Hoppa yfir valmynd
22. september 2016 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda samþykkt á Alþingi

Vegabréf
Vegabréf

Alþingi samþykkti í vikunni þingsályktunartillögu félags- og húsnæðismálaráðherra um framkvæmdaáætlun í málefnum innflytjenda til fjögurra ára. Þetta er fyrsta lögbundna framkvæmdaáætlunin í þessum málaflokki, unnin í samræmi við lög um málefni innflytjenda nr. 116/2012. Markmið áætlunarinnar er að stuðlað að samfélagi þar sem allir geta verið virkir þátttakendur óháð þjóðerni og uppruna.

Grunnurinn að framkvæmdaáætluninni var unnin af innflytjendaráði vorið 2014. Byggt er á fimm meginstoðum sem eru; samfélag, fjölskylda, menntun, vinnumarkaður og flóttafólk. Framkvæmdaáætlunin er kaflaskipt í samræmi við framantaldar meginstoðir. Undir hverri þeirra er fjallað um aðgerðir og helstu markmið þeirra, hvernig framkvæmdinni skuli hagað og hverjir beri ábyrgð á að hrinda þeim í framkvæmd.

Sú stoð sem snýr að samfélaginu fjallar um verkefni sem draga fram þau tækifæri sem felast í ólíkum menningarlegum bak­grunni landsmanna og eru til þess fallin að nýta þannig þekkingu innflytjenda til að efla íslenskt samfélag. Meðal aðgerða má nefna fræðslu til starfsmanna ríkis og sveitarfélaga, hvatningarverðlaun til þeirra aðila sem stuðla að faglegri, vandaðri og upplýstri umfjöllun um málefni innflytjenda og þátttöku þeirra í samfélaginu.

Í fjölskyldustoðinni er lögð áhersla á verkefni sem stuðla að aukninni upplýsingagjöf til innflytjenda fyrst eftir komu þeirra til landsins. Leita skal leiða til þess að varpa ljósi á aðstæður innflytjenda á húsnæðis­markaði og vinna að bættu húsnæðisöryggi. Í þessu sambandi verður einkum lögð áhersla á stuðning við þá hópa innflytjenda sem standa höllum fæti og skortir stuðningsnet hér á landi. Þá verður einnig unnið að því að auka þátttöku barna og ungmenna innflytjenda í skipulögðu íþrótta- og æskulýðisstarfi.

Í menntastoðinni er lögð áhersla á jafna stöðu og jöfn tækifæri til menntunar og að þekking og reynsla inn­flytjenda sé metin. Í áætluninni er lagt til að unnið verði markvissara gegn brottfalli innflytjenda úr framhaldsskólum með stuðningi á öllum skólastigum, meðal annars með aukinni áherslu á kennslu í móðurmáli þeirra barna sem hafa annað móðurmál en íslensku.

Í vinnumarkaðsstoðinni er lögð áhersla á að staða innflytjenda á vinnumarkaði verði styrkt og tryggt að þeir njóti sömu tækifæra og aðrir. Launajafnrétti á vinnumarkaði verði sett í forgang sem og það að tryggja innflytjendum aukin tækifæri til endurmenntunar og starfstengds náms.

Í fimmtu stoðinni sem fjallar um flóttafólk er lög áhersla á að flóttafólk fái fljótt tækifæri til virkrar þátttöku í sam­félaginu, hvort sem er á vinnumarkaði, varðandi menntun eða á öðrum sviðum. Jafnframt fái flóttafólk nauðsynlega aðstoð til að vinna úr þeim áföllum sem það er að kljást við.

               

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum