Hoppa yfir valmynd
31. október 2005 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ný reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum

Félagsmálaráðherra hefur sett nýja reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, nr. 907/2005. Reglugerðin tekur til gæslu dagforeldra á börnum í atvinnuskyni í heimahúsum. Það er daggæslu ungra barna fram að grunnskólaaldri. Reglugerðin öðlast gildi 1. nóvember og kemur í stað reglugerðar um daggæslu barna í heimahúsum, nr. 198/1992. Með nýju reglugerðinni er eftirlit og umsjón með starfsemi dagforeldra eflt til muna í því skyni að tryggja öryggi og aðbúnað barnanna sem best.

Reglugerð þessi var smíðuð af starfshópi sem félagsmálaráðherra skipaði í júní 2004 til að fjalla um drög að nýrri reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum sem lágu þá fyrir í ráðuneytinu. Formaðurinn var skipaður án tilnefningar, en í hópnum voru jafnframt fulltrúar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, samtökum dagforeldra í Reykjavík og í Kópavogi og fulltrúi frá Kennaraháskóla Íslands. Starfshópurinn hefur lokið störfum og fyrir liggur endurbætt reglugerð.

Í drögum að reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum frá fyrri hluta ársins 2004 var tillaga um að lækka hámarkstölu barna hjá hverju dagforeldri úr fimm börnum í fjögur. Innan starfshópsins náðist ekki samstaða um þá breytingu, m.a. vegna þess að ekki tókst að tryggja fjármagn til frekari niðurgreiðslu sveitarfélaga í þjónustunni sem komið hefði í veg fyrir tekjuskerðingu dagforeldra vegna breytingarinnar. Niðurstaðan er því að hámarksbarnafjöldinn verður áfram fimm börn.

Enn fremur var leitað umsagna sveitarfélaga við endurskoðun reglugerðarinnar og brugðust þau vel við þeirri beiðni og fjölmörg svör bárust þar sem fram komu ábendingar og breytingatillögur starfsmanna sveitarfélaganna.

Starf dagforeldra er mjög mikilvægt, börnin eru ung þegar þau fara í vistun til þeirra eða á aldrinum 9 mánaða til eins árs og dvelja hjá þeim þar til þau eru u.þ.b. tveggja ára og vill ráðuneytið að allt öryggi og aðbúnaður verði eins og best verður á kosið til hagsbóta bæði fyrir dagforeldrana og ekki síður fyrir börnin. Sveitarfélögin bera samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, ábyrgð á velferð og aðbúnaði barna. Sú ábyrgð felur í sér umsjón og eftirlit með starfsemi dagforeldra. Félagsmálaráðuneytið hefur á hinn bóginn eftirlit með því að sveitarfélögin veiti þá þjónustu sem lög kveða á um.

Með þessari endurskoðun er reglugerðin öll orðin skýrari og fastari í forminu en reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum, nr. 198/1992. Settar hafa verið ítarlegri reglur um daggæsluna. Gerð er krafa um að daggæslan eigi sér stað í íbúðarhúsnæði dagforeldra. Undanþáguheimild er þó fyrir hendi varðandi gott íbúðarhúsnæði sem tekið er á leigu undir daggæsluna (I . kafli).

Ákvæði um fjölda og dvalartíma barna auk skilyrða leyfisveitinga félagsmálanefndar eru gerð skýrari og í sumum tilvikum ítarlegri. Kröfur um aðbúnað barnanna svo sem húsnæði, leikföng, lóð og leiktæki eru auknar. Skerpt er á öryggiskröfum eins og brunavörnum og að dagforeldri er skylt að kaupa slysatryggingu fyrir börnin. Hnykkt er á um að húsakynni þar sem daggæslan fer fram þurfi að vera í samræmi við reglugerð um hollustuhætti og ákvæði um brunavarnir. Það sama á við um öryggi leikvalla og leiksvæða (III. og IV. kafli).

Sveitarfélagið ber ábyrgð á að þeir sem hyggjast gerast dagforeldrar eigi aðgang að námskeiðum. Enn fremur skulu sveitarfélögin leitast við að gefa dagforeldrum kost á framhaldsnámskeiðum og símenntun. Með reglugerðinni er aukin áhersla á endurmenntun (VII. kafli).

Í reglugerðinni er einnig ítarlegri kafli um ábyrgð og skyldur foreldra en vistun barns hjá dagforeldri er ætíð á ábyrgð foreldranna. Foreldrar skulu kynna sér í upphafi aðstæður hjá dagforeldri svo sem um hvernig deginum er varið, allan aðbúnað sem og fjölda barna (VIII. kafli).

Ítarlegra er  kveðið á um ábyrgð og skyldur dagforeldra hvað varðar börnin meðan á dvöl þeirra stendur sem og öryggi barnanna og samskipti dagforeldra við foreldra barnanna sem og umsjónaraðila.  Dagforeldri skal t.d. skila mánaðarlega yfirliti yfir skráð börn í gæslu til sveitarfélagsins staðfest af eftirlitsaðila og foreldrum. Með þessu er reynt að tryggja að upplýsingaflæðið sé opið og skilvirkt (IX. kafli).  

Ein mikilvægasta breytingin frá eldri reglugerð er aukið og bætt eftirlit. Nýja reglugerðin kveður á um a.m.k. þrjár óboðaðar heimsóknir á ári auk tilfallandi eftirlits þegar aðstæður krefjast. Síðan er það sveitarfélaganna að setja nánari reglur um framkvæmd eftirlitsins.  Í eftirlitinu felst einnig meiri stuðningur og ráðgjöf umsjónaraðila við dagforeldrana. En umsjónarmaður þessi er starfsmaður viðkomandi sveitarfélags. Umsjónaraðilar skulu halda reglulega fræðslufundi fyrir starfandi dagforeldra og skulu þeir áfram veita dagforeldrum stuðning, ráðgjöf og fræðslu. Ítarlegra er einnig kveðið á um hvernig bregðast skuli við ef eitthvað kemur upp á, þ.e. ferlið er skýrara sem og stjórnsýslan (X. og XI. kafli).

Með þessari nýju reglugerð er þannig lögð meiri áhersla á aðbúnað og öryggi barnsins annars vegar og hins vegar aukið eftirlit, stuðning og ráðgjöf við starfandi dagforeldra en er gert samkvæmt eldri reglugerð frá 1992.

Reglugerðin er sett samkvæmt ákvæði 34. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991, og eins og fyrr sagði öðlast hún gildi þann 1. nóvember og gildir um leyfi sem dagforeldri eru veitt frá og með gildistöku reglugerðarinnar, svo og um endurnýjun á leyfum.

Ákvæði um fjölda barna, dvalartíma (III. kafli) og ákvæði um leyfisveitingu félagsmálanefndar (IV. kafla) reglugerðarinnar taka ekki til leyfa sem veitt hafa verið samkvæmt eldri reglugerð, nr. 198/1992. Áður útgefin leyfi til daggæslu gilda því til loka gildistíma leyfanna. Að öðru leyti gildir þá nýja reglugerðin um starfsemi dagforeldra sem fengið hafa leyfi samkvæmt reglugerð nr. 198/1992.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum