Hoppa yfir valmynd
10. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Þingmál heilbrigðisráðherra á 145. löggjafarþingi

Alþingishúsið
Alþingishúsið

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra áformar að leggja tólf mál fyrir 145. löggjafarþing sem nú er hafið, níu þeirra fyrir áramót og þrjú á vorþingi. Níu málanna eru lagafrumvörp, tvö þeirra eru þingsályktunartillögur og eitt þeirra er skýrsla til Alþingis. Þingmálin og stutta umfjöllun um efni þeirra má sjá hér.

  1. Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni
    Frumvarp til laga um staðgöngumæðrun í velgjörðarskyni. Í frumvarpinu er kveðið á um réttindi barns, staðgöngumóður og verðandi foreldra. Endurflutt. (Haust)
  2. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, og lyfjalögum, nr. 93/1994 (heilbrigðisþjónusta yfir landamæri)
    Frumvarp til laga um breytingu á lögum um sjúkratryggingar og lyfjalögum vegna tilskipunar Evrópusambandsins 2011/24 um rétt sjúklinga til að leita sér heilbrigðisþjónustu yfir landamæri. Innleiðing. Endurflutt. (Haust)
  3. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar, lögum nr. 100/2007, um almannatryggingar, og lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra (samningar)
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum laganna vegna samninga sjúkratrygg­inga­stofnunar um hjúkrunar-, dvalar- og dagdvalarrými. (Haust)
  4. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2007, um landlækni og lýðheilsu, og lögum nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki (lýðheilsusjóður)
    Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum um lýðheilsusjóð, m.a. um yfirstjórn hans og um ráðstöfun tóbaks- og áfengisgjalds. (Haust)
  5. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 16/2001, um lækningatæki (gjaldtaka)
    Lagðar verða til breytingar á ákvæðum laganna um gjaldtöku vegna eftirlits með lækningatækjum. (Haust)
  6. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 112/2008, um sjúkratryggingar (greiðslu­þátt­tökukerfi heilbrigðisþjónustu)
    Í frumvarpinu verður lagt til að fella læknis-, rannsóknar-, sjúkraþjálfunar- og annan kostnað vegna heilbrigðisþjónustu, að frátöldum lyfjakostnaði, undir eitt niðurgreiðslu- og afsláttar­fyrir­komulag. Sett verði þak á þátttöku einstaklings í heilbrigðiskostnaði hvort sem kostnaðurinn fellur til utan eða innan heilbrigðisstofnana og hver sem þörf hans er fyrir heilbrigðisþjónustu. (Haust)
  7. Frumvarp til laga um breytingar á lögum nr. 31/2002, um tóbaksvarnir
    Lagðar verða til breytingar vegna tilskipunar Evrópusambandsins 2014/40/ESB um samræmingu ákvæða í lögum og stjórnsýslufyrirmælum aðildarríkjanna varðandi framleiðslu, kynningu og sölu á tóbaki og tengdum vörum og um niðurfellingu á tilskipun 2001/37/EB. Í tilskipuninni er m.a. að finna ákvæði um rafsígarettur, bann við að setja á markað tóbaksvörur með einkennandi bragði og breyttar reglur um merkingar á tóbaksvörum. Innleiðing. (Vor)
  8. Frumvarp til lyfjalaga
    Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun lyfjalaga með tilliti til stefnumörkunar ráðherra og þeirra breytinga sem orðið hafa á Evrópulöggjöfinni í þeim tilgangi að tryggja landsmönnum nægilegt framboð af nauðsynlegum lyfjum með sem hagkvæmastri dreifingu þeirra á grundvelli eðlilegrar samkeppni og í samræmi við þær reglur sem gilda á hinu Evrópska efnahagssvæði. Innleiðing. (Vor)
  9. Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 125/1999, um málefni aldraðra (endurskoðun ákvæða sem heyra undir heilbrigðisráðherra)
    Í frumvarpinu verður lagt til að ákvæði sem varða heilbrigðisþjónustu, þar á meðal hjúkrunar­heimili, dvalarheimili, dagdvöl aldraðra og Framkvæmdasjóð aldraðra verði endurskoðuð og felld undir löggjöf á sviði heilbrigðisþjónustu. (Vor)
  10. Tillaga til þingsályktunar um geðheilbrigðisstefnu
    Í tillögunni er gerð grein fyrir stefnu í geðheilbrigðismálum og aðgerðaáætlun. (Haust)
  11. Tillaga til þingsályktunar um heilbrigðisstefnu til ársins 2020
    Í þingsályktunartillögunni er leitast við að móta skýra framtíðarsýn í heilbrigðismálum þjóðar­innar. Þar er m.a. gerð grein fyrir aðgerðum sem ætlað er að bæta almennt heilsufar þjóðarinnar og tryggja að íbúar landsins búi við sem jafnastan kost í heilsufarslegum efnum. (Haust)
  12. Skýrsla heilbrigðisráðherra um mótun stefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum vímu­efnaneyslu
    Í skýrslunni verður gerð grein fyrir heildarstefnu til að draga úr skaðlegum afleiðingum og hliðar­verkunum vímuefnaneyslu, til verndar neytendum efnanna, aðstandendum þeirra og samfélaginu í heild. (Haust)

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum