Hoppa yfir valmynd
26. febrúar 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Samstarfsteymi vegna heimilisofbeldis heldur námskeið um forvarnir og aðgerðir 

Ofbeldi
Ofbeldi

Samstarfsteymi vegna heimilisofbeldis sem skipað var af Eygló Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, mun þann 2. mars næstkomandi standa fyrir námskeiði á Eskifirði um forvarnir og aðgerðir gegn heimilisofbeldi. Fleiri námskeið eru fyrirhuguð víðar um land. Tilgangur námskeiðsins er að miðla þeirri þekkingu sem skapast hefur í tengslum við samstarfsverkefni embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og félagsþjónustu sveitarfélaga á Suðurnesjum. Verkefnið ber yfirskriftina „Að halda glugganum opnum“ og er markmið þess meðal annars að bæta rannsóknir í málum er varða heimilisofbeldi. Skal þetta meðal annars gert með markvissari viðbrögðum lögreglu, fækkun ítrekunarbrota, bættri tölfræðivinnslu, markvissari aðstoð við þolendur og gerendur og því að nýta betur úrræði um nálgunarbann og brottvísun af heimili.

Í desember á síðasta ári stóð samstarfsteymið, í samvinnu við Jafnréttisstofu, fyrir sambærilegu námskeiði á Akureyri. Þann 25. febrúar sl., undirrituðu Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, og Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri Norðurlands eystra, samstarfsyfirlýsingu um átak gegn heimilisofbeldi. Í yfirlýsingunni felst að þann 1. mars næstkomandi munu lögreglan og félagsþjónustan á Akureyri taka upp nýjar verklagsreglur sem miða að markvissari viðbrögðum og úrræðum gegn heimilisofbeldi sem og bættri þjónustu við þolendur og gerendur.

Samstarfsteymi vegna heimilisofbeldis hefur það hlutverk með höndum að hafa umsjón með því að fylgt sé samræmdri heildarstefnu um heimilisofbeldi, að gerðir séu samstarfssamningar um tiltekna þjónustu og að tilraunaverkefnum sé hrint í framkvæmd. Þá er samstarfsteyminu einnig ætlað að koma á föstu samstarfi milli félagsþjónustu, barnaverndar, heilbrigðisþjónustu, Jafnréttisstofu, lögreglu og félagasamtaka.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum