Hoppa yfir valmynd
8. janúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ný vefsíða Átaks, félags fólks með þroskahömlun

Á myndinni má sjá Aileen Svensdóttur, formann Átaks, félags fólks með þroskahömlun og Halldór Gunnarsson við undirritun samkomulagsins.
Á myndinni má sjá Aileen Svensdóttur, formann Átaks, félags fólks með þroskahömlun og Halldór Gunnarsson við undirritun samkomulagsins.

Réttindavakt velferðarráðuneytisins veitti nýlega Átaki, félagi fólks með þroskahömlun, 740 þúsund króna styrk til að útbúa gagnvirka vef- og upplýsingasíðu fyrir félagsmenn á auðskildu máli.

Þann 30. desember síðastliðinn rituðu Aileen Svensdóttir, formaður Átaks, félag fólks með þroskahömlun og  Halldór Gunnarsson, f.h. réttindavaktar velferðarráðuneytisins,  undir samkomulag þar sem Átaki var veittur styrkur til að útbúa gagnvirka vef- og upplýsingasíðu á auðskildu máli. Vefsíðunni er ætlað að vera vettvangur fræðslu um réttindi fatlaðs fólks, umræðna um þau mál sem heitast brenna á fólki hverju sinni sem og að miðla upplýsingum um viðburði og verkefni sem tengjast málefnum þess.

Átak var stofnað af fólki með þroskahömlun árið 1993. Hlutverk félagsins er að gæta hagsmuna félagsmanna sinna, tryggja lífsgæði og réttindi fólks með þroskahömlun og að vinna gegn fordómum. Lögð er áhersla á að fólk með þroskahömlun tali sjálft fyrir hagsmunum og réttindum sínum.

Samkomulagið er í samræmi við 3. grein laga um réttindagæslu fyrir fatlað fólk, en þar er meðal annars kveðið á um að réttindavaktin annist útgáfu á auðlesnu efni og sinni upplýsingastarfi um réttindi fatlaðs fólks. Að mati réttindavaktarinnar sé það mikilsvert að nýta þann kraft, þekkingu og sköpunargleði sem ríkir hjá Átaki í þessum efnum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum