherra sem leggur áherslu á að markmiðið sé að styrkja undirstöður heildstæðrar velferðarþjónustu ríkis og sveitarfélaga og draga fram með skýrum hætti skilin milli stjórnsýslu og þjónustu.

Í skipunarbréfi nefndarinnar segir m.a: „Mikilvægur þáttur í endurskoðuninni er stofnun stjórnsýslustofnunar sem meðal annars mun hafa með höndum upplýsingaöflun um þjónustu og skilgreiningu gæðaviðmiða á grundvelli gagnreyndrar þekkingar og upplýsinga, öflun og viðhald bestu þekkingar hverju sinni á sviði félagsþjónustu og barnaverndar og ýmis stjórnsýsluverkefni, meðal annars þau sem nú eru í umsjón Barnaverndarstofu, Fjölmenningarseturs og réttindagæslumanna fatlaðs fólks. Einnig verði athugað með hvaða hætti eftirliti með gæðum og öryggi þjónustunnar verði best háttað í hinni nýju stofnun, með sérstakri áherslu á sjálfstæði þeirrar einingar.“

Nefndinni er jafnframt falið að vinna að benda á nauðsynlegar lagabreytingar og leggja fram tillögur að nýrri stjórnsýslustofnun, staðsetningu höfuðstöðva hennar og annarra starfsstöðva.

Formaður nefndarinnar er Þóroddur Bjarnason, prófessor við Háskólann á Akureyri. Þóroddur er með doktorspróf í félagsfræði og er meðal annars þekktur af rannsóknum sínum á högum og líðan barna og ungmenna.

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum