Hoppa yfir valmynd
7. október 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Samkeppni um hönnun jafnlaunamerkis

Áttaviti
Áttaviti

Aðgerðahópur stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti og Hönnunarmiðstöð Íslands efna til samkeppni um hönnun jafnlaunamerkis sem veitt verður fyrirtækjum og stofnunum sem hljóta vottun um launajafnrétti kynja samkvæmt nýjum jafnlaunastaðli. Frestur til að skila tillögum rennur út um hádegi 5. nóvember. Veitt verður ein milljón króna í verðlaun fyrir vinningstillöguna.

Sömu laun og kjör fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf

Jafnlaunastaðallinn er sá eini sinnar tegundar í heiminum og er afurð áralangs samstarfs heildarsamtaka launafólks, atvinnurekenda og stjórnvalda. Markmiðið með gerð staðalsins var að finna leið til að eyða kynbundnum launamun þannig að greidd séu sömu laun fyrir sambærileg og jafnverðmæt störf, líkt og kveðið er á um í lögum. Staðlaráð Íslands tók þátt í gerð jafnlaunastaðalsins sem er sambærilegur að formi og gerð og alþjóðlegir stjórnunarstaðlar og því vottunarhæfur.

Jafnlaunastaðallinn lýsir vinnuferli sem fyrirtæki og stofnanir geta fylgt til að tryggja launajafnrétti á vinnustað. Vinnuferlið byggir á innleiðingu markvissra og faglegra aðferða við ákvörðun launa, skjalfestum verklagsreglum, virkri rýni og stöðugum umbótum. Þetta kerfi á að geta nýst öllum fyrirtækjum og stofnunum, óháð stærð þeirra, starfsemi, og hlutverki og hlutfalli kvenna og karla innan vinnustaðarins.

Leiðbeiningar til þátttekenda í hönnunarsamkeppninni

Jafnlaunamerkið skal endurspegla inntak jafnlaunastaðalsins sem felst í því að leiðrétta og fyrirbyggja launamisrétti kynja. Þess ber að geta að aðferðafræðin við launaákvarðanir sem staðallinn byggist á nýtist til að bæta launaákvarðanir almennt og leiðrétta mismunun.

Jafnlaunamerkið þarf að vera nothæft í alþjóðlegu samhengi vilji aðrar þjóðir nýta sér staðalinn og jafnlaunavottun á grundvelli hans. Merkið þarf að geta nýst á margvíslegan hátt í kynningarefni, á skilti, prentað og rafrænt. Það þarf að vera áhugavert, einkennandi og auðvelt í notkun í öllum miðlum.

Verðlaunasamkeppnin vegna jafnlaunamerkisins er öllum opin en veitt verða ein verðlaun að fjárhæð 1.000.000 króna fyrir bestu tillöguna. Skilafrestur tillagna er til hádegis 5. nóvember 2014.

Nánari upplýsingar um keppnina er að finna á vef Hönnunarmiðstöðvar.

Dómnefnd

Eftirtaldir skipa dómnefnd keppninnar; Benendikt Þór Valsson, Sambandi íslenskra sveitafélaga, tilnefndur af aðgerðahópi stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, Guðný Einarsdóttir, sérfræðingur tilraunaverkefnis um innleiðingu jafnlaunastaðals í fjármálaráðuneytinu, tilnefnd af aðgerðahópi stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti, Birna Geirfinnsdóttir, fagstjóri í grafískri hönnun í LHÍ, tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands, Örn Smári Gíslason, grafískur hönnuður, tilnefndur af Hönnunarmiðstöð Íslands, og Sóley Stefánsdóttir, grafískur hönnuður, tilnefnd af Hönnunarmiðstöð Íslands.

Um Jafnlaunastaðalinn ÍST 85:2012

 

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum