Hoppa yfir valmynd
12. nóvember 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Mikill ávinningur af gæðavottun Geislavarna ríkisins

Lesið í kortin
Lesið í kortin

Forstjóri Geislavarna ríkisins segir gæðahandbók og vottað gæðakerfi sem stofnunin hefur unnið eftir frá árinu 2008 hafa skilað stofnuninni margvíslegum ávinningi og verulegri og varanlegri hagræðingu í rekstri. Heilbrigðisráðherra kynnti sér starfsemi stofnunarinnar í gær.

Geislavarnir ríkisins annast öryggisráðstafanir gegn geislun frá geislavirkum efnum og geislatækjum samkvæmt lögum um geislavarnir. Hjá stofnuninni starfa tíu starfsmenn í 9,1 stöðugildi. Velta stofnunarinnar árið 2013 var um 124 milljónir króna, þar af um 72 milljónir króna af fjárlögum og um 52 milljónir króna sértekjur. Rekstrarafgangur ársins var tæp ein milljón króna.

Árið 2008 fékk stofnunin vottaða gæðahandbók samkvæmt ISO 90011 fyrir alla starfsemi stofnunarinnar, fyrst allra ríkisstofnana. Sækja þarf um endurvottun ár hvert sem fæst því aðeins að fylgt sé þeim kröfum sem staðallinn gerir til verklags og vinnubragða hjá stofnuninni. Sigurður M. Magnússon, forstjóri Geislavarna ríkisins, segir vottunina hafa skilað stofnuninni margvíslegum ávinningi og meðal annars leitt til minni yfirbyggingar, skilvirkari starfsemi og skýrari forgangsröðunar verkefna.

Verkefni Sigurður M Magnússon sýnir eitt af mælitækjum stofnunarinnarGeislavarna ríkisins eru margþætt en þar má helst nefna leyfisveitingar vegna notkunar og innflutnings geislavirkra efna og notkunar geislatækja sem gefa frá sér jónandi geislun, til dæmis röntgentækja og reglubundið eftirlit með notkun geislavirkra efna og geislatækja sem leyfi þarf fyrir.

Stofnunin fylgist einnig með geislaálagi á almenning, annast viðbúnað og vöktun vegna hvers konar geislavár, annast rannsóknir á tilfærslu geislvirkra efna í íslenskum vistkerfum og fylgist reglubundið með geislavirkum efnum í mjólk, lambakjöti, fiski, þangi, sjó, andrúmslofti og úrkomu.

Geislaálag sjúklinga er eitt helsta verkefni Geislavarna ríkisins en geislun á sjúkrahúsum stafar einkum af röntgenmyndgreiningu og tölvusneiðmyndatökum.

Geislavarnir ríkisins taka virkan þátt í norrænu og alþjóðlegu samstarfi á sviði geislavarna og er þátttakandi í ýmsum erlendum verkefnum. Erlent samstarf er stofnuninni mikils virði, bæði faglega og fjárhagslega en árlegar tekjur vegna erlendra verkefna nema 30–35 milljónum króna.

Mælingar á geislavirkni regnvatns: Ráðherra ásamt Kjartani Guðnasyni og Margréti Björnsdóttur

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum