Hoppa yfir valmynd
11. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fjögur embætti laus til umsóknar hjá nýrri úrskurðarnefnd velferðarmála

Réttarhamar
Réttarhamar

Auglýst hafa verið laus til umsóknar embætti formanns nýrrar úrskurðarnefndar velferðarmála og embætti þriggja nefndarmanna. Nefndin verður til við sameiningu sex úrskurðar- og kærunefnda sem starfa á málefnasviði velferðarráðuneytisins. Formaðurinn verður jafnframt forstöðumaður úrskurðarnefndarinnar.

Félags- og húsnæðismálaráðherra mun skipa formann úrskurðarnefndarinnar og nefndarmennina þrjá í fullt  starf til fimm ára. Skipað verður í embættin frá 1. janúar 2016 þegar lög um úrskurðarnefnd velferðarmála nr. 85/2015 taka gildi.

Úrskurðar- og kærunefndir sem sameinast í nýrri úrskurðarnefnd velferðarmála eru kærunefnd barnaverndarmála, kærunefnd greiðsluaðlögunarmála, úrskurðarnefnd almannatrygginga, úrskurðarnefnd atvinnuleysistrygginga og vinnumarkaðsaðgerða, úrskurðarnefnd félagsþjónustu og húsnæðismála og úrskurðarnefnd fæðingar- og foreldraorlofsmála. 

Ákvörðun um sameiningu nefnda byggist á því að skapa eina öfluga starfseiningu með föstu starfsfólki sem sinnir þessum verkefnum í fullu starfi. Markmiðið er að auka hagkvæmni og bæta vinnubrögð. Kærum hefur fjölgað mikið á liðnum árum og þær nefndir þar sem málafjöldi er mestur hafa átt í erfiðleikum með að úrskurða innan lögbundinna fresta. Þar sem úrskurði varða oft mjög mikilsverða hagsmuni kærenda er því brýnt að bæta úr þessu.

Auk þeirra fjögurra embættismanna sem ráðherra skipar og nú hafa verið auglýst munu átta aðrir nefndarmenn eiga sæti í úrskurðarnefnd velferðarmála. Nefndin skal starfa í fjórum þriggja manna deildum undir stjórn formanns eða einhvers þeirra þriggja nefndarmanna sem skipaðir eru í fullt starf. 

Áskilið að umsækjendur uppfylli skilyrði um embættisgengi héraðsdómara

Nefndarmenn skulu uppfylla skilyrði um embættisgengi héraðsdómara og hafa þekkingu og reynslu á sviði stjórnsýslu eða öðrum störfum sem veita hliðstæða lögfræðilega reynslu. Æskilegt er að umsækjendur hafi reynslu af gerð stjórnsýsluúrskurða og þekkingu og reynslu í þeim málaflokkum sem nefndin fjallar um. Nánar er kveðið á um kröfur til umsækjenda í auglýsingu á vefnum starfatorg.is.

Til marks um umfang verkefna hjá nýrri úrskurðarnefnd velferðarmála má geta þess að árið 2014 bárust fyrrgreindum nefndum sem sameinast í henni samtals 713 kærur og árið 2013 voru kærur til þeirra tæplega 900.

Hæfni umsækjenda verður metin af matsnefnd skv. 2. tölul. 2. gr. laga um úrskurðarnefnd velferðarmála og skal nefndin láta ráðherra í té skriflega rökstudda umsögn um umsækjendur.

Auglýsingar um embættin á vefnum starfatorg.is

 

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum