Hoppa yfir valmynd
12. október 2015 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Tillögur um uppbyggingu legudeilda við Sjúkrahúsið á Akureyri

Á myndinni má sjá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra ásamt fulltrúum í vinnuhópnum.
Á myndinni má sjá Sigmund Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra og Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, ásamt fulltrúum í vinnuhópnum.

 Vinnuhópur sem Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra skipaði til að fjalla um skipulag og uppbyggingu Sjúkrahússins á Akureyri hefur skilað ráðherra skýrslu með niðurstöðum sínum. Ráðherra skipaði vinnuhópinn þann 20. nóvember í fyrra til að „endurskoða og uppfæra tillögur þær sem lagðar voru fram árin 2003 og 2004 um skipulag og uppbyggingu Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri (nú SAk) og koma með eigin tillögur að verkefninu,“ eins og segir í skipunarbréfi hópsins.

Í skýrslu vinnuhópsins segir að legudeildir Sjúkrahússins á Akureyri fullnægi ekki kröfum nútímans og að núverandi húsnæði gefi ekki möguleika á nauðsynlegum úrbótum. Hið sama eigi við um sumar stoðdeildir spítalans. Jafnframt er gerð grein fyrir áætlaðri rýmisþörf legudeilda miðað við ýmsar forsendur, meðal annars fjölgun í hópi aldraðra og væntrar breytingar á legudögum eftir aldurshópum samkvæmt mannfjöldaspám.

Niðurstaða vinnuhópsins er að reisa þurfi nýbyggingu, þriggja hæða hús, alls um 8.500 fermetra til að leysa þann vanda sem við blasi í húsnæðismálum sjúkrahússins. Gróflega áætlaður kostnaður vegna þessa er um 5 milljarðar króna.

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra veitti skýrslu vinnuhópsins viðtöku á fundi á Akureyri sl. föstudag. Hann þakkaði hópnum skjót og góð vinnubrögð og sagði „löngu orðið tímabært að við setjum okkur viðmið um hvernig við höldum áfram að byggja upp þetta móðursjúkrahús utan höfuðborgarsvæðisins.“ Ráðherra sagði að nú yrði farið í að meta tillögur hópsins og í framhaldinu að leita leiða til að fjármagna næstu skref í þessu brýna en viðamikla verkefni.

Vinnuhópinn skipuðu þau Sveinn Magnússon, skrifstofustjóri í velferðarráðuneytinu, formaður, Anna Gilsdóttir, yfirhjúkrunarfræðingur og gæðastjóri á Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Bjarni S. Jónasson, forstjóri SAk, Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, Hildigunnur Svavarsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar og framkvæmdastjóri bráða-, fræðslu- og gæðasviðs SAk, Sigurður E. Sigurðsson, framkvæmdastjóri lækninga og framkvæmdastjóri handlækningasviðs SAk og Þóra Ákadóttir hjúkrunarfræðingur. Einnig sátu nokkra fundi og störfuðu með nefndinni Gróa Björk Jóhannesdóttir og Ingvar Þóroddsson en þau hafa bæði starfað sem framkvæmdastjórar lyflækningasviðs SAk.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum