Hoppa yfir valmynd
9. maí 2014 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Stuðlar kerfið að ágreiningi foreldra? Málþing um framfærslu barna sem búa á tveimur heimilum

Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra
Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra

Ávarp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra

Sæl öll og velkomin til þessa málþings sem fjallar um börn og foreldra, en þó ekki hina hefðbundnu kjarnafjölskyldu sem er kannski ekki svo hefðbundin lengur. Áður en lengra er haldið vil ég lýsa ánægju minni með samstarf félaganna fjögurra sem að málþinginu standa. Það er gott og gagnlegt að félögin sem standa auðvitað ekki að öllu leyti fyrir sömu baráttumálum skuli sameinast um þetta málþing, - því þegar upp er staðið hlýtur meginmálið að vera eitt – og aðeins eitt – að tryggja hagsmuni barnanna sem í hlut eiga.

Í yfirskrift er spurt hvort kerfið stuðli að ágreiningi foreldra. Hér finnst mér rétt að staldra við. Ég er ekki viss um að þessi nálgun sé heppileg, því með þessu móti búum við til andlitslausan andstæðing hins svokallaða kerfis eins og um ókleifan múr sé að ræða. Þetta kerfi er auðvitað ekkert annað en mannanna verk, ákveðið fyrirkomulag eða umgjörð sem sköpuð hefur verið í ákveðnum tilgangi, fjölskyldum til hagsbóta. Ef við erum ekki sátt við umgjörðina skulum við ræða hvað þarf að bæta og hverju þarf að breyta og gera hana betri. Það er mikilvægt að umgjörðin styðji við fjölskyldurnar, hvert sem formið er – og ef mögulegt er að hún sé til þess fallin að draga úr líkum á ósætti og árekstrum. Við skulum þó hafa það hugfast að sjaldnast veldur einn þá tveir deila og fyrst og fremst verður fullorðna fólkið að setja hagsmuni barnanna í fyrirrúm, - alltaf og alveg sérstaklega þegar á reynir. Barnanna vegna skiptir öllu máli að forðast illindi og leysa ósætti með samvinnu og málamiðlunum.

Ég veit vel að þetta getur verið flókið og erfitt. Skilnaðartíðni er há hér á landi og það er algengt að pör í sambúð eigi annað samband að baki, annað hvor aðilinn eða báðir. Það er ekkert óvenjulegt við það að fólk í sambúð eigi saman börn – en einnig börn úr fyrra sambandi. Hálfsystkinahópurinn getur orðið stór við þessar aðstæður – og auðvitað er allur gangur á því hvernig aldursdreifingin er innan hópsins. Börn og stjúpforeldrar mynda tengsl sín á milli – og því geta foreldrar barnanna verið fjórir en ekki tveir, að ekki sé nú talað um hvað fjölgar í afa- og ömmuhópnum. Öllu þessu geta fylgt margvíslegar flækjur og það er vandasamt úrlausnarefni að láta allt ganga upp. Vandamálin sem upp geta komið eru margvísleg. Þetta snýst um forræði, búsetu, lögheimili, umgengni, meðlagsgreiðslur og margvísleg önnur fjárhagsleg málefni – og inn í þetta allt blandast tilfinningar og margt fólk. Allt þarf þetta fólk að eiga regluleg samskipti, ræða verkaskiptingu og fyrirkomulag barnauppeldisins með öllu sem því fylgir, skipuleggja skólagönguna, samverustundir, frí, hátíðahöld og svo framvegis og svo framvegis. – Það segir sig sjálft að þetta er flókið og getur reynt á.

En aftur að umgjörðinni. - Ég tel líklegt að breytinga sé þörf. Fjölskyldan í þeirri mynd sem lengstum hefur verið litið til og rætt um sem einsleita stofnun hefur breyst. Fjölskyldugerðir í íslensku nútímasamfélagi eru afar margbreytilegar og aðstæðurnar þar með sömuleiðis. Veruleikinn er allt annar nú í þessum efnum en hann var fyrir nokkrum áratugum – og því er ekkert skrýtið að gera þurfi ýmsar breytingar og aðlaganir á þeim ramma sem fjölskyldum eru settar í lögum og reglum og eins varðandi þjónustu og ráðgjöf, til samræmis við breyttar aðstæður.

Í samræmi við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar skipaði ég síðastliðið haust verkefnisstjórn sem falið er að móta stefnu og aðgerðaáætlun í málefnum barna og barnafjölskyldna til ársins 2020. Samhliða skipaði ég samráðshóp með fulltrúum rúmlega 30 samtaka og stofnana til að tryggja breiða aðkomu og samráð hagsmunaaðila við mótun stefnunnar. Ég legg áherslu á að ekki einungis verði lögð fram stefna í þessum málum, heldur mun fylgja henni aðgerðaáætlun, þannig að markvisst verði unnið að því að koma mikilvægum verkefnum í framkvæmd.

Við stefnumótunina legg ég áherslu á að tekið sé tillit til mismunandi fjölskyldugerða, að áhersla sé lögð á félagslegan jöfnuð og að allar fjölskyldur njóti sama réttar og sé ekki mismunað.

Á vef velferðarráðuneytisins er sérstakt vefsvæði með upplýsingum um störf verkefnisstjórnarinnar sem vinnur að mótun fjölskyldustefnu – og þar er einnig hægt að koma á framfæri við hana ábendingum og athugasemdum. Ég hvet ykkur til að skoða þetta vefsvæði og fylgjast með starfinu.

Góðir gestir.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri en vil að lokum þakka ykkur sem standið að þessari ráðstefnu fyrir að efna til hennar og vona að hún verði innihaldsrík, áhugaverð og gagnleg.

- - - - - - - - - - - - -
(Talað orð gildir)

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum