Hoppa yfir valmynd
20. ágúst 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Húsnæðismál sveitarfélaga

Í árslok 2000 skipaði félagsmálaráðherra nefnd um húsnæðismál sveitarfélaga í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga. Nefndin fékk það hlutverk að fylgja eftir tillögum um húsnæðismál sveitarfélaga sem unnar höfðu verið á því ári, samræma aðgerðir og fylgjast með framkvæmd laga um húsnæðismál, nr. 44/1998. Unnið var sérstaklega að því hlutverki nefndarinnar að gera tillögur um breytt hlutverk og fjármögnun varasjóðs viðbótarlána og að hrinda í framkvæmd tillögum sem unnar höfðu verið á vegum félagsmálaráðuneytisins um lausn á vanda sveitarfélaga vegna innlausnaríbúða í félagslega íbúðakerfinu.

Megintillögur nefndarstarfsins voru, að varasjóði viðbótarlána yrði breytt og að sett yrði á laggirnar nýtt samstarfsverkefni ríkis og sveitarfélaga um húsnæðismál þar sem tekið væri á rekstrarvanda sveitarfélaga vegna leiguíbúða og íbúða sem standa auðar í lengri tíma. Jafnframt var lagt til að kaupskylduákvæði laga um húsnæðismál, nr. 44/1998, yrði breytt og mælt með því sveitarfélög stofni eignarhaldsfélög um rekstur leiguíbúða.

Frumvarp það er varð að lögum, nr. 86/2002, og breytti lögum um húsnæðismál, nr. 44/1998, var byggt á þeirri vinnu sem unnin var í nefnd þessari. Lög nr. 86/2002 lagði grunn að varasjóði húsnæðismála og kvað á um heimild sveitarfélaga til að afnema kaupskyldu þeirra á félagslegum eignaríbúðum með þó ákveðnum skilyrðum.

Í apríl sl. skilaði nefndin af sér skýrslu á greiningu á vanda sveitarfélaga vegna félagslegra íbúða í eigu þeirra og lagði fram tillögur til úrbóta. Skýrsluna er að finna á heimasíðu ráðuneytisins.

Skjal fyrir Acrobat ReaderSkýrsla nefndar til að fylgja eftir tillögum um félagsleg húsnæðismál sveitarfélaga

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum