Hoppa yfir valmynd
28. september 2015 Heilbrigðisráðuneytið

Stefna um nýsköpun og tækni í velferðarþjónustu til umsagnar

Velferðarráðuneytið
Velferðarráðuneytið

Niðurstöður samráðshóps sem fékk það hlutverk að móta tillögur stefnu á sviði nýsköpunar og tækni í velferðarþjónustu eru hér með birtar til umsagnar. Umsagnarfrestur er til 15. október næstkomandi.

Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði í janúar 2014 samráðshóp sem fékk það hlutverk að móta stefnu í nýsköpun og tækni í félagsþjónustu. Verkefni hópsins samkvæmt skipunarbréfi var að móta stefnu sem fæli í sér skýra framtíðarsýn og markmið íslenskra stjórnvalda á þessu sviði. Jafnframt skyldi unnin áætlun um framkvæmd stefnunnar til ársins 2020.

Umsagnir um meðfylgjandi stefnu þurfa að berast velferðarráðuneytinu eigi síðar en 15. október 2015.

Umsagnir skal senda í tölvupósti á netfangið: [email protected] og merkja í efnislínu: Umsögn um stefnu á sviði velferðartækni

Upplýsingar um vinnu samráðshópsins og helstu áherslur

Samráðshópurinn hefur í vinnu sinni við stefnumótunina leitað samráðs og samvinnu við fulltrúa ríkis, sveitarfélaga, notenda og fulltrúa frá atvinnulífinu sem vinna að þróun og nýsköpun á vettvangi velferðartækni. Hugað var sérstaklega að nýsköpun og tækni sem hjálpað gæti til við að viðhalda eða þróa þjónustu velferðarsamfélagsins. Horft var til  lausna sem nýtast borgurum með sérstakar þarfir, t.d. við umönnun, verklega aðstoð, skipulag á heimilum, þjálfun, endurhæfingu, hæfingu, sérkennslu og  atvinnu með stuðningi. Ákvörðun var tekin um að afmarka stefnumótunina ekki við eitthvað eitt tiltekið málasvið heldur láta hana taka til margra málaflokka, t.d. heilbrigðismála, félagsmála, menntamála og vinnumála, auk þess að hafa áhrif á samfélagið í heild sinni.

Niðurstöður vinnu samráðshópsins voru kynntar á ráðstefnu sem velferðarráðuneytið  stóð fyrir 4. og 5. júní 2014. Í framhaldi af ráðstefnunni voru tillögur samráðshópsins teknar til skoðunar og frekari úrvinnslu í velferðarráðuneytinu. Haustið 2015 ákvað félags- og húsnæðismálaráðherra að birta opinberlega til kynningar þá stefnu og áætlun um nýsköpun og tækni sem hér fer á eftir.

Í stefnunni er m.a að finna almenna umræðu um nýsköpun og tækni í velferð og reynt er að skoða nokkur þeirra tækifæra og áskorana sem ætla má að við Íslendingar stöndum frammi fyrir á næstu árum og áratugum. Þar er t.d. bent á eftirfarandi atriði:

Hin nýja kynslóð eldri borgara

Það er staðreynd að breyting á aldurssamsetningu þjóðarinnar með auknum fjölda eldri borgara mun gera auknar kröfur til velferðarþjónustunnar. Jafnframt munu  eldri borgarar komandi ára verða langlífari af því að þeir verða heilbrigðari og búa við allt aðrar forsendur en fyrri kynslóðir. Eldri borgarar framtíðarinnar verða jafnframt betur menntaðir, búa við betri fjárhag og betri heimilisaðstæður. Þeir munu þekkja betur til tækninnar og réttinda sinna og vilja hafa meira um sín mál að segja.

Þjónusta þvert á kynslóðir

Velferðarþjónusta er ekki bara þjónusta við þá eldri heldur tekur yfir allt lífshlaupið og þeir sem eru yngri koma með nýjar þarfir og kröfur og geta þeirra ræður sífellt meiru um það hvaða þjónustu þeir þarfnast. Krafan um nýja og fjölbreyttari þjónustu sem kemur til móts við kröfur kynslóðanna verður sífellt háværari innan velferðarþjónustunnar. 

Staða aðstandenda í nútíð og framtíð

Skortur á fagfólki til þess að sinna stækkandi hópi notenda við breyttar aðstæður mun verða  veruleg áskorun fyrir velferðarkerfið. Fyrirsjáanlegur skortur á vinnuafli og sjálfboðaliðum til að veita þjónustuna mun kalla eftir lausnum þar sem m.a. þarf að tvinna saman atvinnu og umönnun. Þörf mun því verða fyrir aukinn sveigjanleika í atvinnulífinu og aukna fjölbreytni stuðningsúrræða sem standa til boða. Þessi veruleiki kallar á umræðu um samspil vinnu og umönnunar og hvernig hægt er að skipuleggja krefjandi umönnun með þátttöku aðstandenda. Jafnframt hvernig staðið skuli að faglegum og fjárhagslegum stuðningi, handleiðslu, og til hvaða úrræða sé hægt að grípa til að létta tímabundnu álagi.

Skyldur gagnvart öðrum

Öflugt velferðarsamfélag kallar eftir  samvinnu og samstarfi allra. Það verður að byggjast á því að fólk sé tilbúið til að bera ábyrgð og taka þátt í lífi og starfi samfélagsins. Slík meðábyrgð verður til í skipulegu starfi frjálsra félagasamtaka, samvinnuúrræðum og í starfi samtaka notenda ásamt þátttöku með óformlegum hætti á vettvangi fjölskyldutengsla og annarra tengsla. Þetta byggist einnig á trausti og samstöðu milli kynslóða. Því  er mikilvægt að horfa til þess á hvern hátt hægt er að fá frjáls félagasamtök til þátttöku með nýju þjónustufyrirkomulagi og hvernig hægt sé að styðja aðstandendur til þess að taka þátt í óformlegri umönnun.

Fjölbreytileiki og jafnrétti

Aukinn fjölbreytileiki mun einkenna samfélag framtíðarinnar og mun það hafa áhrif á framkvæmd ýmissa þjónustuþátta. Innan velferðarþjónustunnar í dag eru um 90% starfsfólks konur. Þessu þarf að breyta þannig að karlmenn fái aukið hlutverk. Jafnrétti og bann gegn mismunun eru einnig þau gildi sem horfa verður til í velferðarþjónustunni. Jafnrétti skiptir miklu máli þegar úrræði eru skipulögð og hrint í framkvæmd. Aðrar áskoranir eru tungumál, menningarlegur bakgrunnur og lífssögur þeirra sem fá þjónustu. Þjónustan mun í auknum mæli byggjast á einstaklingsbundinni nálgun hvort sem um er að ræða tungumál, menningu, trú, lífssýn, aldur, kyn, kynhneigð eða sérstaka stuðningsþörf vegna fötlunar.

Að njóta lífsins í heilbrigði

Góð heilsa er ein mikilvægasta forsenda þess að einstaklingur fái notið sín. Þess vegna er stuðningur sem veittur er á vegum heilbrigðiþjónustu og félagsþjónustu samofinn. Einstaklingur á rétt á því að njóta sjálfstæðis og frelsis þrátt fyrir að margir stuðningsaðilar veiti þann stuðning sem nauðsynlegur er allan sólarhringinn alla daga ársins. Að tryggja það að notandinn geti notið lífsins við slíkar aðstæður, þrátt fyrir sjúkdóm og/eða fötlun, er því eitt af mikilvægustu hlutverkum þjónustunnar.

Gæðin í tengslum fólks

Gæði nærþjónustunnar verða oft mest þegar fulltrúar opinberra aðila, ríkis og sveitarfélaga eru í nánum tengslum við notendur, fjölskyldur þeirra, annað tengslanet, frjáls félagasamtök, þjónustustofnanir og fyrirtæki. Þegar til framtíðar er litið er mikilvægt að fyrrgreindir aðilar hverfi ekki úr þessu samhengi, heldur verði þjónusta áfram á margra  höndum í nærsamfélaginu og í sterkum tengslum við sveitarfélögin. Þjónustan mun alltaf kalla á meðábyrgð og að alltaf sé fyrst leitað leiða  hjá einstaklingnum sjálfum og í hans eigin umhverfi.

Á grundvelli framgreinds leggur félags- og húsnæðismálaráðherra áherslu á að stefna og áætlun í nýsköpun og tækni á sviði velferðarþjónustu geti hjálpað við að yfirstíga þær hindranir sem við stöndum frammi fyrir.

Í  stefnunni eru skilgreind  fjögur áherslursvið þ.e. :

Í fyrsta lagi þarf að vanda til undirbúnings fyrir nýsköpun og tækni þannig að af henni verði þau not sem ætlast er til. Hér þarf t.d. að huga að lagaumgjörð nýsköpunar innan velferðarþjónustunnar og hvernig verði staðið að því að styrkja almennar áherslur á nýsköpun og gerð nýsköpunaráætlana hjá sveitarfélögunum.

Í öðru lagi þarf að huga að uppbyggingu þekkingar og færni um nýsköpun og tækni. Í þessu sambandi má nefna styrkingu þekkingar og færni á vettvangi sveitarfélaganna og uppbyggingar þekkingar á færni á framhalds- og háskólastigi. Einnig þarf að styrkja samstarf ríkis, sveitarfélaga og frumkvöðla um verkefni innan velferðarþjónustunnar.  Auka þarf aðgengi almennings að upplýsingum um velferðarlausnir, leita samstarfs við erlenda aðila sem lagt geta okkur lið og gera góðum fyrirmyndum innan velferðarþjónustunnar hærra undir höfði.

Í þriðja lagi þarf að auka aðgengi og sköpun lausna sem aukið gætu öryggi á heimilum fólks. Kortleggja þarf og greina þörf fyrir velferðarlausnir sem dregið gætu úr missi, stutt við eða bætt líðan. Leita þarf leiða til þess að auka aðgengi fólks sem á því þarf að halda að ýmis konar lausnum sem aukið gætu og styrkt samskipti þess við fjölskyldur sínar og fagfólk nær og fjær. Huga þarf að samskiptalausnum og tæknilausnum á heimilum þar sem þjónusta er veitt allan sólarhringinn. Einnig þarf að þróa frekari lausnir fyrir fólk á vinnumarkaði sem þarf á sérstökum stuðningi að halda.  Auka þarf samstarf og samvinnu þeirra fjölmörgu sem starfa innan félags-, mennta- og heilbrigðisþjónustu.

Í fjórða lagi þarf að tryggja að fólk hafi aðgang að og geti prófað ýmis konar lausnir sem gætu auðveldað líf þess. Loks þurfa Íslendingar að vera vakandi yfir því hvaða lausnir það eru sem ljóst er að skila árangri til þess að geta nýtt þær og betrumbætt eftir atvikum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum