Hoppa yfir valmynd
5. júlí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Andstaða við bólusetningar er dauðans alvara

Zsuzsanna Jakab
Zsuzsanna Jakab

Andstaða ákveðinna hópa við bólusetningu barna er verulegt vandamál sem verður að berjast gegn með fræðslu til foreldra og vandaðri upplýsingagjöf um mikilvægi bólusetningar. Zsuzsanna Jakab, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofu WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar), gerði þetta að umtalsefni á fundi smáríkja sem haldinn var í Andorra dagana 2. og 3. júlí sl.

Átta Evrópuþjóðir áttu fulltrúa á fundinum þar sem saman voru komnir ráðherrar málefna sem varða heilbrigði og velferð, auk embættismanna og sérfræðinga. Löndin sem eiga í hlut eru Andorra, Kýpur, Lúxemborg, Malta, Mónakó, Svartfjallaland, San Marino og Ísland og eiga öll sameiginlegt að þau byggja færri en ein milljón íbúa. Fjöldamargt annað er sameiginlegt með þessum ríkjum, meðal annars margvísleg verkefni og áskoranir á sviði heilbrigðis- og annarra velferðarmála og um það fjallaði fundurinn.  

Í ávarpi sem Zsuzsanna Jakab flutti í upphafi fundarins lagði hún áherslu á hve stefna stjórnvalda í hverju ríki réði miklu um heilbrigði og velferð íbúanna. Með því að stuðla að jöfnuði meðal íbúanna og tryggja aðgang allra að þeim þáttum sem mikilvægastir eru fyrir velferð fólks og getu þess til að njóta sín í samfélaginu sé lagður traustur grunnur að velfarnaði þjóðar.

Eitt af meginstefjum fundarins var umfjöllun um nauðsyn þess að setja umfjöllun og stefnumótun á sviði heilbrigðismála í mun víðara samhengi en jafnan er gert. Zsuzsanna Jakab lagði sérstaka áherslu á þetta og vísaði meðal annars til þess að heilbrigðismál væru viðamestu viðfangsefni þjóða sem yrði að vinna að sameiginlega á öllum sviðum stjórnmálanna og færa þannig heilbrigðismál inn í alla stefnumótun.

Eygló Harðardóttir í pallborðsumræðumEygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, sem var fulltrúi Íslands á fundinum ræddi um verkefni á Íslandi sem gefist hafa vel og byggjast á samvinnu þvert á málefnasvið. Þar nefndi hún sérstaklega störf Velferðarvaktarinnar og einnig Suðurnesjaverkefnið þar sem lögregla og félagsmálayfirvöld þróuðu með sér samstarf til að takast á við heimilisofbeldi á áhrifaríkan hátt sem nú er unnið að því að innleiða og þróa frekar á höfuðborgarsvæðinu.

Það er til marks um hve Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin telur andstöðu ákveðinna hópa við bólusetningum barna vera alvarlegt vandamál að Zsuzsanna Jakab, framkvæmdastjóri Evrópuskrifstofunnar, skyldi gera það að sérstöku umfjöllunarefni við upphaf smáríkjafundarins. Hún sagði óþolandi til þess að vita að smitsjúkdómar á borð við mislinga og lömunarveiki yllu dauðsföllum sem svo auðveldlega væri hægt að koma í veg fyrir á okkar tímum. Því yrði að yrði að sporna við áhrifum andstæðinga bólusetninga með vandaðri fræðslu og upplýsingagjöf byggðri á gagnreyndum staðreyndum um þessi mál.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum