Hoppa yfir valmynd
9. janúar 1998 Heilbrigðisráðuneytið

Fréttabréf 2. tbl., okt. 1997

2. tölublað fréttabréfs ráðuneytisins frá október 1997, 1. árgangur

Nýjar heilsugæslustöðvar og samningar um stækkun

Heilsulindin Bláa lónið

Heilsugæslan treyst í sessi

Styrkjum úthlutað úr Forvarnasjóði

Héraðslæknar í ráðuneytinu

Hlutverk heilsugæslunnar
- eftir Svein Magnússon, héraðslækni

Bætt heilsa með breyttu mataræði og lífsháttum

Heilsuverðlaun 1997

Fjarlækningar rjúfa einangrun lækna á landsbyggðinni




Nýjar heilsugæslustöðvar og samningar um stækkun

Heilsugæslan hefur verið efld verulega að undanförnu og heilbrigðisráðuneytið hefur undirritað marga samninga þar að lútandi. Hér á eftir er rifjað upp það helsta:
  • Í Hafnarfirði var undirritaður samningur um viðbótarhúsnæði fyrir heilsugæslustöðina Sólvang og er gert ráð fyrir að þar verði bætt við tveimur til þremur heilsugæslulæknum.
  • Í Keflavík hefur verið unnið að brýnni stækkun heilsugæslustöðvarinnar. Þá fær starfsemin það rými sem hún þarfnast og aðstaða verður fyrir endurhæfingu sem ekki hefur verið til staðar.
  • Hinn 29. maí síðastliðinn var undirritaður samningur til 15 ára um leigu á 500 fermetra húsnæði í Þverholti 2 í Mosfellsbæ. Heilsugæslan flyst frá Reykjalundi í helmingi stærra húsnæði í miðbæ Mosfellsbæjar.
  • Nú í sumar var tekin í notkun ný heilsugæslustöð að Laugarási í Biskupstungum í yfir 500 fermetra húsnæði þar sem gert er ráð fyrir að tveir læknar starfi.
  • Undirritaður var samningur í Garðabæ um kaup á tæplega þúsund fermetra húsnæði við Garðatorg 7 fyrir heilsugæslustöðina í Garðabæ. Með þessum breytingum er gert ráð fyrir að bæta þar við einum lækni.
  • Í Reykjavík var nýlega undirritaður samningur um byggingu heilsugæslustöðvar við Efstaleiti í Fossvogi sem ætluð er fyrir sex lækna. Nú er aðeins rými fyrir þrjá lækna í heilsugæslustöðinni í Fossvogi sem rekin er undir þaki Sjúkrahúss Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir að nýja stöðin verði byggð á næstu þremur árum og verði fullbúin í mars árið 2000.
  • Í mars á næsta ári er gert ráð fyrir að síðari áfanga heilsugæslustöðvar í Kópavogi ljúki en samningur um verkið var undirritaður nú í sumar. Nýju stöðinni er ætlað að koma til viðbótar þeirri sem fyrir er en sú er löngu orðin of lítil fyrir ört vaxandi starfsemi. Einnig er ráðgert að fjölga læknum um tvo.


Heilsulindin Bláa lónið

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur veitt 3,8 milljónum króna til sólar-hringsvistunar íslenskra sjúklinga á Hótel Bláa lóninu. Þessi fjárveiting gerir kleift að opna við Bláa lónið fjögur sólarhringsrými til meðferðar á psoriasis- og exemsjúklingum. Með þeim er jöfnuð staða íslenskra sjúklinga alls staðar af landinu til að nýta sér þessa þjónustu og um leið eru send skýr skilaboð til erlendra aðila er hafa hug á að kaupa slíka þjónustu um að hún sé viðurkennd og árangursrík. Niðurstöður rannsókna sýna fram á hve meðferð í Bláa lóninu skilar góðum árangri og að hún hentar vel til útflutnings á heilbrigðisþjónustu.
Formleg meðferð á vegum göngudeildar fyrir sjúklinga með húðsjúkdóma við Bláa lónið hófst í byrjun árs 1994 undir eftirliti húðsjúkdómalækna. Heilbrigðisyfirvöld hafa stutt þessa starfsemi frá upphafi og kostað meðferð sjúklinga með greiðslum frá Tryggingastofnun ríkisins. Nú þegar hafa um 2.000 einstaklingar, bæði íslenskir og erlendir, fengið meðferð á göngudeildinni með góðum árangri.



Heilsugæslan treyst í sessi

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra, segir almenning bera mikið traust til heilsugæslukerfisins og vilji veg þess sem mestan. Heilbrigðisráðuneytið gerði samkomulag í tuttugu og einum lið við heilsugæslulækna sumarið 1996 um hvernig byggja ætti upp heilsugæsluna í landinu á næstu árum. Með því var mótuð framtíðarstefna um uppbyggingu heilsugæslunnar sem styrkir verulega þessa grunnþjónustu heilbrigðiskerfisins. Heilbrigðisráðuneytið hefur unnið að því að hrinda í framkvæmd flestum ákvæðum samkomulagsins.
Samningar ríkisins við heilsugæslulækna kváðu á um að kjaranefnd ákvæði kaup og kjör heilsugæslulækna frá síðustu áramótum en allt of lengi hefur dregist að kjaranefnd kveði upp úrskurð sinn. Þetta hefur skapað óvissu sem er farin að hafa áhrif á heilsugæsluna á ákveðnum svæðum og er því brýnt að úrskurður kjaranefndar liggi fyrir hið fyrsta.
Mikil vinna hefur verið innt af hendi í ráðuneytinu síðastliðið ár til að hrinda samkomulaginu í framkvæmd. Meginatriði þeirrar vinnu segir ráðherra vera eftirfarandi:

  • Uppbygging aðstöðu hefur farið fram úr björtustu vonum og nú þegar hafa verið undirritaðir samningar um byggingu 7 heilsugæslustöðva.
  • Þegar hefur læknum fjölgað nokkuð í heilsugæslunni.
  • Sjálfstæði stofnana er aukið með flutningi verkefna.
  • Unnið er að því að breyta hlutverki Heilsuverndarstöðvar Reykjavíkur.
  • Undirbúningur er í gangi að því að reyna fleiri rekstrarform í heilsugæslunni.
  • Stuðlað er að því að sérfræðimenntun í heilsugæslu verði skilyrði ráðningar í
    stöður lækna í heilsugæslunni.
  • Kandídatar geta nú starfað í allt að fjóra mánuði á heilsugæslustöð á
    kandídatsári sínu.
  • Tölvuvæðingu heilsugæslunnar miðar vel.
  • Héraðslæknar, sem jafnframt eru heilsugæslulæknar í sínum umdæmum, hafa verið ráðnir til tímabundinna starfa í ráðuneytinu að framgangi stefnunnar.
Af þessari samantekt má ráða að á þessum stutta tíma hefur verulegur árangur náðst í að hrinda í framkvæmd þeim áformum sem fram eru sett í samkomulaginu um stefnumótun heilsugæslunnar. Sá árangur sem náðst hefur er markverður og er ráðuneytið staðráðið í að halda áfram á sömu braut í góðri samvinnu við heilsugæslulækna og annað starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar.


Styrkjum úthlutað úr Forvarnasjóði

Tekin var upp sú nýbreytni á sl. ári að gefa þeim, sem hafa áhuga á að efla og styrkja áfengis- og vímuefnavarnir, sérstaklega meðal barna og ungmenna, kost á að sækja um styrki úr sérstökum Forvarnasjóði á vegum heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Alls bárust 89 umsóknir um samtals 84,8 milljónir króna og 22 umsóknir til viðbótar þar sem ekki var nefnd ákveðin fjárupphæð. Sjóðsstjórn samþykkti að veita 23 styrki að fjárhæð alls 25 milljónir króna og því til viðbótar var áfangaheimilum úthlutað 6,3 milljónum króna. Alls var því úthlutað 31,3 milljónum króna, þar af tveimur rannsóknarstyrkjum.


Héraðslæknar í ráðuneytinu

Sveinn Magnússon, héraðslæknir, hefur verið ráðinn til tímabundinna verkefna í heilbrigðisráðuneytinu. Hann aðstoðar m.a. við framkvæmd stefnu ráðuneytisins á sviði heilsugæslunnar. Enn fremur hefur Stefán Þórarinsson, héraðslæknir, verið ráðinn tímabundið, m.a. til að kanna möguleika á breyttu skipulagi heilsugæslunnar á Austurlandi og vinna að reglum fyrir far-þjónustu sérfræðinga. Þannig er ætlunin að bæta og efla heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni.


Hlutverk heilsugæslunnar
- eftir Svein Magnússon, héraðslækni

Íslensk heilbrigðisþjónusta hefur þróast í aldanna rás og tekið mið af þróun í helstu nágrannalöndum enda eru þangað sóttar fyrirmyndir að ýmiss konar opinberri þjónustu, svo sem í heilbrigðis- og menntamálum en einnig á sviði löggjafar og annarra þátta samfélagsins. Aðlögun að íslenskum staðháttum hefur mótað endanlegt form þjónustunnar á hverjum tíma. Hefur þetta síðan verið stutt af nauðsynlegum lagabreytingum sem ætlað er að tryggja íbúum landsins rétt til heilbrigðisþjónustu.
Heilsugæslan í núverandi mynd á Íslandi varð til fyrir 25-30 árum, að hluta vegna áhrifa frá Bretlandi og Norðurlöndunum þar sem þrengingar í heilbrigðisþjónustu, sem á margan hátt voru líkar vanda Íslendinga, höfðu leitt af sér skipulagsbreytingar. Aðdragandinn var m.a. vaxandi erfiðleikar við að manna læknishéruð í dreifbýli. Stofnun heilsugæslustöðva til að efla heilbrigðisþjónustu í dreifbýli verður að teljast með merkilegustu skrefum sem stigin hafa verið í íslenskum heilbrigðismálum. Heilsugæslan hefur á alþjóðavettvangi verið mjög vaxandi síðustu ár og áratugi og hvatt er til eflingar hennar bæði á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) og Evrópusambandsins. Um hlutverk heilsugæslunnar hefur margt verið ritað og rætt á undanförnum árum en í raun án þess að verulegur skoðanamunur hafi komið fram um hlutverk hennar. Umræðan hefur frekar snúist um mismunandi rekstrarform.

Hlutverk heilsugæslunnar er að veita íbúum landsins grunnheilbrigðisþjónustu, þá þjónustu sem þeir geta gengið að vísri, óháð búsetu. Hún á að vera alls staðar og alltaf til staðar. Hún tekur við óflokkuðum vandamálum sjúklinganna sem aftur þýðir að meta verður mjög margvísleg sjúkdómseinkenni og greina hina alvarlegri sjúkdóma úr þeim. Starfsfólk í heilsugæslu hefur lögum samkvæmt viðveruskyldu, vitjanaskyldu og vaktskyldu. Slíkar skyldur eru ekki lagðar á aðra aðila innan heilbrigðisþjónustunnar heldur eru þeim ætluð önnur verk.

Hlutverk og einkenni heilsugæslunnar

  • Heilsugæslan er opin öllum, óháð aldri, kyni, stöðu, starfi og á ekki að útiloka nein heilbrigðisvandamál. Hún tekur á heilbrigðisvanda einstaklinga, fjölskyldna og samfélaga.
  • Heilsugæslan er aðgengileg almenningi, nálæg í tíma og rúmi og á viðráðanlegu verði fyrir þá sem hana þurfa að nota.
  • Heilsugæslan tengir saman lækningu, hjúkrun, endurhæfingu, heilsueflingu og forvarnir.
  • Heilsugæslan veitir samfellda langtímaþjónustu sem sinnir endurtekinni þörf íbúanna fyrir þjónustu, óháð vandamáli.
  • Heilsugæslan er teymi heilbrigðisstarfsfólks úr ýmsum starfsstéttum.
  • Heilsugæslan er leiðbeinandi og ráðgefandi fyrir sjúklinginn í hugsanlegri þörf hans fyrir frekari þjónustu innan heilbrigðiskerfisins, svo sem aðrar sérgreinar eða sjúkrahús. Hún er einnig gagnabanki allra heilbrigðisupplýsinga er varða sjúklinginn.
  • Heilsugæslan leitast við að halda kostnaði í lágmarki og vinna á sem allra hagkvæmastan hátt.
    Allt þetta eru þekktir þættir en ekki öllum ljósir. Lítið er um þá deilt en, eins og áður segir, er aðallega rætt um breytileg rekstrarform heilsugæslunnar.

Þjónusta í sífelldri endurskoðun

Til að heilsugæslunni sé kleift að standa undir mikilvægu hlutverki sínu þarf að uppfylla viss skilyrði í innri og ytri umgjörð hennar. Húsnæði, aðstaða, mannafli og faglegar kröfur verða að vera fullnægjandi, svo og möguleikar starfsfólks til endurmenntunar, gæðaeftirlits og rannsókna.
Heilsugæslan þarf að vera starfsvettvangur sem kynnir sig og kennir verðandi starfsmönnum í mun ríkara mæli en nú er, bæði hvað varðar grunnmenntun, starfsþjálfun og viðhaldsmenntun. Hið breiða verkefnasvið hennar krefst mikillar þjálfunar í greiningu og meðferð helstu og algengustu sjúkdóma. Verða því rannsóknir á sviði heilsugæslunnar eðlilegur og óhjákvæmilegur hluti þessa. Heilbrigðisyfirvöld vinna samkvæmt þessu markmiði eins og glögglega kom fram í yfirlýsingu heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins í júni 1996.
Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið stefnir að skipulagi og rekstri heilbrigðiskerfis sem byggir á öflugri heilsugæslu þar sem sjúklingum er tryggður jafn aðgangur. Það er einnig stefna ráðuneytisins að efla og leggja áherslu á heilsugæsluna sem hornstein heilbrigðisþjónustunnar þar sem heilsugæslustöðvar eru grunneining. Uppbyggingu heilsugæslunnar er nánast lokið, eðlileg aukning og endurnýjun á sér nú stað. Skilyrði eðlilegrar starfsemi heilsugæslunnar er að samstarf, upplýsingaflæði og samskipti við aðra þætti heilbrigðisþjónustunnar séu á besta veg. Slíkt hlýtur einnig að vera eðlileg krafa heilbrigðisyfirvalda, ekki síst á tímum sparnaðar. Á sama hátt eru alger skilyrði fyrir eðlilegri þróun að gagnkvæm virðing ríki milli allra stétta og allra þátta heilbrigðisþjónustunnar.

Heilsugæslan í núverandi formi hefur sannað tilverurétt sinn. Líkt og aðrir þættir heilbrigðisþjónustunnar hefur hún þurft að ganga í gegnum þrengingar og mun, líkt og öll önnur opinber þjónusta, verða stöðugt í endurskoðun og þróun enda er það algjör forsenda fyrir því að allir landsmenn standi jafnt að vígi gagnvart þessari grunnþjónustu.


Bætt heilsa með breyttu mataræði og lífsháttum

Megininntak umræðunnar um heilbrigðismál á að vera "heilbrigðara líf með bættu mataræði og breyttum lífsháttum". Þannig má draga saman niðurstöður ráðstefnu sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið, Náttúrulækningafélag Íslands og afmælisnefnd Sauðárkróksbæjar efndu til um miðjan júlí sl. Ráðstefnan bar yfirskriftina "Heilsa og heilbrigðir lífshættir" og var ætlað að stuðla að aukinni umræðu fyrir opnum tjöldum um heilbrigði í víðasta skilningi og um náttúrulækningar. Ráðstefnan var haldin í tilefni mikilla umræðna á Vesturlöndum um hvernig bregðast beri við sjúkdómum á sama tíma og rætt er um hvernig best sé að halda góðri heilsu með heilbrigðum lífsháttum.
Margt áhugavert kom fram varðandi náttúrulækningar og ábyrgð einstaklingsins á eigin heilsu og greint var frá niðurstöðum ýmissa rannsókna varðandi áhrif lífstíls og mataræðis á heilbrigði. Fjöldi fagmanna flutti erindi á ráðstefnunni og hún tókst í alla staði mjög vel. Umræðurnar stuðluðu að því að vekja þátttakendur og almenning til umhugsunar um hvernig auka megi ábyrgð almennings á eigin heilsu.

Í blíðunni á Sauðárkróki. Við upphaf ráðstefnunnar fluttu ávörp þau Ingibjörg Pálmadóttir, Gunnlaugur K. Jónsson, forseti NLFÍ, og Stefán Logi Haraldsson, bæjarfulltrúi á Sauðárkróki. Margir áhugaverðir fyrirlestrar voru fluttir. Þar komu m.a. við sögu Vilhjálmur Árnason, dósent við heimspekideild Háskóla Íslands, Ingibjörg Þórhallsdóttir, lektor við HA, Helgi Valdimarsson, prófessor í læknisfræði við HÍ, Eiríkur Líndal, sálfræðingur, dr. Sigríður Halldórsdóttir, forstöðumaður heilbrigðisdeildar HA, Jónas Kristjánsson, ritstjóri, Anna Elísabet Ólafsdóttir, matvæla- og næringarfræðingur, Kristjana Hrafnkelsdóttir, íþróttafræðingur, Gunnhildur Anna Vilhjálmsdóttir, sjúkraþjálfari, Ingólfur Sveinsson, geðlæknir, Pétur Heimisson, heilsugæslulæknir, Fanney Ísafold Karlsdóttir, sjúkraþjálfari, Örn Ragnarsson, heilsugæslulæknir, Þorkell Guðbrandsson, hjartasérfræðingur og Þórólfur Þórlindsson, prófessor, í félagsfræði við HÍ. Ráðstefnustjóri var Árni Gunnarsson, framkvæmdastjóri.



Heilsuverðlaun 1997

Ingibjörg Pálmadóttir, heilbrigðisráðherra, afhenti í sumar frístundahópnum Hana-nú í Kópavogi Heilsuverðlaunin 1997. Frístundahópurinn Hana-nú er samnefnari fyrir öfluga heilsueflingu eldra fólks og hefur í 14 ár lagt áherslu á alhliða heilsurækt, meðal annars með reglubundnum göngum og ferðalögum. Þá hefur hópurinn boðið upp á fræðslu af ýmsu tagi og hvatt eldra fólk til að leggja aukna áherslu á heilbrigða lífshætti. Frístundahópurinn Hana-nú hefur náð miklum vinsældum og um 600 einstaklingar taka þátt í starfinu með einum eða öðrum hætti. Hann er því gott dæmi um þá vakningu sem átt hefur sér stað meðal eldra fólks um að rækta hug og heilsu með öflugu félagsstarfi.


Fjarlækningar rjúfa einangrun lækna á landsbyggðinni

Fjarlækningar bjóða upp á ýmsa möguleika til að styrkja grunnþjónustu í heilbrigðiskerfinu. Hægt er með aðstoð tæknibúnaðar að nota kerfi síma og tölvu til að senda gögn á milli lands- og heimshorna og læknir í einu landi getur fylgst með og tekið þátt í flóknum skurðaðgerðum í fjarlægu landi á tölvu-skjá.
Hægt er með fjarlækningum að meta ástand sjúklings mun nákvæmar en áður. Fjarlækningar eru þannig mikilvægur liður í að rjúfa faglega einangrun lækna á landsbyggðinni og auka öryggi þeirra og sjúklinganna. Ráðuneytið hefur styrkt verkefni á þessu sviði og á þessu ári fengu nokkrar stofnanir á landsbyggðinni fjármagn til að þróa tæknilega útfærslu á fjarlækningum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum