Hoppa yfir valmynd
31. júlí 2002 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Samþykkt nr. 111 um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs

Samþykktir ILO sem Ísland hefur fullgilt

Samþykkt nr. 111 um misrétti með tilliti til atvinnu eða starfs

Allsherjarþing Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem stjórn stofnunarinnar kvaddi til setu í Genf, kom saman í 42. sinni þann 4. júní 1958 og með því að það hefur fallist á tilteknar bendingar um misrétti á sviði atvinnu og starfs, sem er fjórða mál á dagskrá þingsins og ákveðið að þessar bendingar skyldu færðar í form alþjóðasamþykktar og með tilliti til þess að Fíladelfíu-yfirlýsingin staðfestir að allir menn, án tillits til kynþátta, trúarbragða eða kynferðis, eigi rétt á því að efla efnalega velferð sína og andlegan þroska á frjálsan og sæmandi hátt við efnahagslegt öryggi og jafnrétti og enn fremur með tilliti til þess að misrétti er brot á þeim réttindum, sem talin eru í Almennu mannréttindayfirlýsingunni, gerði það hinn 25. júní 1958 eftirfarandi samþykkt, sem nefna má samþykkt um misrétti í sambandi við atvinnu eða starf, 1958:


1. gr.

1.  Í merkingu þessarar samþykktar tekur hugtakið „misrétti“ til:

     a. hvers konar greinarmunar, útilokunar eða forréttinda, er byggist á kynþætti, litarhætti, kynferði, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðun, þjóðernislegum eða félagslegum uppruna, og hefur í för með sér brottfall eða skerðingu á jafnrétti með tilliti til möguleika eða meðhöndlunar í atvinnu eða starfi;

     b. Sérhvers annars mismunar, útilokunar eða forréttinda, sem hefur í för með sér brottfall eða skerðingu á jafnrétti með tilliti til möguleika eða meðhöndlunar í vinnu eða starfi, eftir því sem hlutaðeigandi aðildarríki kann að hafa ákveðið að höfðu samráði við fulltrúa aðalsamtaka verkamanna og atvinnurekenda, þar sem þau eru, og aðra aðila, sem við á.

2. Hvers konar mismunur, útilokun eða forréttindi varðandi tiltekið starf, sem byggist á kröfum þeim, sem því starfi fylgja, skal ekki telja misrétti.

3. Að því er tekur til þessarar samþykktar skulu hugtökin „atvinna“ og „starf“ einnig ná til aðgangs að starfsþjálfun, aðgangs að vinnu og sérstökum störfum svo og vinnukjara.


2. gr.

     Hvert það aðildarríki, sem bundið er af samþykkt þessari, undirgengst að lýsa yfir og framfylgja þjóðlegri stefnu, sem með þeim aðferðum, er henta aðstæðum og venju í hverju landi, miði að því að koma á jafnrétti með tilliti til möguleika og meðhöndlunar varðandi vinnu og störf í því skyni að útrýma misrétti í þessum efnum.


3. gr.

     Hvert það aðildarríki, sem bundið er af þessari samþykkt, undirgengst að það skuli með þeim aðferðum, sem henta þjóðlegum aðstæðum og venju:

     a. leita samvinnu við félagssamtök atvinnurekenda og verkamanna og annarra viðkomandi aðila til þess að greiða fyrir viðurkenningu og framkvæmd þessarar stefnu;

     b. setja þau lög og efla þess konar fræðslukerfi, sem telja má að tryggi viðurkenningu og framkvæmd þessarar stefnu;

     c. nema úr gildi þau lagaákvæði og breyta þeim reglugerðarákvæðum eða venju, sem kunna að vera ósamrýmanleg þessari stefnu;

     d. framfylgja þessari stefnu að því er tekur til vinnu, sem er undir eftirliti opinbers stjórnvalds;

     e. tryggja framkvæmd þessarar stefnu í starfsemi, er snertir leiðbeiningar um stöðuval, starfsþjálfun og vinnumiðlun, sem er undir eftirliti opinbers stjórnvalds;

     f. greina frá því, í ársskýrslum sínum um framkvæmd samþykktarinnar, hvað gert hefur verið samkvæmt þessari stefnu og hvern árangur það hefur borið.


4. gr.

     Ráðstafanir, sem gerðar eru gegn manni, sem með rökum er grunaður um að vera eða er þátttakandi í starfsemi, sem er hættuleg öryggi ríkisins, skulu ekki taldar misrétti, enda skal hlutaðeigandi manni rétt að áfrýja til þar til bærrar stofnunar, sem sett sé á fót samkvæmt venju í hlutaðeigandi ríki.


5. gr.

1. Sérstakar aðgerðir til verndar eða aðstoðar, sem kveðið er á um í öðrum samþykktum eða tillögum frá Alþjóðavinnumálaþinginu, skulu ekki taldar misrétti.

2. Sérhvert aðildarríki getur, að höfðu samráði við aðalsamtök atvinnurekenda og verkamanna, þar sem þau eru, ákveðið að ekki skuli telja misrétti fólgið í öðrum sérstökum ráðstöfunum, sem miða að því að fullnægja sérstökum þörfum fólks, sem t.d. vegna kynferðis, aldurs, örorku, framfærsluskyldu eða félagslegrar eða menningarlegrar stöðu er að almanna áliti þurfandi sérstakrar verndar eða hjálpar.


6. gr.

     Sérhvert aðildarríki, sem fullgildir þessa samþykkt, skuldbindur sig til þess að framfylgja henni í ósjálfstæðum löndum í samræmi við ákvæði stofnskrár Alþjóðavinnumálastofnunarinnar.


7. gr.

     Formlegar fullgildingar á samþykkt þessari skal senda framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar.


8. gr.

1. Samþykkt þessi er einungis bindandi fyrir þau aðildarríki Alþjóðavinnumálastofnunarinnar, sem látið hafa framkvæmdastjórann skrá fullgildingar sínar.

2. Hún gengur í gildi tólf mánuðum eftir að fullgildingar tveggja aðildarríkja hafa verið skráðar hjá framkvæmdastjóranum.

3. Síðan gengur samþykktin í gildi fyrir hvert einstakt ríki tólf mánuðum eftir að fullgilding þess var skráð.


9. gr.

1. Aðildarríki, sem fullgilt hefur samþykkt þessa, getur sagt henni upp að tíu árum liðnum frá fyrstu gildistöku hennar. Skal það gert með tilkynningu, er send sé framkvæmdastjóra Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar til skrásetningar. Slík uppsögn gengur ekki í gildi fyrr en liðið er ár frá skrásetningardegi hennar.

2. Sérhvert aðildarríki, sem hefur fullgilt þessa samþykkt, en notfærir sér ekki innan árs frá lokum tíu ára tímabilsins, sem um getur í fyrri tölulið, rétt þann til uppsagnar, sem kveðið er á um í þessari grein, skal bundið af henni í annað tíu ára tímabil og síðan getur það sagt þessari samþykkt upp að liðnu hverju tíu ára tímabili í samræmi við ákvæði þessarar greinar.


10. gr.

1. Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal tilkynna öllum aðildarríkjum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar skráningu allra fullgildinga og uppsagna, sem aðildarríki stofnunarinnar hafa sent honum.

2. Þegar framkvæmdastjórinn tilkynnir aðildarríkjum stofnunarinnar skrásetningu annarrar fullgildingarinnar, sem honum berst, skal hann vekja athygli þeirra á, hvaða dag samþykktin gangi í gildi.


11. gr.

     Framkvæmdastjóri Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar skal senda aðalritara Sameinuðu þjóðanna til skrásetningar skv. 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna, allar upplýsingar um fullgildingar og uppsagnir, sem hann hefur skrásett í samræmi við ákvæði undanfarandi greina.


12. gr.

     Þegar stjórn Alþjóðavinnumálaskrifstofunnar kann að álíta það nauðsynlegt, skal hún leggja fyrir allsherjarþingið skýrslu um framkvæmd þessarar samþykktar og athuga jafnframt, hvort æskilegt sé að setja á dagskrá þingsins breytingar á henni allri eða hluta hennar.


13. gr.

1. Ef þingið gerir nýja samþykkt, sem breytir þessari samþykkt allri eða hluta hennar, skal:

     a. fullgilding aðildarríkis á hinni nýju samþykkt ipso jure hafa í för með sér tafarlausa uppsögn þessarar samþykktar, hvað sem ákvæðum 9. gr. hér að framan líður, ef hin nýja samþykkt öðlast gildi og þá frá þeim tíma er það gerðist;

     b. aðildarríkjum ekki heimilt að fullgilda þessa samþykkt eftir að hin nýja samþykkt gekk í gildi; enda sé ekki öðruvísi ákveðið í hinni nýju samþykkt.

2. Þessi samþykkt skal, hvað sem öðru líður, halda gildi sínu eins og hún er formi og efni, hvað snertir þau aðildarríki, sem hafa fullgilt hana, en ekki hina nýju samþykkt.


14. gr.

     Hinn enski og franski texti þessarar samþykktar eru jafngildir.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum