Hoppa yfir valmynd
6. október 2006 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Arfur Bríetar 150 árum síðar

Við erum hér saman komin til að heiðra minningu eins helsta kvenréttindafrömuðar okkar Íslendinga, Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Tilefnið er, eins og við öll vitum, að í þessari viku voru heil 150 ár liðin frá fæðingu Bríetar en hún fæddist upp úr miðri nítjándu öldinni. Bríet kynntist á þeim tíma bæði lífi á landsbyggðinni og höfuðborginni og þeirri þróun sem átti sér stað bæði í dreifbýli og þéttbýli. Hún ólst upp norður í Vatnsdal í Húnavatnssýslu, og bjó síðar í Reykjavík þar sem hún byggði sitt heimili með Valdimar Ásmundssyni, ritstjóra Fjallkonunnar. Ég reikna með að aðrir greini hér í dag nánar frá lífshlaupi hennar.

Bríet lét kvenréttindi sig miklu varða og enginn þarf að velkjast í vafa um að við búum enn að þeim grunni sem hún lagði fyrir rúmri öld síðan. Árið 1895 hóf Bríet útgáfu Kvennablaðsins sem varð boðberi kvenréttinda og einn helsti fréttamiðill kvenna á þessum tíma. Hún gekkst fyrir stofnun Kvenréttindafélags Íslands árið 1907 og var formaður þess til ársins 1928. Kvenréttindafélagið verður því 100 ára í byrjun næsta árs og get ég upplýst það hér að þá stendur til að reisa stofnanda þess, Bríeti, sérstakan minnisvarða sem listakonunni Ólöfu Nordal hefur verið falið að hanna.

Bríet lét til sín taka á vettvangi íslenskra stjórnmála. Árið 1908 fengu konur í fyrsta skipti kosningarrétt í bæjar- og sveitarstjórnarkosningum í Reykjavík og Hafnarfirði. Eitt fyrsta verkefni Kvenréttindafélags Íslands var að beita sér fyrir framboði kvenna til bæjarstjórnarkosninga sama ár. Bríet var meðal þeirra kvenna er stóðu að framboði sérstaks kvennalista í Reykjavík og náðu fjórar þeirra kjöri, þar á meðal Bríet sjálf.

Fyrsta málið sem Bríet tók upp á bæjarstjórnarfundi var að tryggja að stúlkur nytu sundkennslu. Fór hún fram á 150 króna styrk til þessa og fengu stúlkurnar styrkinn. Á Akureyri voru einnig boðnir fram sérstakir kvennalistar á árunum 1911, 1914 og 1921 og á Seyðisfirði árið 1911. Ekki er að efa að þessi kvennaframboð hafi verið að undirlagi og fyrir hvatningu Bríetar.

Við getum fagnað því að árangur hefur náðst á vettvangi stjórnmálanna þótt eflaust þyki mörgum að hægt gangi. Sem dæmi má nefna að árið 1978 voru konur 6% fulltrúa í sveitarstjórnum landsins en eftir kosningarnar í maí síðastliðnum er hlutfall kvenna í sveitarstjórnum orðið 35,9%. Félagsmálaráðuneytið og Jafnréttisstofa vöktu með margvíslegum hætti athygli á mikilvægi þess að jöfn hlutföll kynja endurspegluðust í sveitarstjórnum og skipun nefnda og við teljum okkur hafa orðið vör við að það hafi borið nokkurn árangur. Enn er verið að bíða upplýsinga frá nokkrum sveitarfélögum en heildarniðurstaðan verður birt á myndrænan hátt á korti á vef félagsmálaráðuneytisins og Jafnréttisstofu. Grænn litur merkir á kortinu að jafnrétti sé við lýði og ég er að sjálfsögðu ánægður með að sá góði litur sé einkenni jafnvægis og kemur það reyndar ekki á óvart.

En Bríet lét einnig til sín taka á vettvangi Alþingis. Árið 1915 fengu konur, 40 ára og eldri, kosningarrétt til Alþingis og árið 1920 höfðu konur öðlast kosningarrétt til Alþingis til jafns við karla. Bríet var fyrst kvenna til að bjóða sig fram á Alþingi árið 1916 en hún náði þó ekki kjöri. Sex ár liðu áður en fyrsta konan tók sæti á Alþingi sem var Ingibjörg H. Bjarnason.

Enda þótt enn sé jöfnum hlutföllum kynjanna ekki náð í stjórnmálunum er ljóst að þau skref, sem stigin hafa verið, hafa verið í rétta átt. Til að tryggja áframhaldandi framþróun á þessu sviði er að störfum starfshópur þar sem í eiga sæti fulltrúar þeirra stjórnmálaflokka sem eiga sæti á Alþingi og hefur hópurinn það að markmiði að skipuleggja þverpólitískar aðgerðir til að jafna enn frekar en nú er hlut kynjanna við næstu alþingiskosningar á komandi vori. Hópurinn hefur þegar sent út hvatningu til allra stjórnmálaflokka landsins þar sem áhersla er lögð á ábyrgð flokkanna sjálfra í þessu sambandi og ýmislegt fleira verður sýnilegt á næstu dögum og vikum.

Tækifæri til náms var flestum konum snemma á 20. öldinni sem fjarlægur draumur. Eitt af fyrstu verkum Hannesar Hafsteins eftir að hann varð ráðherra árið 1904 var að veita stúlkum aðgang að Menntaskólanum. Konur gátu þá lært undir og tekið stúdentspróf án takmarkana. Bendir ýmislegt til þess að Bríet hafi verið með í ráðum þegar þessi ákvörðun var tekin. Árið 1911 hlutu konur enn fremur rétt til náms, námsstyrkja og embætta sem þóttu án efa merk tímamót enda þótt nokkur tími liði þangað til kona gegndi fyrst embætti.

Óhætt er því að fullyrða að Bríet hafið staðið í forystu íslenskrar kvennabaráttu á fyrstu áratugum síðustu aldar og lagði hún án efa hornsteininn að þeirri þróun sem enn á sér stað við að jafna hlut kynjanna í íslensku samfélagi. Þróun sem er engan veginn lokið. Við megum ekki setjast með hendur í skaut, hvorki karlar né konur. Betur má ef duga skal.

Jón Kristjánsson, forveri minn í embætti félagsmálaráðherra, skipaði á vordögum nefnd sem ætlað er að endurskoða gildandi lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla, í tilefni af því að þrjátíu ár eru liðin frá því að fyrstu jafnréttislögin voru samþykkt á Alþingi. Nefndin hefur opnað heimasíðu sem hýst er á vefsíðu félagsmálaráðuneytisins og gefst fólki þar tækifæri á að koma að athugasemdum eða ábendingum sem ætla má að komi að gagni við endurskoðun laganna.

Þegar horft er um öxl sést að mörg þeirra verkefna sem stjórnvöld hafa staðið fyrir með það að markmiði að auka jafnrétti kynjanna hafa miðað að því að rétta hlut kvenna á ýmsan hátt. Þrátt fyrir að hlutur kvenna sé að jafnaði rýrari en karla á mörgum sviðum samfélagsins má ekki gleyma því að á sumum sviðum er ekki svo. Það þótti því mikið og gott skref til jafnréttis þegar réttur feðra til fæðingar- og foreldraorlofs var aukinn til jafns við rétt mæðra með gildandi lögum um fæðingar- og foreldraorlof.

Það er mikið ánægjuefni hversu margir feður nýta sér þennan rétt sinn enda mikilvægt að foreldrar eigi kost á að skipta með sér ábyrgð á börnum sínum á sama tíma og þeir taka virkan þátt á vinnumarkaði. Níutíu prósent þátttaka karla í rúmlega þriggja mánaða fæðingarorlofi vekur heimsathygli og mikilvægt er að við fylgjumst nú grannt með því hvort og þá hvaða áhrif þessi breyting hefur á samfélagið okkar, stráka, stelpur, konur og karla, fjölskyldulíf og atvinnulíf.

Enn virðist eitthvað í land að jafnrétti kynjanna náist að fullu á vinnumarkaði enda þótt við höfum séð nokkurn árangur á því sviði á síðastliðnum árum og áratugum. Þar er kynbundinn launamunur mér ofarlega í huga en sú mismunun hefur verið viðvarandi á íslenskum vinnumarkaði.

Ég fæ ekki séð hvernig unnt er að vinna á þeim vanda öðruvísi en svo að þeir sem koma að launaákvörðunum, bæði á almenna vinnumarkaðnum og hjá hinu opinbera, séu meðvitaðir um hvaða viðmið eru lögð til grundvallar ákvörðunum þeirra. Ég tel þá leið vænlegasta til árangurs til þess að tryggja megi að sömu viðmið liggi að baki ákvörðunum varðandi laun kvenna og karla á íslenskum vinnumarkaði eins og jafnréttislögin gera ráð fyrir. Þetta er í raun ekki ýkja flókin lausn á þessum óásættanlega vanda en virðist þó engu síður vefjast fyrir mörgum. Við verðum að greina betur hvaða tæki geta raunverulega haft áhrif og ég geri mér fulla grein fyrir því að fleira en eitt hlýtur að skipta hér máli. Ekki er víst að það sem hafði áhrif í gær nýtist með sama hætti í dag, við hljótum sífellt að þurfa að þróa aðferðirnar.

Ég vil hins vegar nota þetta tækifæri sem ég hef hér í dag til að minna á að gildandi jafnréttislög banna kynbundinn launamun og vil ég enn fremur hvetja stjórnendur fyrirtækja og stofnana til að líta í eigin barm og fara að lögum.

Löngum hefur verið um það rætt að kynbundið ofbeldi hafi mjög neikvæð áhrif á líf margra kvenna. Um er að ræða samfélagslegt vandamál sem við berum öll ábyrgð á og krefst samstilltra aðgerða. Mér er það mikil ánægja að geta sagt frá því hér á þessum tímamótum að ríkisstjórnin samþykkti þverfaglega aðgerðaáætlun á fundi sínum síðastliðinn þriðjudag. Hún hefur það meginmarkmið að vinna gegn ofbeldi á heimilum og kynferðislegu ofbeldi sem beinist að konum og börnum og að bæta aðbúnað þeirra er orðið hafa fyrir slíku ofbeldi eða eru í áhættuhópi hvað þetta varðar.

Um er að ræða efnismikla áætlun sem meðal annars er ætlað að stuðla að opinni umræðu um ofbeldi gegn börnum og kynbundnu ofbeldi. Enn fremur er henni ætlað að styrkja fagfólk stofnana í því að sjá einkenni ofbeldis og koma þar með þolendum þess frekar til aðstoðar. Þá beinast aðgerðirnar að því að tryggja einstaklingum sem eru þolendur ofbeldis á heimili eða kynferðislegs ofbeldis viðeigandi aðstoð og ef til vill ekki hvað síst rjúfa þann vítahring sem ofbeldi felur oft í sér með því að styrkja meðferðarúrræði fyrir gerendur.

Þá vil ég minna á að úthlutað verður í fyrsta skipti úr jafnréttissjóði 24. október næstkomandi en sjóðnum er ætlað að veita fé til kynjarannsókna. Er sjóðnum ætlað að stuðla að því að hér á landi verði unnar vandaðar kynjarannsóknir sem margir telja vera lykilinn að framgangi jafnréttis. Er mér kunnugt um að stjórn sjóðsins vinnur nú við að yfirfara þær umsóknir sem hafa borist sjóðnum og verkefnin eru mjög áhugaverð, það hef ég fengið upplýsingar um. Ég bind vonir við það að sjóðurinn hafi þýðingu þegar við metum hvaða aðferðir skila okkur raunverulegum árangri. Það er mikilvægt fyrir okkur sem vinnum að stefnumótun stjórnvalda að hafa vandaðar upplýsingar í höndunum þegar við forgangsröðum verkefnum.

Ágætu gestir.

Margs er að gæta þegar stefnt er að jafnrétti kynjanna á öllum sviðum samfélagsins. Ég vil því ítreka það að jafnrétti kynjanna varðar okkur öll sem búum í þessu samfélagi. Við þurfum því öll að leggja lóð á vogarskálarnar en aðkoma hvers og eins skiptir miklu máli. Sérhver einstaklingur getur haft áhrif á gang mála og við eigum svo sannarlega að nýta okkur það hvar sem við stöndum, bæði karlar og konur.

Það gerði Bríet Bjarnhéðinsdóttir svo sannarlega. Nafn hennar sem einstaklings er greypt í huga allra núlifandi Íslendinga vegna frumkvæðis hennar og einstakrar baráttu þá hefur hún einnig haft umtalsverð áhrif í góðri samvinnu við aðra. Með slíkri samvinnu hefur hún náð mun meiri árangri en ella og mun betri árangri en hún hefði náð ein eða með fámennum einsleitum hópi. Með víðsýni fékk hún hrundið af stað breytingum sem við Íslendingar munum ávallt búa að.

Höfum það hugfast.

Takk fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum