Hoppa yfir valmynd
22. október 2015 Innviðaráðuneytið

Fjölmennt á fundi um hagkvæmt húsnæði

Ráðherrar ræða við fundargest
Ráðherrar ræða við fundargest. Ljósmynd: Eggert Jóhannesson

Hátt í þrjú hundruð manns mættu á upphafsfund verkefnis ríkisstjórnarinnar um hagkvæmt húsnæði sem haldinn var í Reykjavík í gær undir yfirskriftinni „Vandað, hagkvæmt, hratt.“ Ráðherrar húsnæðismála, umhverfismála og iðnaðar- og nýsköpunar efndu til fundarins og voru allir helstu hagsmunaaðilar sem málið varðar boðnir sérstaklega.

Verkefnið „Vandað, hagkvæmt, hratt“ er byggt á samþykkt ríkisstjórnarinnar um aðgerðir á sviði húsnæðismála í tengslum við gerð kjarasaminga síðastliðið vor. Markmiðið er að skoða lausnir á sviði húsnæðismála í víðu samhengi með það að leiðarljósi að auka fjölbreytni og framboð á hagkvæmu húsnæði, ekki síst fyrir ungt fólk og tekjulágt.

Bil sem þarf að brúa. Ljósmynd: Eggert JóhannessonFundurinn hófst með ávörpum ráðherranna; Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra, Ragnheiðar Elínar Árnadóttur, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, og Sigrúnar Magnúsdóttur, umhverfis- og auðlindaráðherra. Að því búnu tóku fundargestir til starfa og ræddu í hópum um leiðir og lausnir að markmiðum verkefnisins. Pétur Ármannsson arkitekt flutti erindi þar sem hann fjallaði um sögu hagkvæmra húsnæðislausna á Íslandi og Una Sighvatsdóttir blaðamaður ræddi um þarfir og væntingar nýrra kynslóða til húsnæðis.

Það kom glöggt fram í umfjöllun ráðheranna þriggja hve húsnæðismál spanna vítt svið og þar með hve margir og ólíkir þættir skipta máli um hvernig til tekst við uppbyggingu húsnæðismarkaðar sem þjóna þarf ólíkum aðstæðum og fjölbreyttum þörfum einstaklinga, fjölskyldna og samfélaga. Endurskoðun byggingareglugerðar bar oft á góma á fundinum, en glöggt kom fram hvað fjölmargir aðrir þættir vega þungt, svo sem skipulag á sveitastjórnarstigi,Áhugi og einbeiting. Ljósmynd: Eggert Jóhannesson lóðaframboð, fjármagnskostnaður, hönnun, margvísleg einföldun á regluverki og margt fleira. Á fundinum kom fram rík áhersla á að krafa um hagkvæmni megi ekki verða á kostnað gæða eða skapa hindranir sem skerða réttindi fatlaðs fólks.

Hönnunarsamkeppni í anda fundarins

Ákveðið hefur verið að efna til hönnunarsamkeppni um lausnir í húsnæðismála þar sem byggt verður á hugmyndum og anda fundarins og verkefnisins „Vandað, hagkvæmt, hratt.“ Nýsköpunarmiðstöð Íslands mun annast verkefnið og er stefnt að því að drög að samkeppninni verði kynnt fyrir áramót og að keppnin sjálf verði haldin í vetur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum