Hoppa yfir valmynd
11. apríl 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðstefna Reykjavíkurakademíunnar um leigumarkaðinn á íslandi

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Góðir gestir.

Það er ánægjulegt að sjá ykkur öll sem hér eruð saman komin - og eins vil ég þakka Reykjavíkurakademíunni, Félagsfræðingafélagi Íslands og Meistaranámsbraut Landbúnaðarháskólans í skipulagsfræði fyrir að efna til þessarar ráðstefnu um Leigumarkaðinn á Íslandi. Málefnið er mikilvægt og varðar mikla hagsmuni einstaklinga. Það er því mjög af hinu góða að fræðimenn og háskólasamfélagið láti sig það varða og leggi til umræðunnar.

Ég þarf ekki að fara í löngu máli yfir stöðuna á húsnæðismarkaðinum eins og er núna og hefur verið um langt skeið. Staðan er einfaldlega erfið og aðstæður gera það að verki að margir búa ekki við öruggt húsnæði og eru á hrakhólum. Ungt fólk sem ætlar að hefja búskap á í mesta basli eigi það ekki einhverjar milljónir uppi í erminni eða vísa aðstoð við íbúðakaup hjá sínum nánustu. Því miður eru þeir miklu fleiri sem ekki standa svo vel að vígi og útilokað fyrir það fólk að ætla að kaupa sér húsnæði. Leigumarkaðurinn er ekki skárri kostur við núverandi aðstæður. Hann stendur alls ekki undir því nafni, enda óöruggur, eftirspurnin er langtum meiri en framboðið, leiguverðið himinhátt og oft er aðeins tímabundin skammtímaleiga í boði.

Ég skal ekki segja hvað er orsök og hvað er afleiðing, en það er í öllu falli staðreynd að leigumarkaðurinn hér á landi er mjög vanþróaður og séreignastefna í húsnæðismálum hefur ráðið ríkjum og verið rótgróin með Íslendingum í gegnum tíðina. Ísland hefur sérstöðu í þessum efnum – því víða hjá nágrannaþjóðum er það fullkomlega eðlilegur og raunhæfur kostur að leigja fremur en að eiga íbúðarhúsnæði, og þess vegna alla sína ævi. Hér á landi er vart hægt að tala um valkosti í húsnæðismálum og félög sem stofnuð hafa verið til að auka fjölbreytni og val í þessum efnum, t.d. þar sem byggt er á búseturétti hafa átt frekar erfitt uppdráttar.

Ég tel það augljóst að skortur á skýrri opinberri stefnu í húsnæðismálum á stærstan þátt í þeim vanda sem við okkur blasir. Húsnæðisöryggi allra verður aldrei tryggt með frjálsum markaði. Stjórnvöld; ríki og sveitarfélög verða að eiga aðkomu að málum og sú aðkoma þarf að byggjast á raunsærri framtíðarsýn, skýrri stefnu og gegnsæum reglum.

Góðir gestir.

Nú styttist í að tillögur verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála sem ég skipaði á grundvelli ályktunar Alþingis frá síðasta sumri líti dagsins ljós. Það má segja að verkefni hennar hafi verið risavaxin þar sem þau fólust annars vegar í því að kanna hvaða fyrirkomulag á fjármögnun almennra húsnæðislána á íslenskum húsnæðislánamarkaði sé hagkvæmast og hvernig slíku fyrirkomulagi verði komið á. – Hins vegar var henni falið að skoða hvernig unnt sé að tryggja virkan leigumarkað hér á landi og skilvirk félagsleg úrræði fyrir þá sem slíkt þurfa. Í því sambandi var verkefnisstjórninni einnig falið að skoða hvernig stjórnvöld geti sinnt afmörkuðu hlutverki sem felist í veitingu þjónustu í almannaþágu á húsnæðislánamarkaði.

Auk verkefnisstjórnar um framtíðarskipan húsnæðismála skipaði ég breiðan samvinnuhóp til að starfa með verkefnisstjórninni og leggja henni til hugmyndir og tillögur til frekari úrvinnslu. Samvinnuhópurinn skilaði verkefnisstjórninni samantekt með tillögum sínum fyrir nokkru síðan eftir viðamikla teymisvinnu um afmörkuð verkefni.

Í niðurstöðum samvinnuhópsins í því sem snýr að leigumarkaðinum kemur fram skýr afstaða um að ríki og sveitarfélög skuli tryggja forsendur fyrir markvissri uppbyggingu leigumarkaðar með fjárhagslegum stuðningi af ýmsu tagi. Áhersla er lögð á að húsnæðisfélög hafi aðgang að fjármögnun sem hentar rekstri þeirra varðandi veðhlutföll og lánstíma, ríki og sveitarfélög fái heimildir til að fella niður gatnagerðargjöld fyrir húsnæðisfélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða, lagt er til að Íbúðalánasjóði verði heimilað, a.m.k. tímabundið, að lána til leigufélaga án hagnaðarsjónarmiða í þeim tilgangi að koma húsnæði sem þegar hefur verið byggt í útleigu. Þá er lagt til að sett verði frítekjumark á leigutekjur einstaklinga sem leigja út eina íbúð með ótímabundnum þinglýstum leigusamningi og loks er áhersla lögð á að ráðast þurfi í samstillt átak til að lækka byggingarkostnað, meðal annars með endurskoðun á byggingarreglugerð.

Umrædd byggingarreglugerð hefur nú verið endurskoðuð og mér líst mjög vel á niðurstöðuna. Víða hefur verið fallið frá kröfum um lágmarksstærðir rýma en þess í stað sett inn markmið sem rýmin þurfa að uppfylla. Almennt séð veitir reglugerðin nú mun meiri sveigjanleika varðandi hönnun og skipulag, án þess að það sé á kostnað öryggis eða gæða.

Samvinnuhópurinn leggur einnig til að tekið verði upp nýtt húsnæðisstuðningskerfi sem tryggir jafnræði gagnvart leigjendum og eigendum húsnæðis. Sambærilegar tillögur voru áður komnar fram hvað þetta varðar en miðað er við að húsnæðisbætur komi í stað vaxta- og húsaleigubóta.

Samvinnuhópurinn bendir einnig á að virkur leigumarkaður krefst eftirlits og telur nauðsynlegt að efla kærunefnd húsamála. Eins þurfi að skoða hlutverk þeirra aðila sem eiga að tryggja skilvirkna leigumarkað, svo sem byggingarfulltrúa, heilbrigðisfulltrúa og Neytendastofu. Loks má nefna tillögu hópsins um að komið verði á fót vottunarkerfi fyrir leigufélög sem vilja njóta fyrirgreiðslu opinberra aðila og lánveitenda, neytendum til hagsbóta.

Ráðgjafafyrirtækin KPMG og Analytica unnu töluverða greiningarvinnu fyrir verkefnisstjórnina um framtíðarskipan húsnæðismála og skiluðu henni sameiginlegri skýrslu 18. mars síðastliðinn. Þar eru lagðar til aðgerðir sem eiga að styðja við framboðshlið leigumarkaðarins, svo sem lækkun tekjuskatts af leigutekjum, full endurgreiðsla virðisaukaskatts vegna vinnu við byggingu, hönnun, viðhald og endurbætur íbúðarhúsnæðis og átak í skipulagsmálum á höfuðborgarsvæðinu til að auka framboð byggingarlóða fyrir hagkvæmt fjölbýli, auk almenns fjármögnunarkerfis fyrir allar tegundir íbúðarhúsnæðis, - líka fyrir leiguíbúðir.

Góðir fundarmenn.

Ég reikna með að verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála skili tillögum sínum fyrir lok þessa mánaðar og ég er viss um að þótt bið eftir niðurstöðum hennar sé orðin nokkuð löng þá munum við sjá að tíma hennar við stefnumótunarvinnuna hefur verið vel varið.

Ég vil að lokum leggja áherslu á sögulega mikilvægt hlutverk verkalýðsfélaga í húsnæðismálum á Íslandi.  Má þar nefna verkamannabústaðakerfið og uppbygging Breiðholtsins.  Ég hef nefnt uppbyggingu Breiðholtsins fyrir 40 árum sem ákveðna fyrirmynd um samstarf ríkisins, sveitarfélaga, verkalýðshreyfingarinnar, atvinnulífsins og lífeyrissjóða. 

Heildarsamtök launþega hafa á síðustu misserum komið með athyglisverðar hugmyndir um framtíðarskipan húsnæðismarkaðarins.  BSRB með áherslur sínar á leiguíbúðir, ASÍ með hugmyndir um nýtt húsnæðislánakerfi og nú í gær um uppbyggingu á hagkvæmum leiguíbúðum í anda Breiðholtsverkefnisins.  Þessar hugmyndir eru allra athygliverðar.  Gott húsnæðiskerfi er grunnstoð í velferðinni.

Í mínum huga eiga lykilatriði húsnæðisstefnu að felast í tveimur orðum; það eru „val“ og „öryggi.“ Uppbygging leigumarkaðarins er mjög mikilvægur liður í að skapa slíkt val og með markvissum aðgerðum eigum við að geta gert leigumarkaðinn öruggan fyrir þá sem kjósa að leigja fremur en eiga, hvort sem það er til skemmri eða lengri tíma.

Þetta ætla ég að hafa sem lokaorð mín.  Því miður get ég ekki verið með ykkur í dag en eftir nokkrar mínútur hefst ríkisstjórnarfundur.  Hins vegar verður starfsfólk Velferðarráðuneytisins hér í dag og safnar í sarpinn – Og skipuleggjendur... enn og aftur þakka ykkur fyrir að efna til þessarar ráðstefnu um mikilvægt málefni.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum