Hoppa yfir valmynd
21. september 2016 Heilbrigðisráðuneytið

Íslendingur kjörinn formaður stýrinefndar Evrópuráðsins um lyf og lyfjafræðilega þjónustu

Einar Magnússon lyfjamálastjóri - mynd

Einar Magnússon, lyfjamálastjóri í velferðarráðuneytinu, var í gær kjörinn formaður stýrinefndar Evrópuráðsins um lyf og lyfjafræðilega þjónustu (Committee on Pharmaceuticals and Pharmaceutical Care). Nefndin heyrir undir ráðherraráð Evrópuráðsins og starfar í nánum tengslum við Evrópustofnun um gæði lyfja og heilbriðgisþjónustu í Strassborg (EDQM – European Directorate for the Quality of Medicines & Health Care) sem leggur nefndinni til starfslið.

Öll 47 aðildarríki Evrópuráðsins eiga fulltrúa í nefndinni auk þess sem Evrópusambandið og Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin eru með áheyrnaraðild. Undir stýrinefndinni starfa þrjár fastanefndir sérfræðinga sem fást við flokkun lyfja, lyfjafræðilega umsjá og skaðaminnkun vegna fölsunar lyfja og annarra lyfjaglæpa.

Sem dæmi um mikilvæg verk nefndarinnar má nefna MEDICRIME sáttmálann sem þáverandi velferðarráðherra og innanríkisráðherra staðfestu fyrir Íslands hönd í október 2011 og er fyrsti og eini alþjóðlegi sáttmálinn sem fjallar um alþjóðlegt samstarf lögreglu, lyfjaeftirlits og tollayfirvalda, til að sporna við fölsun lyfja sölu þeirra og dreifingu en einnig aðra glæpi tengda lyfjum sem geta skaðað heilsu fólks. Einnig má nefna fjölmargar leiðbeiningar og mælikvarða er varða lyfjamál, svo sem um lyfjafræðilega umsjá, framleiðslu lyfja í apótekum og sjúkrahúsapótekum, vélræna skömmtun lyfja og framleiðslu/blöndun lyfja fyrir börn.

Auk þessa hafa verið samdar og gefnar út skýrslur á vegum nefndarinnar um hin ýmsu efni sem varða lyfjamál. Þá er meðal annars á vegum nefndarinnar starfræktur gagnagrunnur um flokkun lyfja (MELCLASS) sem aðildarlöndin hafa aðgang að.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum