Hoppa yfir valmynd
10. mars 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Nýr samningur um verkefnið Karlar til ábyrgðar

Að lokinni undirritun samningsins - mynd

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, undirritaði nýjan samning um verkefnið „Karlar til ábyrgðar“ á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, 8. mars sl. Markmið verkefnisins er að veita sérhæfða sálfræðimeðferð þeim sem beitt hafa ofbeldi á heimili sínu og draga þannig úr líkum á frekari ofbeldishegðun.

Verkefnið Karlar til ábyrgðar hófst sem tilraunaverkefni á árunum 1998-2002. Eftir það lá meðferðarúrræðið niðri um skeið þar til það var endurvakið vorið 2006. Lengst af hefur meðferðin miðast eingöngu við karlmenn en á síðasta ári var opnað fyrir möguleika kvenna til þess að leita sér aðstoðar vegna ofbeldishegðunar. Þungamiðja meðferðarinnar felst í því að aðstoða fólk við að taka ábyrgð á eigin hegðun og þróa leiðir til að takast á uppbyggilegan hátt við erfiðleika sem upp koma í samskiptum.

Samningurinn sem undirritaður var í vikunni kveður á um aukna þjónustu miðað við þann samning sem áður gilti. Meðferðin fer annars fram í einstaklingsviðtölum og einnig er veitt hópmeðferð. Gert er ráð fyrir að veittir verði alls 484 viðtalstímar á þessu ári auk vikulegra hópmeðferðartíma.

Sálfræðingarnir sem veita þjónustu samkvæmt samningnum eru þeir Einar Gylfi Jónsson og Andrés Ragnarsson.

Samingsupphæðin nemur rúmum 9,6 milljónum króna og gildir samingurinn til loka þessa árs.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum