Hoppa yfir valmynd
10. mars 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Styrkir til fjölbreyttra verkefna um aukin gæði í heilbrigðisþjónustu

Úthlutun gæðastyrkja 2016
Úthlutun gæðastyrkja 2016

Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra veitt í vikunni sex milljónir króna samtals í styrki til 12 gæðaverkefna á sviði heilbrigðisþjónustu. Styrkir voru annars vegar veittir til verkefna sem miða að nýbreytni í verklagi innan heilsugæslunnar og hins vegar verkefna sem ætlað er að efla þverfaglegt samstarf.

Gæðastyrkir hafa verið veittir árlega frá árinu 2001 en þeir eru fyrst og fremst hugsaðar til að stuðla að umbótastarfi, nýbreytni og auknum gæðum heilbrigðisþjónustunnar. Þá eru þeir ætlaðir sem hvatning og viðurkenning fyrir störf á þessu sviði.

Alls bárust 40 umsóknir um verkefnastyrki í kjölfar þess að ráðuneytið auglýsti eftir verkefnum í október og desember á liðnu ári. Mikil fjölbreytni verkefna einkenndi umsóknirnar og ber það þess glöggt vitni að víða er unnið að því að þróa þjónustufyrirkomulag á margvíslegan hátt með það að markmiði að auka gæði og efla þverfaglegt samstarf innan heilbrigðisþjónustunnar.

Úthlutunarnefnd, skipuð þremur fulltrúum velferðarráðuneytisins, lagði mat á umsóknirnar og gerði tillögu til ráðherra um styrkveitingar til verkefnanna 12 sem fengu hvert um sig  500 þúsund krónur.

Sem dæmi um verkefni sem hlutu styrk má nefna uppbyggingu þverfaglegrar þjónustu við fólk með sykursýki og fótamein, verkefni um rafræna lyfjaumsýslu á öldrunarheimilum, verkefni um snemmtæka íhlutun - upplýsingaveitu og stuðning þjónustustofnana fyrir foreldra barna með heyrnarskerðingu og verkefni til þjálfunar leiðbeinenda í hermikennslu á Landspítala, svo eitthvað sé nefnt.

Meðfylgjandi er listi með upplýsingum um verkefnin sem fengu styrk og hverjir standa að þeim.

 

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum