Hoppa yfir valmynd
16. júlí 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Ný reglugerð um gæði og öryggi sjúkraskráa

Læknisskoðun
Læknisskoðun

Tekið hefur gildi ný reglugerð um sjúkraskrár sem kveður á um færslu sjúkraskrárupplýsinga og örugga meðferð þeirra, svo sem varðveislu og aðgang að þeim. Reglugerðin markar tímamót, því þar með verður unnt að opna að fullu fyrir samtengingu sjúkraskráa milli heilbrigðisstofnana í samræmi við markmið um öryggi sjúklinga og meðferð þeirra.

Embætti landlæknis hefur yfirumsjón með rafrænni sjúkraskrá á landsvísu. Sjúkraskrár hafa verið samtengdar milli heilbrigðisstofnana um nokkurt skeið en með verulegum takmörkunum þar sem um tilraunaverkefni hefur verið að ræða og því aðeins fáir starfsmenn á hverri stofnun sem hafa getað nýtt sér kosti samtengingarinnar.

Með nýju reglugerðinni er tekið á margvíslegum þáttum sem tryggja eiga örugga varðveislu, meðferð og miðlun sjúkraskrárupplýsinga. Meðal annars er kveðið á um að á hverri heilbrigðisstofnun eða starfsstofu heilbrigðisstarfsfólks skuli rekið öryggiskerfi sem tryggir vernd sjúkraskrárupplýsinga. Tilgreindur ábyrgðaraðili ber ábyrgð á að öryggiskerfið sé virkt og að unnið sé eftir fyrirmælum landlæknis um öryggi og gæði sjúkraskráa. Í fyrirmælunum eru tilgreindar aðgangsreglur og aðgangsheimildir sem byggjast meðal annars á starfsgrein og stöðu. Fylgst skal með því reglulega að aðgangur sé í samræmi við reglur en í því felst meðal annars að einungis þeir heilbrigðisstarfsmenn skoði sjúkraskrárupplýsingar um sjúkling sem koma að meðferð viðkomandi. Kveðið er á um að reglubundið eftirlit sé haft með því að aðgangur að sjúkraskrá sé lögum samkvæmt og að settar séu verklagsreglur í því skyni.

Bætt þjónusta við sjúklinga og betri nýting fjármuna

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherraKristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra segir gildistöku reglugerðarinnar og vinnu sem henni tengist til að tryggja örugga meðferð upplýsinga í tengslum við samtengingu sjúkraskráa fela í sér mikilvægan áfanga: „Við færumst sífellt nær því markmiði að upplýsingar um heilsufar og meðferð sjúklings fylgi honum hvar sem hann sækir sér þjónustu. Þetta bætir til muna gæði þjónustu við sjúklinginn og eykur öryggi meðferðarinnar. Með þessu eykst líka skilvirkni þar sem öruggur aðgangur heilbrigðisstarfsfólks að upplýsingum um sjúkrasögu sjúklings, niðurstöðum rannsókna o.fl. dregur úr tvíverknaði og sóun fjármuna sem af því leiðir“ segir Kristján Þór Júlíusson.

Reglugerðin er sett með stoð í lögum um sjúkraskrár nr. 55/2009.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum