Hoppa yfir valmynd
4. mars 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Að eiga orðið? - Málþing um þátttöku kvenna í sveitarstjórnun

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra


Málþingið „Að eiga orðið?“ um þátttöku kvenna í sveitarstjórnum, 28. febrúar 2014.
Rannsóknastofa í jafnréttisfræðum og Jafnréttisstofa.

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Plássfreka kynið

 

Góðir gestir.
Ég þakka Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum og Jafnréttisstofu fyrir að bjóða mér að ávarpa málþingið „Að eiga orðið?“ – málþing um þátttöku kvenna í sveitarstjórnum.

Ég vil byrja á því að óska Rannsóknastofu í jafnréttisfræðum (áður Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum) til hamingju með nýja nafngift og jafnframt með útgáfu þriðja greinasafnsins í ritröð RIKK Fléttur III sem kom út fyrir nokkru í tilefni af 20 ára afmæli stofnunarinnar. Í bókinni má finna úrval greina sem spanna vítt svið jafnréttisfræða og byggja á rannsóknum um ólíkar birtingarmyndir misréttis og áhrifum þess á bæði konur og karla. Meðal annars er fjallað um skörun ólíkra mismununarþátta eins og fötlunar og kyngervis en þess má geta að ég hyggst leggja fram á þessu þingi þrjú frumvörp sem tengjast jafnrétti en með hugtakinu jafnréttismál í þeim frumvörpum er einmitt átt við mál sem varða jafna meðferð óháð kyni, kynþætti, þjóðernisuppruna, trú, lífskoðun, aldri, fötlun, skertri starfsgetu, kynhneigð og kynvitund. Hér má því segja að opinber stefnumótun á sviði jafnréttismála fylgi nýrri þróun í fræðunum til að tryggja sem best vernd gegn mismun.

Hér í dag munum við fjalla um stjórnmálaþátttöku kvenna á vettvangi sveitarstjórna -  það málefni er mér einnig mjög hugleikið en ég hef frá því að ég hóf störf sem ráðherra jafnréttismála nýtt þau tækifæri sem mér hafa gefist til að vekja athygli á þeirri kynjaskekkju sem enn birtist okkur á vettvangi stjórnmálanna. 

Þegar upplýsingar um kynjahlutföll á framboðslistum eru teknar saman kemur í ljós að konum fækkar hlutfallslega eftir því sem dregur ofar á framboðslistum og þær hafa þess vegna minni möguleika á að ná kjöri en karlar. Ef markmið okkar er jafnt hlutfall kvenna og karla meðal kjörinna fulltrúa þurfa konur að vera til jafns við karla í forystusætum framboðslista. Í síðustu sveitarstjórnarkosningum skipuðu karlar fyrsta sæti á 139 framboðslistum (75%) á meðan konur skipuðu fyrsta sæti á 46 (25%) framboðslistum. Ég hef fundað með forystufólki allra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og ég hvatti til þverpólitísks samstarfs kvennahreyfinga stjórnmálaflokka og þingkvenna til að auka hlut kvenna í stjórnmálastarfi almennt.  Ákveðið var að leggja áherslu á fæð kvenna í efstu sætum á framboðslistum stjórnmálaflokkanna og blásið til átaksins Konur í forystusæti í þeirri von að hafa áhrfi á framboðslista fyrir sveitarstjórnarkosningarnar núna í maí. 

Ég vildi að ég hefði svör á reiðum höndum við þeirri spurningu af hverju konur veljast síður í forystusæti framboðslista en karlar þrátt fyrir þá staðreynd að þær eru tæplega helmingur frambjóðenda.

Þegar spurningar um hlut kvenna á framboðslistum eru bornar upp er það bæði ný og gömul klisja að benda á að konur bjóði sig bara ekki fram, þær styðji ekki aðrar konur og séu ekkert skárri en karlarnir sem almennt velja frekar karla en konur. Þegar forystukonur vekja athygli á kynjaskekkjunni og segjast vilja leita allra leiða til að auka hlut kvenna í öruggum sætum ofarlega á lista er þær sömuleiðis gagnrýndar fyrir að leggja áherslu á kyn sitt. Við sem ýmist störfum eða höfum áhuga á stjórnmálum vitum að það eru mun fleiri þættir en kjósendahópurinn sem hafa áhrif hvort sem stuðst er við prófkjör eða uppstillingu við val á framboðslista. Konur bjóða sig ekki fram í tómarúmi heldur í veruleika stjórnmála sem byggir á ríkjandi valdakerfi þar sem karlar hafa verið og eru á heimavelli. Við konur höfum verið að kveða okkur hljóðs í kerfi sem er byggt upp af körlum, fyrir karla og auðvitað rekum við okkur á ýmsar óskrifaðar reglur t.d um mikilvægi tengslanetsins, um mikilvægi þess hver situr við borðið,  hver hefur orðið,  hver stýrir umræðunni og hver ræður.

Árið 1926 svaraði Bríet Bjarnhéðinsdóttir gagnrýni um að konur hefðu ákveðið að fara fara í sérframboð og leggja áherslu á kyn sitt með spurningunni Hvað gera karlarnir? „Þeir hafa aldrei kosið á þing eða í nokkra opinbera stöðu nema eftir kyni. Þeir hafa aldrei kosið aðra en sjálfa sig."

Árið 1926 var Bríet sjötug og löngu búin að átta sig á mikilvægi tengslanetsins. Auður Styrkársdóttir stjórnmálafræðingur sem er meðal framsögumanna hér í dag hefur einmitt bent á að Bríet var ötul við það sem í dag er kallaður „lobbýismi“ – hún varði löngum stundum á Alþingi og fylgdist með gangi mála, hún sat fyrir körlunum til að afla sér upplýsinga um hin ýmsu mál og nýtti sér þær í baráttunni fyrir lágmarksréttindum kvenna.  Við vitum að hennar barátta var afgerandi fyrir að lög um jafnan rétt karla og kvenna til menntunar og embætta frá 1911 og um jafnan kosningarétt árið 1915 urðu að veruleika. 

Eftir aðeins tvö ár fögnum við 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna.

Við skulum stefna að því í sameiningu að ártalið 2015 marki mikilvæga vörðu í átt til jafnrar þátttöku kynjanna í stjórnmálum og í okkar lýðræðissamfélagi. Í þjóðfélagi sem kennir sig við réttlæti, jafnrétti og lýðræði ættu konur og karlar að ráða málum í sameiningu bæði á vettvangi sveitarstjórna og í landsmálunum.  Í dag, tæpum  hundrað árum eftir að konur fengu kosningarétt er staðan þannig að konur eru á landsvísu 40 prósenta kynið, í tuttugu sveitarstjórnum náum við ekki einu sinni að vera 30 prósenta kynið og ein sveitarstjórn er einkynja – að sjálfsögðu karlkyns.

Það hefur sem sagt tekið okkur heila öld að ná þessum árangri og enn þurfum við að vera á varðbergi til að ekki verði bakslag og við þurfum að viðurkenna að konur væru ekki 40% kjörinna fulltrúa ef þrír af fjórum stærstu flokkunum hefðu ekki innleitt sértækar reglur (þó þær séu ólíkar eftir flokkum) um röðun á framboðslista.  

Við skulum spyrja okkur hver hlutur kvenna væri í stjórnmálum ef ekki væri fyrir þessar reglur?

Ég hef og mun sem ráðherra jafnréttismála benda á mikilvægi þess að við nýtum 100 ára afmæli kosningaréttar kvenna meðal annars til þess að kortleggja stjórnmálaþátttöku kvenna hér á landi. Við þurfum að greina betur þá áhrifaþætti sem skýrt geta þá kynjaskekkju sem enn birtist okkur á vettvangi stjórnmálanna.

Ég þarf varla að segja ykkur sem hér eruð stödd að byggðamál þarf að skipuleggja með jafnréttissjónarmið í huga. Stjórnun á vettvangi bæjar- og sveitarstjórnarmála felur í sér mikilvæga þjónustu við almenning, karla og konur (Dæmi: menntamál, velferðarmál, skipulagsmál). Stefnumótun, umræða og ákvarðanataka um byggðaþróun, skipulagsmál og velferð íbúa sveitarfélaganna á að vera viðfangsefni beggja kynja. Búseta, atvinna og nýsköpun um allt land verða ekki tryggð nema með virkri þátttöku kvenna sem vilja störf sem hæfa háu menntunarstigi þeirra. Þannig er jafn hlutur kvenna og karla þar sem ákvarðanir eru teknar ekki eingöngu réttlætismál heldur efnahagsleg nauðsyn fyrir byggðirnar í landinu.

Eins og við vitum er lærdómurinn hér á landi sá sami og annars staðar í vestrænum lýðræðisríkjum – jafnrétti kemur ekki af sjálfu sér og sá árangur sem náðst hefur er afrakstur langrar baráttu utan sem innan stjórnmálanna.

Góðir gestir – í dag höfum við konur orðið – hér eru konur frummælendur og hér munu stjórnmálakonur lýsa viðhorfum sínum og reynslu af stjórnmálaþátttöku.  Ég vona að málþingið verði okkur öllum innblástur og innlegg í okkar baráttu til að efla hlut kvenna við stjórn nærsamfélagsins og mótun lýðræðis.

Takk fyrir

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum