Hoppa yfir valmynd
15. september 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Fundað með fulltrúum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna

Fundað með fulltrúum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna
Fundað með UNCH

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, átti í dag viðræður við fulltrúa Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna sem staddir eru hér á landi í tengslum við fund norrænnar embættismannanefndar um móttöku kvótaflóttafólks sem nú stendur yfir í velferðarráðuneytinu.

Norræna embættismannanefndin hefur fundað í dag og í gær með fulltrúum velferðarráðuneytisins, innanríkisráðuneytisins og Útlendingastofnunar. Á fundinum hefur verið rætt um hvernig Norðurlandaþjóðirnar geti miðlað þekkingu og reynslu sín á milli varðandi móttöku flóttafólks í ljósi þeirra miklu áskorana sem Evrópa stendur frammi fyrir vegna mikillar neyðar ört vaxandi hóps landflótta fólks, ekki síst vegna skálmaldarinnar á Sýrlandi.

Síðdegis í dag fundaði félags- og húsnæðismálaráðherra með þeim þremur fulltrúum Flóttamannastofnunarinnar sem staddir eru hér á landi í tengslum við fund norrænu embættismannanefndarinnar. Á fundinum sagði ráðherra að vilji íslenskra stjórnvalda stæði einkum til þess að taka á móti kvótaflóttafólki sem væri statt í flóttamannabúðum í Líbanon og öðrum nágrannaríkjum Sýrlands. Jafnframt hefðu íslensk stjórnvöld markað þá stefnu við móttöku flóttafólks að bjóða sérstaklega velkomna einstaklinga sem teljast til viðkvæmra hópa samkvæmt skilgreiningum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna.

Fjöldi sveitarfélaga vill aðstoða við móttöku flóttafólks

Velferðarráðuneytið sendi öllum sveitarfélögum landsins erindi í byrjun september þar sem þess var óskað að þau settu sig í samband við ráðuneytið ef þau væru reiðubúin til viðræðna um aðstoð við móttöku flóttafólks. Hátt í þrjátíu sveitarfélög víðsvegar um landið hafa lýst sig reiðubúin til viðræðna um aðstoð í einverri mynd. Í ljósi þess hve sveitarfélögin eru mörg sem eru reiðubúin til viðræðna hefur ráðuneytið ákveðið að leita til Sambands íslenskra sveitarfélaga um aðstoð við að skipuleggja slíkar viðræður þannig að vilji sveitarfélaganna til aðstoðar verði sem best nýttur.

Meðfylgjandi mynd er tekin á fundi Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, með fulltrúum Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, þeim Aurvasi Patel, Christof Portmann og Karin Davis. Auk þeirra eru á myndinni Linda Rós Alfreðsdóttir, og Klara Baldursdóttir Briem, sérfræðingar í velferðarráðuneytinu.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum