Hoppa yfir valmynd
9. febrúar 2007 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Jafnréttislög í 30 ár

Kæru samherjar!

Ég vil þakka fyrir að fá tækifæri til þess að ávarpa þetta mikilvæga málþing hér í dag. Já, ég segi að málþingið sé mikilvægt og meina það svo sannarlega. Ég hef fundið það þann tíma sem ég hef verið í félagsmálaráðuneytinu hve þessi málaflokkur snertir mörg svið og verkefni sem unnið er að á vegum hins opinbera. Jafnréttismálin eru vissulega mannréttindamál sem snerta allar hliðar mannlegs samfélags og ég vil undirstrika að jafnréttismál eru mál sem varða bæði konur og karla.

Málþing um jafnréttislög í 30 árÉg gæti fjallað hér ítarlega í allan dag um ýmis áhugaverð verkefni því af nógu er að taka en fyrir mig sem stjórnmálamann er áhugaverðast að velta því fyrir mér hvort það sem við stjórnmálamennirnir gerum skipti einhverju máli og þá hvaða máli. Höfum við raunveruleg áhrif og þá með hvaða hætti?

Þetta eru auðvitað spurningar sem við sem störfum á vettvangi stjórnmálanna eigum að spyrja okkur á hverjum degi en mér finnst þessar spurningar sérstaklega áhugaverðar þegar jafnréttismálin eru annars vegar.

Hvar liggja áhrifavaldarnir? Liggja þeir í sögunni og samfélagsgerðinni? Liggja þeir í gærdeginum og deginum í dag? Liggja þeir í okkur sjálfum konum og körlum? Liggja þeir í mæðrum okkar og feðrum og dætrum okkar og sonum? Liggja þeir hjá vinnuveitendum okkar og vinum og kunningjum? Liggja þeir í forgangsröðuninni og efnishyggjunni?

Ég vildi að ég hefði svör við þessum spurningum og gæti brett upp ermar og breytt því sem þarf að breyta. En því miður vitið þið það best sem hér sitjið í dag að svo einfalt er þetta ekki. Og við erum óþolinmóð og það er fullkomlega eðlilegt.

Þessi álitaefni og staða mála gera jafnréttismálin í senn erfitt, áhugavert og flókið viðfangsefni.

Upplifum við stöðnun, sjáum við jákvæð teikn til dæmis í breyttum viðhorfum í könnun Capacent Gallup á launamun kynjanna? Gæti verið að áhugaverðasta niðurstaðan liggi einmitt þar, í komandi kynslóðum? Gæti verið að við séum að upplifa mestu breytingar í afar langan tíma með fæðingarorlofi feðra? Um 90% íslenskra feðra nýta rétt sinn og þeir taka að meðaltali 97 daga orlof. Þetta er meira en í nokkru öðru landi og líklega eru nú fleiri íslenskir feður virkir við umönnun ungra barna en nokkru sinni áður. Vísbendingar eru um að þetta sé farið að hafa jafnandi áhrif á stöðu karla og kvenna á íslenskum vinnumarkaði þótt enn skorti nokkuð á jafna stöðu. Það er meðal annars sökum þess að fæðingarorlofið er of stutt og það er ennþá þannig að líklegra er að konur brúi tímabilið milli loka orlofs og leikskóla með því að hverfa af vinnumarkaði eða minnka starfshlutfall. En ég leyfi mér að fullyrða að þróunin er í átt til jöfnunar umhyggjuábyrgðar innan fjölskyldunnar. Er það ef til vill eitt af mikilvægustu skrefum sem við getum tekið í jafnréttisátt?

Ég rakst nýlega á grein í fylgiblaði með danska viðskiptablaðinu Börsen þar sem fjallað er um það að smábörn geti haft jákvæð áhrif á starfsframa karlmanna. Þar eru viðtöl við danska feður og greinarhöfundur kemst að þeirri niðurstöðu að nútíma karlmenn krefjist þess að fá föðurhlutverkið til baka, eins og það er orðað. Sú reynsla sem þeir öðlist með umönnun lítilla barna og jafnvel vökunætur geti haft jákvæð áhrif á starfsframann. Ég tók líka eftir því í fréttum í vikunni að þekktur fréttamaður hafi sagt starfi sínu lausu til þess að annast barnið sitt. Ég man ekki eftir því að hafa áður séð slíka frétt með mynd af stoltum föður með barn sitt í fanginu. Ég vona að þetta sé tímanna tákn, ekki einungis á Íslandi heldur einnig annars staðar á Norðurlöndum, í þeim löndum sem við berum okkur einkum saman við.

Hvað varðar stjórnmálaþátttöku kvenna þurfum við að vera mjög vel vakandi.

Á síðasta kjörtímabili var skipting kjörinna fulltrúa í sveitarstjórnum þannig að 68,3% voru karlar og 31,7% konur. Að afloknum sveitarstjórnarkosningum í maí síðastliðnum voru karlar 64,1% af kjörnum fulltrúum og konur 35,9%. Hlutur kvenna í sveitarstjórnum hefur því aukist um 4,2% milli kjörtímabila sem er afar jákvætt og hlutfallið nálgast nú 40%. Vissulega hefði ég viljað sjá sömu teikn á lofti í aðdraganda Alþingiskosninganna í vor en því miður gefur undirbúningurinn ekki tilefni til bjartsýni. Ef við lítum enn frekar til sveitarstjórnarstigsins eru hins vegar jákvæð teikn á lofti. Árið 2006 eru 75% sveitarfélaga með jafnréttisnefnd eða aðra nefnd ábyrga fyrir jafnréttismálum en árið 2001 voru þau 30%. Þessi tala hefur því meira en tvöfaldast. 96% landsmanna búa núna í sveitarfélagi þar sem sérstök jafnréttisnefnd er starfandi.

Jafnréttisáætlanir liggja fyrir hjá 43% sveitarfélaga en 23% til viðbótar eru að vinna slíka áætlun þannig að þær munu þá liggja fyrir í hátt í 70% sveitarfélaga. Ég er þess fullviss að vinna við gerð slíkrar áætlunar og framkvæmd hennar og eftirfylgni hefur áhrif í þeim mikilvægu nærsamfélögum sem sveitarfélög um land allt eru.

Í dag erum við hér samankomin til þess að fjalla um jafnréttislöggjöfina í 30 ár. Eins og ykkur er kunnugt er þverpólitísk nefnd að ljúka störfum nú í febrúar og mun skila mér tillögu að frumvarpi til breytinga á jafnréttislögum. Nefndin hefur þegar unnið mjög gott verk og ég bind vonir við frumvarpið sem hún hefur í smíðum. Hún hefur kallað á fund sinn fjölda fulltrúa og leitað eftir umsögnum sem reynast mikilvægt innlegg í störf nefndarinnar.

En hvar stöndum við nú? Og hver verður staðan eftir önnur 30 ár?

Staðan er að ýmsu leyti jákvæð en að vissu leyti fullkomlega óviðunandi. Þá á ég fyrst og fremst við kynbundinn launamun. Ég hef nú boðað til gerðar yfirlýsingar með fulltrúum aðila vinnumarkaðarins þar sem við munum sameiginlega lýsa því yfir að við vinnum að því að draga úr kynbundnum launamun með markvissum hætti m.a. við gerð kjarasamninga. Við verðum einfaldlega að nýta öll tæki og mér finnst lykilatriði að fá vinnuveitendur og þá sem raunverulega ákvarða launin til liðs við mig. Það mun ég gera.

Mér finnst líka óviðunandi að sá mannauður og kraftur sem býr í konum skuli ekki nýttur sem skyldi í stjórnum fyrirtækja og æðstu stöðum. Hvaða rök búa þar að baki? Þau eru vandfundin.

Ég vil að lokum segja það að mér finnst mannauðurinn sem býr í drengjum og körlum vannýttur þegar kemur að jafnréttisbaráttunni. Hér í dag mun tala maður sem hefur beitt sér mjög í jafnréttisbaráttunni og slíkum röddum þarf að fjölga á öllum stigum samfélagsins. Ég hef sem félagsmálaráðherra ítrekað setið fundi um jafnréttismál og verið þar á meðal afar fárra karla. Það er ekki eðlilegt og því verðum við að breyta.

Það skiptir máli að allar raddir fái að heyrast á öllum sviðum. Þannig höfum við mest áhrif og þannig höfðu þær kvenréttindakonur sem voru frumkvöðlar í upphafi síðastliðinnar aldar mest áhrif.

Ég mun á næstunni leggja fram á Alþingi ítarlega skýrslu um stöðu jafnréttismála hér á landi og tillögu til þingsályktunar um breytingu á framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum frá 2004–2008. Ég vænti þess að skýrslan muni vekja athygli. Í henni kemur fram að mjög margt hefur verið vel gert og nokkuð áunnist en betur má ef duga skal.

Ég hvet ykkur öll til áframhaldandi dáða og vona að við munum sjá raunverulegar breytingar á næstu 30 árum. Ég heiti því að stuðla að því og mér sýnist að ýmis jákvæð teikn séu á lofti bæði með fæðingarorlofi feðra og viðhorfum þeirra kynslóða sem nú eru að hasla sér völl á vinnumarkaði. Því vil ég trúa.

Gangi ykkur vel í dag. Ég hlakka til þess að hlýða á erindin hér á eftir.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum