Hoppa yfir valmynd
20. maí 2015 Forsætisráðuneytið

Kynbundinn launamunur fer minnkandi hér á landi

Launajafnrétti - lógó
Launajafnrétti - lógó

Aðgerðahópur stjórnvalda og samtaka aðila vinnumarkaðarins um launajafnrétti kynnir í dag niðurstöður rannsóknarverkefna hópsins. Annars vegar er um að ræða fyrstu rannsóknina, sem gerð hefur verið hér á landi á kynbundnum launamun, sem tekur til vinnumarkaðarins í heild og hins vegar rannsóknarskýrslu um stöðu kvenna og karla á vinnumarkaði.

Skýrslan Launamunur karla og kvenna byggist á rannsókninni um kynbundinn launamun. Rannsóknin var unnin af Hagstofu Íslands fyrir aðgerðahóp um launajafnrétti. Sigurður Snævarr hagfræðingur er höfundur skýrslunnar. Rannsóknarskýrslan Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaðistaðreyndir og staða þekkingar var unnin á vegum EDDU – öndvegisseturs við Háskóla Íslands. Höfundar hennar eru dr. Katrín Ólafsdóttir, lektor í hagfræði við Háskólann í Reykjavík, og Steinunn Rögnvaldsdóttir kynjafræðingur.

Rannsókn Hagstofu og aðgerðahóps um launajafnrétti um kynbundinn launamun er byggð á miklum gagnagrunni um laun og margvíslega þætti um stöðu launamanna sem sem tekur til áranna 2008 til 2013. Á hverju áranna eru tæplega 70 þúsund launamenn í grunninum. Gögnin sýna að fleiri konur en karlar eru með háskólapróf en karlar hafa mannaforráð í meira mæli. Jafnframt sýna gögnin að óleiðréttur launamunur er aldursbundinn, mestur hjá eldri aldurshópum.

Með tölfræðilegum aðferðum er metið hvaða áhrif einstaka þættir, svo sem kyn, menntun, aldur, starfsaldur og atvinnu- og starfsgrein hafa á laun. Þannig er hægt að meta hversu mikil áhrif kynferðis eru þegar tillit hefur verið tekið til allra annarra þátta. Þegar horft er til alls gagnatímabilsins kemur í ljós að þannig metinn kynbundinn launamunur er 7,6% á vinnumarkaðnum í heild, meiri á almennum vinnumarkaði (7,8%) en á opinberum vinnumarkaði (7,0%).

Launamun má rekja til kynbundis vinnumarkaðar

Í skýrslunni er einnig leitast við að skýra launamyndun hjá körlum annars vegar og konum hins vegar. Sú greining gerir kleift að skipta launamuninum milli skýrðs og óskýrðs hluta þar sem síðari hlutinn felur í sér mat á kynbundnum launamun. Niðurstöður þeirrar greiningar eru þær að óskýrður launamunur er metinn 5,6% fyrir árin 2008 til 2013 en 5% árin 2011 til 2013. Þessi greining leiðir einnig í ljós að launamun má að verulegu leyti rekja til kynbundins vinnumarkaðar.

Gerður er samanburður við þrjár nýlegar, norrænar rannsóknir. Sá samanburður gefur til kynna að launamunur milli kynjanna sé svipaður og annars staðar á Norðurlöndunum, litlu meiri en í Svíþjóð en minni en í Danmörku og Noregi.

Lítið eftirlit með brotum á jafnréttislögum

Í rannsóknarskýrslunni Staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði var leitast við að kortleggja stöðu kynjanna á íslenskum vinnumarkaði og setja hina mörgu þætti sem staða kynjanna ræðst af í samhengi. Þá eru settar fram tillögur að aðgerðum sem stuðlað geta að auknu jafnrétti á vinnumarkaði.

Lagalegt jafnrétti er mikið hér á landi en þó sýna kannanir og rannsóknir fram á viðvarandi kynbundinn launamun sem er brot á jafnréttislögum. Launamunur er undantekningarlaust konum í óhag og hann skilar sér meðal annars í minni lífeyrisgreiðslum til kvenna. Þrátt fyrir lagaskyldu eru enn stofnanir,sveitarfélög og fyrirtæki sem skila ekki jafnréttisáætlunum til Jafnréttisstofu. Engin viðurlög eru við brotum á lögum um kynjakvóta í stjórnum fyrirtækja og kærunefnd jafnréttismála hefur eingöngu úrskurðað í 15 málum á 11 árum. Það má því draga þær ályktanir að eftirliti með jafnréttislagabrotum sé ábótavant.

Staða kvenna og karla ólík þrátt fyrir miklar framfarir

Rannsóknarskýrslan staðfestir að enn er staða kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði, þrátt fyrir miklar framfarir, ólík. Samfélagið nýtir í vaxandi mæli mannauð kvenna í stjórnunarstörfum, þó eru hindranir enn á vegi þeirra. Konur eru líklegri til að vinna hlutastörf og hverfa frekar af vinnumarkaði til að sinna ólaunuðum umönnunarstörfum. Einnig kemur fram í skýrslunni að vinnuveitendur eru tregari til að fjárfesta í starfsþróun kvenna. Í umfjöllun um ráðningar og starfsþróunarmál kemur í ljós að kynbundið misrétti á sér stað og að körlum eru oftar boðin hærri laun en konum. Þá eru konur líklegri til að taka fyrsta launatilboði sem býðst á meðan karlar gera frekar gagntilboð um hærri laun. Launamunar getur því myndast í strax ráðningarferlinu.

Meðal tillagna skýrsluhöfunda er að stjórnvöld þurfi að brúa hið svokallaða umönnunartímabil milli fæðingarorlofs og leikskóla. Bilið er í dag að miklu leyti brúað með því að móðirin er lengi í fæðingarorlofi og aðlagar vinnumarkaðsþátttöku sína að þörfum fjölskyldunnar. Þá benda skýrsluhöfundar á þá staðreynd að ábyrgðin á auknu jafnrétti á vinnumarkaði liggi ekki síður hjá stjórnendum stofnana og fyrirtækja en hjá starfsfólki. Atvinnurekendur verði að hvetja karla til að taka fæðingarorlof og veita bæði körlum og konum sveigjanleika vegna fjölskylduábyrgðar. 

Hér að neðan má nálgast skýrslurnar tvær. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum