Hoppa yfir valmynd
28. júlí 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Ánægja og vinátta í keppninni

Setningarathöfn Special Olympics

Þessa dagana, 25. júlí - 3. ágúst, fara fram Alþjóðasumarleikar Special Olympics í Los Angeles, en þeir eru haldnir fjórða hvert ár. Félags- og húsnæðismálaráðherra, Eygló Harðardóttir, er heiðursgestur á leikunum auk Lárusar Blöndal, forseta Íþrótta- og Ólympíusambandsins og Helgu Steinunnar Guðmundsdóttur fulltrúa Samherja, sem er aðalstyrktaraðili Special Olympics á Íslandi auk Íslandsbanka. 

Árið 2003 fóru leikarnir í fyrsta skipti fram utan Bandaríkjanna en þá fóru þeir fram í Írlandi, árið 2007 í Kína og 2011 í Aþenu í Grikklandi. Alþjóðasamtök Special Olympics hafa náð mikilli útbreiðslu og nú eru um fjórar milljónir iðkenda um heim allan. Á leikunum í Los Angeles eru 7.000 keppendur frá 177 þjóðum, 3.500 starfsmenn íþróttagreina auk 30.000 sjálfboðaliða, aðstandenda, gesta, fjölmiðlafulltrúa og áhorfenda. Keppt er í 25 íþróttagreinum og taka Íslendingar þátt í níu þeirra.

Eins og fram kemur á heimasíðu Íþróttasambands fatlaðra er sjálf þátttakan á leikunum aðalatriðið. Allir keppa við jafningja og allir eiga sömu möguleika á verðlaunum. Hugmyndafræðin byggir á gildi umburðarlyndis og jafnræðis þar sem áhersla er á að virkja þátttöku, ánægju, einstaklingsmiðaða færni og ekki síst vináttu. Þannig er hugmyndafræði Special Olympics gjörólík hinum pýramídamiðaða íþróttaheimi afreksíþrótta. 

Allar upplýsingar um leikana má finna á www.specialolympics.org, www.la2015.org og heimasíðu Íþróttasambands fatlaðra, www.ifsport.is.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum