Hoppa yfir valmynd
10. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þingmál félags- og húsnæðismálaráðherra á 145. löggjafarþingi

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, áformar að leggja 13 mál fyrir 145. löggjafarþing sem nú er hafið, ellefu þeirra fyrir áramót og tvö á vorþingi. Tíu málanna eru lagafrumvörp en þrjú þeirra þeirra þingsályktunartillögur. Þingmálin og stutta umfjöllun um efni þeirra má sjá hér.

  1. Frumvarp til laga um húsnæðisbætur
    Frumvarpið er liður í því að jafna húsnæðisstuðning hins opinbera við ólík búsetuform og stuðla þannig að því að landsmenn hafi raunverulegt val um búsetuform og búi við öryggi í húsnæðis­málum. Er frumvarpinu ætlað að bæta hag fólks á húsnæðismarkaði, einkum ungs fólks og efn­a­minni fjölskyldna í leiguhúsnæði. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðar­skipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. Endurflutt. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um félagslegt leiguhúsnæði (stofnframlög)
    Í frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ákvæði um stofnframlög ríkisins annars vegar og stofn­framlög sveitarfélaga hins vegar til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum og búsetuíbúðum sem ætlaðar eru fólki sem er undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um hús­næðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 66/2003, um húsnæðissamvinnufélög
    Frumvarpinu er ætlað að auðvelda húsnæðissamvinnufélögum að starfa á Íslandi samkvæmt því markmiði stjórnvalda að landsmenn búi við öryggi í húsnæðismálum í samræmi við þarfir hvers og eins og hafi raunverulegt val um búsetuform. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. Endurflutt. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um breytingu á húsaleigulögum, nr. 36/1994
    Frumvarpinu er ætlað að auka réttaröryggi leigjenda og koma á meiri festu í samskiptum leigjenda og leigusala svo að komast megi hjá ágreiningi síðar. Áhersla er áfram lögð á að um frjálsa samninga er að ræða milli leigusala og leigjanda en þeirri samningsgerð settur ákveðinn lagarammi. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. Endurflutt. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga (skilyrði fjár­hagsaðstoðar)
    Í frumvarpinu er lagt til að sveitarfélögum verði heimilað að setja skilyrði um virka atvinnuleit og þátttöku í virkniúrræðum þegar ákvörðuð er fjárhagsaðstoð til einstaklinga sem teljast vinnufærir. Enn fremur verði ráðherra falið að gefa út leiðbeinandi viðmiðunarfjárhæðir fjárhagsaðstoðar. Endurflutt. (Haust)
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál (EES-reglur o.fl.)
    Lagðar eru til breytingar til að bregðast við athugasemdum Eftirlitsstofnunar EFTA vegna ríkisaðstoðar til Íbúðalánasjóðs í því skyni að aðlaga starfsemi sjóðsins að ríkisaðstoðarreglum EES-samningsins. Enn fremur eru lagðar til breytingar til að greiða fyrir veðlánaflutningum og lánveitingum Íbúðalánasjóðs til einstaklinga sem ekki geta fengið lán til kaupa á íbúðarhúsnæði frá viðskiptabanka sínum. Innleiðing. (Haust)
  7. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál (Íbúðastofnun)
    Í frumvarpinu er lagt til að ný stofnun, Íbúðastofnun, taki við hluta þeirra verkefna sem Íbúðalána­sjóður hefur sinnt, m.a. veitingu stofnframlaga til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum sem ætlaðar eru hópi leigjenda sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Auk þess mun stofnunin vera stjórnvöldum til ráðgjafar um mótun húsnæðisstefnu, annast söfnun, úrvinnslu og útgáfu upp­lýsinga á sviði húsnæðismála og meta þörf á búsetuúrræðum. Frumvarpið byggist á tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála og yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um hús­næðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl. (Haust)
  8. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 44/1998, um húsnæðismál (húsnæðislán)
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir breyttu fyrirkomulagi fjármögnunar almennra húsnæðislána. Í því efni verður tekið mið af tillögum verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála, yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um húsnæðismál til að greiða fyrir gerð kjarasamninga 28. maí sl., nýrri veðlánaskipan ESB og gögnum um rekstrarforsendur nýrra húsnæðislánafélaga og stöðu Íbúða­lánasjóðs. (Haust)
  9. Frumvarp til laga um jafna meðferð á vinnumarkaði
    Frumvarpið er liður í að koma vinnumarkaðsstefnu stjórnvalda í framkvæmd en það er stefna stjórnvalda að þátttakendum á vinnumarkaði sé ekki mismunað, hvorki beint né óbeint, svo sem á grundvelli kyns, fötlunar, skertrar starfsgetu, aldurs, kynþáttar, þjóðernisuppruna, trúar, lífs­skoðunar, kynhneigðar, kynvitundar eða annarra þátta. Frumvarpið mun taka mið af efni tilskipana ráðsins 2000/78/EB og 2000/43/EB. Innleiðing. (Vor)
  10. Frumvarp til laga um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna
    Frumvarpið kveður á um jafna meðferð einstaklinga óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna á öllum sviðum samfélagsins nema á vinnumarkaði, svo sem félagslega vernd, menntun og aðgengi að vörum og þjónustu. Ákvæði frumvarpsins taka mið af þeim hluta tilskipunar 2000/43/EB sem varðar ekki vinnumarkaðinn. Innleiðing. (Vor)
  11. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda
    Samkvæmt 7. gr. laga nr. 116/2012, um málefni innflytjenda, skal ráðherra leggja fram tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára í senn. Fram­kvæmdaáætlunin var unnin í fjórum vinnuhópum á vegum innflytjendaráðs og fjallaði hver þeirra um eftirtaldar stoðir áætlunarinnar: samfélagsstoð, fjölskyldustoð, menntastoð og atvinnumála­stoð. Hver vinnuhópur hafði samráð við viðeigandi sérfræðinga eftir því sem þarfir og efni stóðu til. (Haust)
  12. Tillaga til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum
    Samkvæmt 11. gr. laga nr. 10/2008, um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, ber ráðherra að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til fjögurra ára í senn að fengnum tillögum einstakra ráðuneyta, Jafnréttisstofu og Jafnréttisráðs. (Haust)
  13. Tillaga til þingsályktunar um fjölskyldustefnu
    Í tillögu til þingsályktunar um fjölskyldustefnu og aðgerðaáætlun til ársins 2020 er lögð áhersla á börn og barnafjölskyldur. Byggt er á stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um fjölskylduvænt sam­félag og alþjóðlegum skuldbindingum íslenska ríkisins á sviði fjölskyldu- og mannréttinda. (Haust)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum