Hoppa yfir valmynd
27. febrúar 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Virkjum hæfileikana - ráðstefna um atvinnumál fatlaðs fólks

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ráðstefna um atvinnumál fatlaðs fólks
Grand hóteli Reykjaví, 27. febrúar 2014

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir.

Hvað er framundan í atvinnumálum fatlaðs fólks? – Þetta er ein þeirra spurninga sem rædd verður á ráðstefnunni hér í dag. Þótt ég geti ekki gefið eitt beinskeytt svar um hvað framundan er, þá er ég ekki í vafa um að framundan eru ýmis tækifæri skapast hafa í þeirri deiglu sem málefni fatlaðs fólks hafa verið í á liðnum árum. Þá vísa ég til flutings þjónustu við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga og ýmsa áfanga sem tengjast innleiðingu Sáttmála Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks sem hafa á margan hátt bætt réttarstöðu þeirra sem í hlut eiga.

Ákvörðunin um yfirfærsluna til sveitarfélaganna á sínum tíma skapaði mikilvæga umræðu, ýtti undir þekkingarleit og krafði fjölda fólks, jafnt hjá ríki og sveitarfélögum, til þess að velta fyrir sér í meira mæli en áður stöðu fatlaðs fólks og málaflokksins í heild. Það má í raun segja að allt hafi þetta leitt til þess að fólk settist niður, spurði allra helstu grundvallarspurninga og nálgaðist svörin á nýjan og ferskari hátt en áður. Auðvitað hefur ekki öllum spurningum verið svarað og að sjálfsögðu munum við alltaf verða í leit að nýjum tækifærum, betra skipulagi og nýrri nálgun mikilvægra verkefna. Ef við teljum einhvern tíma að við höfum náð endapunkti þannig að frekari breytingar séu óþarfar – þá er örugglega eitthvað að. Við eigum sífellt að spyrja spurninga, vera gagnrýnin á það skipulag sem við búum við og leita nýrra leiða og nýrra tækifæra til þess að gera betur á morgun það sem við gerum vel í dag.

Á liðnum árum hefur verið unnið markvisst að því að auka sýnileika fatlaðs fólks í samfélaginu. Fatlaðir sjálfir hafa stigið fram með þá eðlilegu og sjálfsögðu kröfu að þeir eigi að heyrast og sjást og njóta sama réttar og allir aðrir til fullrar þátttöku í samfélaginu. Öll sú vinna sem fatlað fólk og félög þeirra hafa ráðist í til að mennta samfélagið og efla þannig skilning á aðstæðum fatlaðs fólks hefur skilað árangri. Aðskilnaðarstefnan er á hröðu undanhaldi og sýnin um eitt samfélag fyrir alla er ekki lengur eins og fjarlægur draumur, þótt vissulega eigum við enn töluvert langt í land.

Við tilfærslu málefna fatlaðra var áhersla lögð á að flytja alla almenna þjónustuþætti við fatlað fólk til sveitarfélaganna og að þau fengju jafnframt til ráðstöfunar þá fjármuni sem til þjónustunnar voru ætlaðir, óháð því hvort hún væri veitt af sveitarfélögum, sjálfseignarstofnunum eða öðrum aðilum.

Það verður að segjast sem er að skipulag atvinnumála fatlaðs fólks hefur ekki verið sem skyldi til þessa og við tilfærsluna voru ýmsir endar óhnýtti í þeim efnum. Sveitarfélögin hafa fengið fjármuni til að sinna þessum málum, Vinnumálastofnun fer með ákveðna þætti og Tryggingastofnun ríkisins sömuleiðis þar sem stofnunin semur við atvinnurekendur á almennum vinnumarkaði um að ráða starfsfólk sem nýtur örorkulífeyris, örorkustyrks og endurhæfingarlífeyris.

Ég er þeirrar skoðunar að núgildandi fyrirkomulag sé of flókið og óeðlilegt að það sé í svo stórum atriðum frábrugðið því skipulagi sem gildir um atvinnumál og vinnumarkaðsúrræði almennt þegar ófatlað fólk á í hlut. Mér finnst orðið mjög brýnt að hrinda í framkvæmd þeim breytingum sem lengi hafa staðið fyrir dyrum um innleiðingu starfsgetumats í stað örorkumats og eins að færa þau verkefni Tryggingastofnunar sem ég nefndi áðan til Vinnumálastofnunar. Frumvarp þessa efnis er í undirbúningi og ég stefni að því að leggja það fram á vorþinginu.

Nýlega lagði ég fram til opinnar kynningar og umsagnar þrjú lagafrumvörp um innleiðingu svokallaðra mismunatilskipana, en með þeim verður skýrar en nokkru sinni kveðið á um jafnrétti og jafna meðferð fólks í víðasta skilningi. Í fyrsta lagi er frumvarp sem kveður á um skipulag þeirrar stjórnsýslu sem lagt er til að gildi á sviði jafnréttismála. Er þá miðað við að ein stofnun annist jafnréttismál á breiðum grundvelli sem lúta af jafnrétti kynjanna og jafnri meðferð óháð kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífsskoðun, fötlun , skertri starfsgetu, aldri, kynhneigð eða kynvitund. Annað frumvarp fjallar um jafna meðferð óháð kynþætti eða þjóðernisuppruna og loks er það þriðja frumvarpið sem kveður á um jafna meðferð á vinnumarkaði.

Síðastnefnda frumvarpið mun tvímælalaust styrkja stöðu fatlaðs fólks á vinnumarkaði og verða mikilvægt tæki í höndum þeirra sem þurfa að leita réttar síns vegna mismununar, en einnig góð leiðsögn atvinnurekendum og stéttarfélögum um ráðstafanir og aðgerðir til að fyrirbyggja mismunun.

Við vitum öll af fenginni reynslu að lagasetning ein og sér breytir ekki veruleikanum sem við búum við á hverjum tíma. Vel ígrunduð og skýr lagasetning er hins vegar öflug tæki til breytinga enda er þá jafnan byggt á skýrum vilja lýðræðislega kjörinna fulltrúa á Alþingi að undangenginni hugmyndafræðilegri umræðu og samfélagslegri þróun. Íslenskt samfélag hefur tekið út verulegan félagsþroska á liðnum árum og ég fullyrði að almennur skilningur á ýmsum grundvallarhugtökum sem snúa að mannréttindum og inntaki þeirra hefur tekið stórstígum framförum, um leið og margvíslegir fordómar í garð einstaklinga og hópa sem á einhvern hátt skera sig úr fjöldanum hafa látið undan síga. Við erum því á réttri leið.

Góðir gestir.

Réttur fólks til atvinnu er einn mikilvægasti þátturinn í því að tryggja virka þátttöku fólks í samfélaginu og það er til mikils að vinna fyrir alla. Þessum rétti þurfa að fylgja raunveruleg tækifæri til atvinnu við hæfi því þegar fatlað fólk á í hlut geta einföldustu hindranir skipt sköpum um getu viðkomandi til að gegna tilteknu starfi. Það er auðveldara að fást við efnislegar hindranir en hugarfarslegar. Greitt og gott aðgengi er mikilvægt fyrir fólk með hreyfihömlun eða skerta líkamlega getu af einhverju tagi. Hindranir sem birtast í fordómum við ráðningar og í viðmóti á vinnustöðum eru hins vegar þættir sem við verðum að gefa meiri gaum og vinna meira með. Þetta kemur glöggt í ljós í niðurstöðum nýlegrar rannsóknar sem Félagsstofnun Háskóla Íslands og Rannsóknarsetur í fötlunarfræðum gerði fyrir Öryrkjabandalagið. Niðurstöðurnar sýndu að fólk er almennt neikvæðara fyrir atvinnuþátttöku fólks með geðsjúkdóma og þroskahömlun en atvinnuþátttöku blindra og heyrnarlausra en almennt er fólk jákvæðast gagnvart atvinnuþátttöku hreyfihamlaðra. Neikvæð viðhorf og fordómar gagnvart geðsjúkum og fólks með þroskaskerðingar samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar eru áhyggjuefni sem við verðum að bregðast við með aðgerðum.

Í grófum dráttum má greina í fjóra flokka þær helstu hindranir sem draga úr atvinnutækifærum fatlaðs fólks. Í fyrsta lagi má nefna beina mismunun þar sem fólk fær ekki sömu tækifæri og aðrir til að sanna getu sína vegna fordóma hjá atvinnurekendum. Í öðru lagi eru það kostnaðarlegar hindranir þegar atvinnurekendur sjá fyrir sér að ráðning fatlaðs einstaklings geti leitt til kostnaðar vegna aðlögunar eða breytinga á vinnustaðnum til að mæta þörfum viðkomandi. Í þriðja lagi má nefna framleiðni þegar atvinnurekandi gefur sér að starfsgeta og þar með afköst verði minni hjá fötluðum einstaklingi en ófötluðum. Loks eru það viðhorf og skortur á upplýsingum sem getur bæði birst hjá atvinnurekandanum og hinum fatlaða sjálfum vegna vanmats á báða bóga sem á rætur sínar í fordómum og vanþekkingu vegna ónógra upplýsinga.

Það er okkur mikilvægt að greina þær hindranir sem helst er við að glíma í atvinnumálum fatlaðs fólks. Þannig er auðveldara að sjá hvers konar aðgerðir eru líklegar til að koma að gagni. Ég tel líka mjög mikilvægt að við hverfum frá þeim langvarandi plagsið að aðgreina fatlað fólk frá ófötluðum, sundra þjónustu á sviði vinnumála og vinnumarkaðsúrræðum milli stjórnsýslustiga og ólíkra stofnana, eftir því hverjir eiga í hlut eða hvers konar skerðingar þeir búa við og skapa þannig til völundarhús og flækjur öllum til óþurftar og ama. Fólk er margvíslegt, hvort sem það er fatlað eða ófatlað og geta fólks og þarfir til stuðnings geta verið og eru iðulega breytilega frá einum tíma til annars. Skipulag vinnumarkaðsúrræða á einum stað fyrir alla tel ég að muni skila aukinni fjölbreytni og skapa fólki fleiri tækifæri en ella og ég veit að margir eru mér sammála um það.

Við höfum öðlast dýra en mikilvæga reynslu í vinnumarkaðsmálum í kjölfar efnahagshrunsins haustið 2008, þegar atvinnuleysi hér á landi fór í hæðir sem okkur voru algjörlega framandi. Til að takast á við þessar aðstæður skipti gríðarlega miklu máli að gott og víðtækt samstarf tókst með ríki, sveitarfélögum, aðilum vinnumarkaðarins, menntastofnunum,  og svo mætti áfram telja um að skapa margvísleg tækifæri fyrir atvinnuleitendur, ýmist til atvinnuþátttöku í átaksverkefnum eða til fjölbreyttra úrræða sem öll höfðu það að markmiði að efla og styrkja getu fólks til að komast inn á vinnumarkaðinn, fyrr en síðar. Auðvitað voru þetta aðgerðir sem kostuðu fjármuni – en tvímælalaust var þeim fjármunum vel varið og það held ég að enginn efist um í dag. Á sama hátt þarf öflugt og víðtækt samstarf allra aðila um leiðir til að virkja alla hæfileikana – til að skapa fötluðu fólki tækifæri til starfsþjálfunar og virkrar atvinnuþátttöku með stuðningi eftir þörfum - eða þátttöku í áhugaverðum og verðugum verkefnum, hvort sem um er að ræða á vernduðum vinnustöðum eða í iðju og hæfingu, allt eftir því sem hæfir þörfum hvers og eins.

Virkjum hæfileikana góðir gestir. Það er í allra þágu.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum